Sunnudagur 2. október, 2022
8.8 C
Reykjavik

Guðmundur Felix með tilfinningu í höndum: „Ég veit ekkert hvernig hann dó“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Texti: Svava Jónsdóttir.

Guðmundur Felix Grétarsson er sá fyrsti í heiminum til að fá grædda á sig handleggi annars manns og var það gert nákvæmlega 23 árum eftir að hann missti báða hendleggi sína í slysi. 12. janúar síðastliðinn gekkst Guðmundur Felix undir handleggjaágræðslu á Edouard-Herriot-sjúkrahúsinu í Lyon í Frakklandi þar sem hann hefur verið búsettur síðastliðin ár. Um var að ræða fyrstu aðgerð sinnar tegundar á heimsvísu. Hann finnur meiri draugaverki en áður og er farinn að geta hreyft upphandleggina dálítið.

12. janúar er örlagadagur í lífi Guðmundar Felix Grétarssonar rafvirkja en hann missti báða handleggi sína þann dag árið 1998 í vinnuslysi þegar hann var við viðgerð á háspennulínu. Hann greip fyrir slysni um línu sem straumur var á og féll í kjölfarið niður um átta metra. Brynjólfur Jónsson bæklunarskurðlæknir framkvæmdi í kjölfarið á honum 54 aðgerðir og sagði í samtali við Morunblaðið 15. janúar síðastliðinn aldrei hafa séð önnur eins meiðsli á einni manneskju á sínum 40 ára ferli. Guðmundur Felix rankaði ekki almennilega við sér fyrr en um þremur mánuðum eftir slysið.

Það er starað á mig

„Það tók mjög langan tíma að verða sáttur við það sem ég sá í speglinum og seinni árin fór mér bara að læra að þykja vænt um mig eins og ég var. Ég sá kannski karlmenn með flotta handleggi og fann fyrir brjálaðri minnimáttarkennd. Ég var með enga handleggi og langaði svo að hafa eitthvað. Þetta hefur allt læðst að manni í gegnum árin. Þetta tengist því að vera einstaklingur og kynvera. Það er starað á mig hvert sem ég fer og ég tala nú ekki um þegar ég fer á ströndina. Þetta spilar stóra rullu.“

Guðmundur Felix hefur undanfarin ár búið í Lyon í Frakklandi. Hann náði árið 2007 tali af franska skurðlækninum Jean-Michel Dubernard þegar hann hélt erindi á Íslandi en hann og teymi hans græddu fyrst allra hendur á mann fyrir 20 árum síðan. Guðmundur Felix flutti til Lyon árið 2013 þar sem ljóst var að hann gæti þar mögulega fengið grædda á sig handleggi. Þótt Dubernard sé kominn á eftirlaun er það hann sem hefur leitt þetta verkefni hvað Guðmund Felix varðar.

Líffæragjafi fundinn

- Auglýsing -

Guðmundur Felix komst fyrir fimm árum á biðlista eftir handleggjum og má segja að hann hafi síðan nánast beðið við símann eftir að haft yrði samband við sig og honum tilkynnt að búið væri að finna gjafa. Nokkrir hentugir gjafar hafa fundist í gegnum árin en fjölskyldur þeirra fengust ekki til að skrifa undir samþykki. Þá takmarkaðist leitin við Lyon og nágrenni sem þýddi að gjafinn mátti ekki vera í meira en 40 kílómetra fjarlægð frá borginni þar sem það yrði flókið og háð tímamörkum að flytja hann á sjúkrahúsið.

Haft var samband við Guðmund Felix 10. janúar síðastliðinn. Hugsanlegur líffæragjafi var fundinn. Hann fékk svo samþykki fyrir gjöfinni daginn eftir.

12. janúar gekkst hann síðan undir handleggjaágræðslu á Edouard-Herriot-sjúkrahúsinu í Lyon. Um var að ræða fyrstu aðgerð sinnar tegundar á heimsvísu og tóku rúmlega 50 læknar og hjúkrunarfræðingar frá fjórum sjúkrahúsum þátt í aðgerðinni sem tók um 15 klukkustundir. Eitt læknateymi sá um að fjarlægja handleggi af gjafanum og annað um ágræðsluna.

Með  danska lifur

- Auglýsing -

Guðmundur Felix veit að gjafinn var 35 ára karlmaður. „Ég veit ekkert hvernig hann dó. Það eru ákveðnar reglur upp á að maður þurfi ekki að bera það líka hvernig viðkomadi dó; það sama er um lifrina sem ég fékk eftir slysið fyrir rúmum 20 árum. Hún er úr Dana. Ég er með danska lifur, franska handleggi og er Íslendingur. Þetta er djöfull kúl því það eru ekki margir fæddir í þremur löndum. Það hefur alltaf verið erfiðasti hlutinn að hugsa um að einhver þurfi að deyja til að ég fengi handleggi og líka að það þyrfti helst að vera einhver sem væri yngri en ég. En viðkomandi hefði dáið hvort sem ég hefði verið að bíða eftir handleggjum eða ekki. Ég ætla að hugsa vel um hendurnar hans þannig að þetta er ekki alveg búið hjá honum ennþá,“ sagði Guðmundur Felix en ýmis líffæri úr gjafanum voru sett í aðra. „Þannig að ansi mörgum lífum hefur verið breytt og bjargað,“ sagði Guðmundur Felix þegar hann  spjallaði við íslenska blaðamenn á Zoom-fundi föstudaginn 22. janúar en þann dag var hann fluttur af gjörgæslu.

Rosalega skrýtinn dagur

„Eins og þið sjáið þá lít ég öðruvísi út heldur en þið hafið séð mig áður,“ sagði hann og var stoltur af nýju handleggjunum. „Þeir eru tveir,“ sagði hann um handleggina. „Ég fékk símtal mánudaginn 11. janúar um hugsanlegan gjafa og að ég fengi endanlegt svar daginn eftir um hvort af þessu yrði. Ég hafði fengið svipuð símtöl nokkrum sinnum áður en fjölskyldur viðkomandi voru síðan ekki samþykkar. Það er skemmtilegt að 12. janúar er einmitt dagurinn þegar ég missti hendurnar þannig að ég var búinn að vera handalaus akkúrat 23 ár upp á dag. Þetta var rosalega skrýtinn dagur. Ég þurfti að láta vini mína skutla mér upp á spítalann af því að konan mín, Sylwia, var að vinna. Ég var búinn að sitja og horfa á símann í sjö ár. Svo snerist ég bara í hringi. Ég vissi ekkert hvað ég ætti að taka með mér upp eftir; ég fór bara með einhvern náttslopp og eitthvað drasl sem ég get ekkert notað.“

Guðmundur Felix

Guðmundur Felix var síðan undirbúinn undir aðgerðina og svæfður eldsnemma morguninn eftir, 12 janúar. „Þeir byrjuðu að undirbúa mig og gjafann. Stóri áhættufaktorinn í svona aðgerðum er hversu lengi blóðflæði er ekki í útlimunum. Það er bara hægt að henda útlim eftir sex tíma og hann er þá væntanlega hálfónýtur eftir þrjá tíma en hann byrjar að mynda prótein sem eru bara í rauninni eitur. Það var búið að æfa aðgerðina mörgum sinnum til að reyna að stytta tímann og þetta tókst á einum og hálfum tíma sem er bara algert met. Læknarnir hafa gert minna flóknari aðgerðir og þeir hafa aldrei verið eins ánægðir með niðurstöðuna eins og eftir þessa aðgerð af því að þeir voru svo vel undirbúnir.“

Aðgerðin tók um 15 tíma. 

„Það eina sem komst að í hausnum á mér eftir að ég vaknaði var hvaða maður færi í svona viljandi. Það var eins og tveimur trukkum hefði verið lagt á öxlunum á mér og það voru rör ofan í lungunum. Þetta er búið að vera mjög erfitt. Þetta er búinn að vera mikill sársauki og búið að taka skelfilega á. Ég er búinn að vera í þessari stellingu sem ég er í núna síðan ég vaknaði. Svo hef ég ekkert sofið rosalega vel. Og franska sjónvarpið er hundleiðinlegt þannig að maður er svolítið bara að horfa á veggina. Þetta er vel þess virði og núna er mér farið að líða mjög vel. Ég útskrifaðist af gjörgæslu í dag og er verkjaminni en oft áður auk þess sem búið er að fjarlægja meirihlutann af öllum slöngum og leiðslum úr mér.“

Guðmundur Felix sagði að alltaf mætti búast við einhverjum fylgikvillum. „Þeir bættu við einhverjum æðum í hálsinum á mér og ein þeirra er stífluð en það hefur ekki áhrif á blóðflæðið. Þetta er bara aukaæð af því að þeim fannst vanta eitthvað upp á þetta. Ég var settur á blóðþynningarlyf til að reyna að hreinsa þá æð og þegar verið var að taka legg úr lærinu á mér fór að blæða og missti ég svolítið af blóði þannig að ég þurfti að hætta á blóðþynningarlyfinu til að geta stoppað blæðinguna. Þannig að það fylgja þessu leiðindi og óþægindi en þetta er ekkert sem hefur einhver áhrif til lengri tíma.“

Guðmundur Felix sagði að hann hafi í gegnum árin spurt fólk sem hefur fengið hendur hvernig tilfinning það væri. „Fyrsti sólarhringurinn var í helvíti og þá fannst mér þetta vera einhverjar dúkkuhendur sem væru engan veginn tengdar mér. Ég var allur pakkaður og svo voru þessar dúkkuhendur allar þrútnar og einhvern veginn plastáferð á þeim. Ég var ekkert brjálæðislega hrifinn af þeim. Svo sá maður hár á þeim sem maður kannaðist ekkert við.“ Guðmundur Felix sagði að tveimur dögum eftir aðgerðina hafi bjúgurinn verið orðinn lítill og húðlitur handleggjanna eðlilegur. „Það furðulega er að mér finnst hendurnar vera svolítið líkar gömlu höndunum mínum. Ég er búinn að snerta á mér kinnarnar og bringuna og finna hitann; þær eru sjóðandi heitar. Ég á eftir að verða góður vinur þeirra og hugsa vel um þær. Mér líður mjög vel með þær.“

Guðmundur Felix er búinn að fá örlitla tilfiningu í handleggina og er gott blóðflæði í öllum fingrum. Mikil endurhæfing er fram undan og sagði hann að það muni ekki koma í ljós fyrr en eftir um þrjú ár hvernig aðgerðin hefði heppnast. „Taugarnar vaxa um einn míllímetra á dag þannig að ég get búist við að vera með einhverja tilfinningu og jafnvel hreyfigetu á olnboga eftir ár ef allt gengur eftir. Það mun taka taugarnar um tvö ár að vaxa út í fingur og þá eru það fingur sem hafa ekki hreyfst í um tvö ár. Þegar maður er búinn að bíða svona lengi eftir handleggjum þá finnst manni þrjú ár ekki vera neitt. Loksins hef ég eitthvað annað að gera en bara bíða.“

Draugaverkir

Guðmundur Felix sagði að litið verði á það sem árangur ef hann geti hreyft olnbogana. „Allt umfram það er bónus. Við erum alveg undir það búin að einhvern tímann verði þessar hendur klipptar af og þá gæti ég fengið rosalega töff róbótahendur.“

Guðmundur Felix hefur verið með draugaverki eftir að hann missti handleggina. „Ég hef í rauninni alltaf getað fundið fyrir puttunum á mér en það hefur magnast rosalega og tveimur til þremur dögum eftir aðgerðina fann ég alveg rosalega sterkt fyrir fingrunum á mér. Ég er að finna draugaverki í útlimum sem eru farnir en er samt með útlimi; sem er svolítið sérstakt. Það er búið að sauma taugarnar á okkur saman; það eru einhver samskipti sem eiga sér þarna stað. Ég fæ stundum svakalega stingi sem eru ekki góðir; þetta er svipað og þegar tannlæknir borar í taug. Þetta kemur í nokkrar sekúndur og ég finn aðeins þegar sjúkraþjálfarar eru að hreyfa hendurnar og beygja fingurna. Það er ekki alveg vitað hvað þetta er en ég finn ekkert þegar einhver strýkur handleggina.“

Eiginkona Guðmundar Felix, Sylwia, var hjá eiginmanni sínum á sjúkrahúsinu  daginn sem Zoom-fundurinn fór fram en hann hefur ekki enn hitt foreldra sína. Móðir hans hefur búið í Frakklandi eins og hann undanfarin ár. „Mamma sat við rúmið þegar ég vaknaði eftir slysið fyrir 23 árum.“ Guðmundur komst við og átti erfitt með að tala um tíma þegar hann fór að tala um móður sína. „Hún er ekki ennþá búin að koma til mín út af þessu andskotans Covid. Og ekki heldur dætur mínar sem búa á Íslandi. Þetta fólk er búið að standa svo við bakið á mér.“ Það fór að pípa í tækjum. Það tók augljóslega á Guðmund Felix að tala um fjölskylduna. „Fjölskyldan hefur komið mér í gegnum þetta allt.“

Í Crossfit

Guðmundur Felix sagði að það væri svo margt sem hann hlakkar til að gera ef allt gengur að óskum. „Það sem er efst á baugi hjá mér er að geta verið eitthvað sjálfbjarga. Svo er það skynjunin því ég held að það geri sér enginn grein fyrir því fyrr en hann missir hendurnar hvað við skynjum heiminn mikið í gegnum snertingu. Það er eins og ég sé búinn að vera á Zoom-fundum síðan 1998. Það er allt sjónrænt; ég snerti ekki fólk og mannleg snerting er svo ofboðslega mikilvæg.“

Guðmundur Felix Grétarssin

Guðmundur Felix sagði að hann hefði fyrir nokkrum árum hugsað út í hvað hann myndi gera ef hann fengi nýja handleggi og búinn að ná markmiði sínu. „Þetta er eins og maður hefur heyrt um Ólympíufara; þegar maður nær stóra markmiðinu þá er allt niður á við eftir það. Ég vildi ekki lenda í því að vera bara þunglyndur með nýjar hendur einhvers staðar þannig að ég fór að læra markþjálfun fyrir nokkrum árum síðan. Ég hugsa að ég fari út í eitthvað svoleiðis; sem „speaker“, þjálfi eða hópþjálfi. Ég hef gaman að því og ég hef komist að því að ég er ágætur í því.“

Missti sjálfsmyndina

Guðmundur Felix sagði að hann myndi ekki þekkja þann mann sem hann var fyrir slysið fyrir 22 árum. „Ég er voða einfaldur; það þarf lítið til að gleðja mig og ég nýt lífsins. Mér líður alltaf vel og mér finnst allt vera æðislegt. Ég nýt litlu hlutanna.“

Sjálfsmyndin breyttist eftir slysið. „Ég var trúlofaður, tveggja barna faðir, ég var rafvirki og ég var hitt og þetta. Svo slitnaði upp úr sambúðinni, ég missti vinnuna og gat ekki lengur séð fyrir mér og endaði heima hjá foreldrum mínum. Ég missti sjálfsmyndina eins og ég hélt hún væri.“

Síðustu tveir áratugir hafa verið mikill skóli. „Ég hef öðlast reynslu af að komast í gegnum lífið allan þennan tíma í þessu ástandi. Þetta kennir manni ákveðna auðmýkt og kennir manni ofboðslega margt um hvernig við fúnkerum. Ég get ekki verið hlaupandi á eftir einhverjum tilfinningarússíbana.“

Guðmundur Felix stundar líkamsrækt og jóga og segist fara í Crossfit fjórum til fimm sinnum í viku. „Ég vissi að ég myndi fara í stóra aðgerð og ég hugsaði með mér að í því betra formi sem ég yrði þegar ég færi í aðgerðina því betra. Og ég finn árangurinn af því núna.  Mér líður líkamlega vel eftir þetta allt saman og er sterkur og í góðu standi.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -