Fimmtudagur 25. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Hallgrímur opnar sig um nauðgunina, ástina og dauðann: „Mér fannst ég vera alger hálfviti“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hallgrímur Helgason. Rithöfundur. Skáld. Myndlistarmaður. Eiginmaður. Faðir. Afi. Hann segir hér frá nýju bókinni, nauðguninni, skot á sig sem hann fékk þegar hann sagði frá, skot sem særðu, ástinni og volga sæðinu, börnunum, barnabörnunum, en annað er engill, gagnrýnina sem hann fær á sig, búsáhaldabyltingunni, hælisleitendum og svo talar hann um Tesluna. Og óvissuferðina.

Á milli binda ríkir myrkur.

„Á milli binda ríkir myrkur.“ Þetta er fyrsta setningin í nýjustu skáldsögu Hallgríms Helgasonar sem á að koma út í haust – í bók rithöfundarins, skáldsins og myndlistarmannsins sem hefur skrifað 10 skáldsögur, fjórar ljóðabækur og þýtt tvö Shakespeare verk og svo hefur hann málað svo mörg málverk að það veit sennilega enginn – og ekki einu sinni hann sjálfur – hvað þau eru mörg.

„Bókin verður framhald af bókinni „60 kíló af sólskini“. Það er mikið verk. Núna er það í yfirlestri. Ég veit ekki hvort ég þurfi að bæta einhverju við eða taka eitthvað út. En ég hef sumarið til þess.“

60 kíló. Hvað er nýjasta bókin löng?

„Hún varð aðeins lengri en sú síðasta. Þessi er um 500 blaðsíður.“

- Auglýsing -

Rithöfundurinn er spurður hvar hann fái allar þessar hugmyndir.

Hallgrímur Helgason rithöfundur og listamaður.

„Maður er bara með sína eigin rödd og reynir að láta hana blómstra og ég reyni að þróa hana og þroska. Það er erfitt að útskýra þetta. Maður getur eiginlega bara skrifað það sem sprettur fram úr brjóstinu. Maður sýgur í sig raunveruleikann og lífið og svo síast það allt í einhverri kvörn innra með manni, sem spýtir því svo út í ákveðnu formi, eða ekki. Maður veit aldrei hvað kemur, sem er náttúrlega svolítið skemmtilegt. En þetta er dáldið eins og að stilla á einhverja útvarpsstöð sem enginn annar heyrir og skrifa niður það sem maður heyrir þar. Það er stundum hálfdularfullt hvaðan þetta kemur.“

Hann er spurður hvort hann telji að það sé einhver að ofan sem sendi honum jafnvel skilaboð. Úr öðrum heimi.

- Auglýsing -

„Ofan eða neðan.“ Hann hlær. „Eða einhvers staðar að austan eða vestan. Maður veit það ekki. Já, mér finnst það stundum. Rithöfundurinn er yfirleitt mun klárari og gáfaðri í textanum heldur en hann sjálfur er í prívatlífinu. Það kemur eitthvað utanaðkomandi element þarna inn.“

Hallgrímur Helgason er spurður hver draumur hans sé varðandi bókmenntirnar.

„Að geta skrifað áfram sem lengst. Maður á mikið eftir. Ég meina sko, að maður á mikið af hugmyndum eftir. Maður veit hinsvegar ekki hvað lífið endist. Það er númer eitt að reyna að gera sem mest áður en maður fer.“

Maðurinn sem kominn er á sjötugsaldur er farinn að hugsa svona. Tala svona. Hugsa og tala um dauðann í svona hálfkveðnum vísum. Hann er spurður hvað dauðinn sé í huga hans.

Þögn.

„Það er bara hurð með merki fyrir ofan og á því stendur EXIT.“

Trúir hann á líf eftir dauðann?

„Ég trúi á framhaldslíf í bókum. Að bækurnar lifi. Maður vonar það. Ég hef ekki velt hinu mikið fyrir mér en bíð bara spenntur. Pabbi dó síðasta haust og ég sat mikið hjá honum síðustu dagana. Það er reynsla sem á kannski eftir að skila sér út á einhvern hátt, en mér fannst alltaf eins og hann væri að upplifa dauðahríðir, sem ríma þá við fæðingarhríðirnar. Á korters fresti var eins og hann sveiflaðist yfir landamærin og var þar nokkra stund, kom svo til baka og alltaf með einhvern sannleik, magnþrungnar setningar eins og: “Ég sá að himininn var einn kirkjugarður, allur í krossum.” Höfuðniðurstaða hans var sú að það þyrfti að kenna fólki að deyja. Þetta endurtók hann martgoft: “Það þarf að kenna fólki að deyja!”“

Nauðgunin

Hallgrímur Helgason vildi út. Hann vildi út í heim. Hann var kominn í myndlistarnám í München rúmlega tvítugur.

„Ég talaði enga þýsku, náði engu sambandi við kennarana, kennsluna eða skólann og var utangarðs og einhvern veginn lítill í mér. Svo fór ég til Ítalíu um jólin og varð í Flórens viðskila við hóp drukkinna Íslendinga. Ég ætlaði bara að redda mér hóteli en það var alls staðar fullt. Svo hitti ég eitthvað par á gangi um borgina sem bauð mér að gista hjá sér en þau sögðust vera með hótelherbergi. Svo var konan allt í einu horfin og við fórum tveir upp í lyftunni. Ég var svo grænn. Ég lagðist síðan í rúm í hliðarherbergi á hótelherberginu og bauð góða nótt en tíu mínútum síðar var maðurinn allt í einu kominn uppí til mín, allsnakinn. Svo getur fólk lesið um restina í bókinni minni „Sjóveikur í München”. Maðurinn sagðist vera með byssu í töskunni þegar ég reyndi að flýja.“

Maðurinn var sennilega á fertugsaldri. Frá fyrrum Júgóslavíu.

Hallgrímur sagði ekki frá. Og hann skammaðist sín. Honum datt ekki í hug eftir á að reyna að hafa upp á manninum til að kæra hann. Vissi ekki hver hann var. Hann segist helst ekkert hafa viljað vita af þessu og vildi halda áfram með lífið.

„Mér fannst ég vera alger hálfviti að hafa komið mér í þessar aðstæður. Ég var algerlega grænn og saklaus ungur maður frá Íslandi þar sem engin umræða um samkynhneigð var til yfir höfuð. Ég áfelldist sjálfan mig og vildi bara gleyma þessu sem fyrst. Ég reyndi að jarða þetta niðri í einhverri kistu lengst niðri í minninu. Þetta var bara einum of. Það var ekkert svona í umræðunni á þessum tíma. Ég kom frá sveitalegu og saklausu landi og vissi varla hvað samkynhneigð var og fyrsta sjokkið var auðvitað að uppgötva það yfirhöfuð að karlmaður skyldi girnast annan karlmann á þennan hátt. Það var bara ekki inni í heimsmynd minni. Bara það var mikið sjokk. Og hvað þá að ég færi að segja frá því.“

Árin liðu. Nætur liðu. Vondir draumar. Martraðir.

Það var svo 30 árum síðar sem Hallgrímur ákvað að segja fólkinu sínu frá. Og hann skrifaði um þessa reynslu í fyrrnefndri bók sem kom út árið 2015. Og hann ræddi við starfsfólk Stígamóta nokkrum sinnum sem hann segir að hafi hjálpað mikið. Hann sá eftir að hafa ekki farið þangað mörgum árum áður. Og hann sá eftir að hafa ekki fyrr sagt frá.

„Fyrsti tíminn hjá Stígamótum var mikilvægastur. Þar var mér sagt að það væri eðlilegt að mér liði eins og mér leið, að ég væri að upplifa nauðgunina upp á nýtt, þegar ég fékk þessi vondu viðbrögð við því að koma út með þetta. Þetta var allt mun erfiðara en ég hafði haldið, ég taldi þjóðfélagið vera komið lengra en reyndin var. En eftir á að hyggja var það þess virði. Það frelsaði mig. Þetta er eins og allt í lífinu – maður þarf að ganga í gegnum þjáningar til að upplifa sannleik og sælu.

Mér finnst ég vera annar maður eftir að ég sagði frá. Ég skrifa og mála öðruvísi, finnst mér. Það er betra fyrir aðra að dæma en mér líður þannig. Ég er frjálsari. Maður hefur ekkert að fela lengur. Svona atburður særði mig náttúrlega djúpt og ég reyndi að hylma yfir eða fela sárið. Það fer náttúrlega einhver orka í svoleiðis.“

Margir þekkja fígúru í mörgum málverkum Hallgríms. Hann heitir Grim og líkist honum.

„Ég er hættur að mála hann. Ég held að hann hafi verið tengdur einhverju djúpu sálrænu elementi í mér. Ég held að þessi Grim-karakter hafi verið einhver tjáning á þeirri þjáningu sem fylgdi kynferðisofbeldinu. Nú get ég bara ekki lengur málað Grim eða gert Grim-myndir eftir að ég sagði frá nauðguninni; hann var eins og einhver gríma sem ég er nú búinn að fella.“

Hallgrímur segist hafa lært mikið af þessari lífsreynslu. Þessu ofbeldi.

„Það voru ekki allir hrifnir af því að ég skyldi segja frá og það var meira að segja gert grín að mér fyrir það. Eldri karlar skrifuðu hræðilega pistla um þetta, einn þeirra var titlaður “Aumingi vikunnar” og var eftir virtan geðlækni. Sá versti var eftir virtan kollega í hópi rithöfunda og hlutar úr honum voru síðan fluttir í útvarpinu. Versta setningin var: „Hvaða kynvillingur hafði svona slæman smekk?“ Þetta var í menningarþættinum Víðsjá, og átti víst að vera þar í bókmenntafræðilegu samhengi, einhverskonar “fagurfræðileg” umfjöllun eins og sumir hafa skrifað hér og þar, og reynt með því að sannfæra þolandann um að honum hefði ekkert átt að sárna. Slíkt er vel þekkt í fræðunum og heitir gaslýsing: Þessi vanlíðan þín er bara misskilningur, þig misminnir bara. Hættu nú þessu veseni. En talandi um fagurfræði þá vita listamenn það auðvitað manna best að fyrir þeim er fagurfræðin bara eins og flugverkfræðin er fyrir fuglunum, eins og góður maður sagði.”

„Ég hélt við værum komin lengra í þessum málum. Me too-byltingin var tveimur árum seinna og svo kom önnur Me too-bylting um daginn og þá lenti ég aftur í hasar út af þessu. Manni svíður að fólk geti haft kynferðisofbeldi í flimtingum og jafnvel átalið einhvern fyrir að stíga fram og segja að sér hafi verið nauðgað. Ég vil bara minna fólk á það enn og aftur. Að ávíta þolanda kynferðisofbeldis fyrir að stíga fram með sögu sína er ákveðið form kynferðisofbeldis. Svo vona ég bara að menn, karlmenn, læri eitthvað af þessu öllu saman.“

Rithöfundar skrifa sumir um lífsreynslu sína. Hallgrímur hefur stundum skrifað um nauðganir í bókum sínum.

„Það gefur mér tækifæri til að fjalla um þessi mál af því að ég þekki það frá fyrstu hendi. Kannski er það ekki tilviljun að mér er tíðritað um nauðganir. Sársaukinn er auðvitað máttugt viðfangsefni.“

Hann nefnir líka skilnað. Skilnaði.

„Að koma út með kynferðisofbeldi er soldið eins og að lenda í skilnaði. Annaðhvort brotnar maður eða styrkist af því. Lífið mallar ekki bara áfram eins og það var. Það fer annaðhvort niður, eða upp. Og tilfinning mín er að ég hafi bara styrkst af þessu. Eða ég vona það allavega.“

Ástin

Skilnaður. Skilnaðir.

Hallgímur hefur þrisvar verið í sambandi og núverandi maki hans er Þorgerður Agla Magnúsdóttir.

Hvað er ástin?

Þögn.

„Það er að geta verið maður sjálfur og að hin manneskjan geti verið hún sjálf og að maður taki henni eins og hún er og hún taki manni eins og maður er. Mikilvægast í samböndum er síðan traust, hreinskilni og djúp vinátta. Svo snýst líka bara um að geta hlegið saman, hafa sama húmor, og geta gert grín að hvort öðru. Það gefur alveg ótrúlega mikið.“

Hallgrímur er spurður hvað hafi heillað hann við Öglu.

„Fyrst var það nú bara hvað hún var klár og sæt og með þessa ótrúlega fallegu, mjúku húð. Svo fann ég fljótt ég að hún er það sem kallast alvöru kona. Það er hugtak sem er erfitt að útskýra, en snýst aðallega um traust. Svo er hún kannski líka bara rétta konan fyrir mig, með sína miklu þolinmæði og hlustun, og endalausu virðingu og næmi fyrir hugmyndum, tjáningu og list. Svo kemur landsbyggðar-elementið þarna líka sterkt inn; hún ólst upp á sveitabæ í Önundarfirði. Fólk sem elst upp í djúpum firði úti á landi er auðvitað dýpra en annað fólk!

Hallgrímur Helgason rithöfundur og listamaður.

Hann hlær.

Hallgrímur og ástin hans eiga þriggja ára gamla dóttur. Hún heitir Málfríður Jóhanna. Hún er óskabarn.

„Við Agla vorum búin að vera í tæknifrjóvgunarferli í sjö ár sem gekk upp og ofan. Tvær af þeim tilraunum báru árangur en svo slokknuðu þau líf skömmu eftir að við fengum strik á prikið. Þetta var rosalegur rússíbani að ganga í gegnum og mjög frústrerandi auðvitað. Maður var orðinn dauðleiður á því að bruna með volgt sæði eftir Reykjaesbrautinni upp í Kópavog þar sem Art Medica var til húsa. Þetta var eins og maður væri að keyra upp einhver leggöng og vona að þetta myndi heppnast í það skiptið. Og svo að afhenda þetta í móttökunni hjá konunum og aldrei gekk þetta. Það eru kómískar hliðar á þessu líka. Þetta var erfiðara fyrir Öglu af því að hún átti engin börn. Ég átti þrjú börn fyrir. Þannig að missirinn var alltaf meiri hennar megin. En ég var líka sár yfir að geta ekki átt barn með henni. Svo tókst það fyrir þremur árum síðan og úr varð hátíð sem hefur staðið yfir síðan yfir. Það er gleðifjör á hverjum degi. Sú stutta er svo skemmtileg.“

Hallgrímur eignaðist elsta barn sitt, dóttur, þegar hann var 25 ára.

„Það var svona „one night stand“. Síðan flutti mamma hennar til Hafnar í Hornafirði og ég til New York. Það var því ekki mikið samband fyrstu árin. Ég var ungur og óþolinmóður og vildi bara vera að mála og tók þetta kannski ekki nógu alvarlega. Ég álasa mér fyrir það í dag. Það er ekkert hægt að bæta upp þennan tíma sem ég glataði með elstu dóttur minni. Hann er bara farinn og tengslin við hana eru því önnur en við hin börnin. Og ég ákvað að svona mætti ekki gerast aftur. Svo á ég tvö börn með Oddnýju Sturludóttur, sem eru 16 og 17 ára, og skildum við þegar þau voru mjög ung. Við vorum með þau viku og viku og þegar maður er í slíku kerfi þá hættir manni til þess að leyfa þeim meira, láta meira eftir þeim og gera allt fyrir þau. Ég held ég hafi ekki verið eins strangur og ella af því að ég var alltaf svo feginn þegar þau komu til mín. Þá varð maður svo glaður og vildi leyfa þeim allt. Þannig að uppeldið varð kannski aðeins öðruvísi. Í dag er þetta hálffullorðið fólk og viku-viku kerfið úr sögunni.“

Svo kom Málfríður í heiminn.

„Agla var svo rosalega ánægð með að hafa eignast barn og móðurástin er svo stór að mér finnst ég ekki eiga roð í hana. Þær eru rosalega sterk eining og ég verð dáldið útundan; kannski vegna þess að ég er svolítið eldri og þreyttari pabbi. Stelpan vill mest vera með mömmu sinni og ég þarf stundum að berjast fyrir mínum pabbarétti til að fá að lesa fyrir hana!“

Er Hallgrímur afbrýðisamur?

„Já. Ég er það. Mér finnst það bara hollt. Það er ekkert svo slæm tilfinning. Bara gott abbó sko.“

Hann var 58 ára þegar Málfríður Jóhanna fæddist.

„Það hafði nú bara vaknandi og hvetjandi áhrif mann að verða faðir tæplega sextugur. Maður yngist upp og það er eins og lífið byrji aftur. Það er allavega ekki eins og því sé að fara að ljúka. Þetta kemur hins vegar aðeins niður á afahlutverkinu; ég er svo þreyttur í lok dags að ég hef ekki jafnmikla orku fyrir barnabarnið og ella.“

Hann á eitt barnabarn. Missti það fyrsta.

Dóttir hans, Hallgerður, fæddi andvana dóttur þegar hún var fullgengin með.

„Þetta var sama haust og umræðan um bókina mína og nauðgunina fór fram þannig að þetta voru frekar dimmir dagar þarna haustið 2015. Barnabarnsmissirinn var eitt af þessum stóru áföllum sem maður óskar engum að lenda í. Hrein martröð.“

Þögn.

„Við gátum tekið gleði okkar aftur ári síðar þegar þau Hallgerður og Sigurður Arent Jónsson, maður hennar, eignuðust annað barn. Það var mjög sláandi að sjá hvernig nýtt líf getur bætt missinn á öðru.“

Hallgrímur orti ljóð um barnabarnið fyrsta sem lifði ekki. Ljóðabók kom út með þeim ljóðum. Hún heitir „Fiskur af himni“. Eitt ljóðið er svona:

27.09.15

(hluti)

 

“Þið megið koma núna inn”

segir rauðbirkin kona á hvítum klossum

en skurðgrænni blússu

og við göngum fylktu liði

hönd í hönd eftir ganginum

 

Líkfylgd á fæðingardeild

 

Faðirinn bíður okkar á ganginum

yfirvegaður af sorg

með augu sem hafa séð

það sem enginn á að sjá

það sem ekki verður sagt

 

Hann vísar okkur inn til konu sinnar

og dóttur

sem liggur grafkyrr í kælivöggu

eilítið gráleit á hvítri samfellu

heimt úr hafi

volkuð og blettuð

og varalituð svört af óvini lífsins

fyrir þessa athöfn

en samt sem áður svo engilfríð og engismjúk

með nefið móður sinnar og munninn föður síns

en augun aftur

útaf fyrir sig

sín eigin augu

sem sáu svo margt á ferðum sínum

en liggja nú lukt

í þessu skínandi skæra ljósi

frá perunni hér í loftinu

 

Og örlítið pirruð á svipinn

af því hún er ekki alveg ánægð með þetta

 

Nei

 

Hún er greinilega

ekkert sérstaklega ánægð með þetta

 

Foreldrarnir ungu segja hvað hún heitir

og nafnið kemur eins og eldhnífur í sárið

við lyppumst aftur niður

rétt náum að grípa um næsta háls

svo við hröpum ekki aftur

niður í blátt fljótandi plast

 

Hér gerist allt í einu

fæðing skírn og útför

 

En ég leyfi mér að trufla

það athafnaflóð

með orðinu afsakið

rétti upp hönd

og gríp hér inn í

með öllu mínu afli

með öllu mínu ímyndunarafli

að varna þessum lyftudyrum lífsins

að lokast

og ég sé

ég sé inn í lyftuna

ég sé hana blása á kerti

ég sé hana skora mark

ég sé hana hlæja á djamminu

ég sé hana í flugvél

ég sé hana rísa úr sæti og fara á klóið í flugvél

hún er háfætt

og þarf ögn að beygja höfuðið

þegar hún hverfur inn á snyrtinguna

ég sé hana koma út á pall með grænmeti á teini

sem á eftir að grilla

ég heyri hana segja að hún ætli að flytja til Afríku

að hún þurfi að flytja til Afríku

hún er víst fyrsti Íslendingurinn sem lærir afarísku

sem töluð er í Eþíópíu Eritreu og Djibútí

hún segist finna sig þar

hún

 

Hún sem fær ekki

hún sem fékk ekki

hún sem

 

Ekki

Hallgrímur Helgason rithöfundur og listamaður.

Teslan

Rithöfundur. Myndlistarmaður. Þekktur. Hallgrímur Helgason hefur verið gagnrýndur fyrir hitt og þetta svo sem að þiggja listamannalaun.

„Ég tek ekkert mark á svoleiðis. Það eru bara bullukollar úti í bæ sem gera það af einhverri öfund eða halda að það sé engin vinna að vera listamaður og launin fái maður “fyrir ekkert” þegar listafólk er nú einmitt það fólk sem leggur alltaf mest á sig og vinnur lengst og mest. Listamannalaun eru ekki há laun. Þetta eru um 409.580 krónur á mánuði og verktakagreiðsla að auki. Það er bara eins og hver annar ríkisstarfsmaður fær, samt í lægri kantinum og maður reynir að skrimta á þessu með öllum ráðum. Markaðurinn á Íslandi er mjög lítill og það er erfitt að sjá fyrir sér og sínum með því að skrifa bók á tveggja til þriggja ára fresti sem maður fær kannski tvær til þrjár milljónir fyrir ef hún selst vel. Það er náttúrlega ekki nóg til að lifa af. Þá koma listamannalaunin inn og það er líka bara mjög erfitt að fá listamannalaun. Maður verður að sýna að maður sé virkur og sé að skrifa og það þarf að skila vinnuskýrslu eftir hvert ár og sýna fram á hvað maður gerði síðasta árið sem maður var á launum. Þetta eru erfiðar síur sem maður fer þarna í gegnum, þannig að ég lít alltaf á það sem mikinn heiður að fá listamannalaun.“

Hann viðurkennir að hann hafi lúmskt gaman af því að vera skotspónn.

„Listamenn geta bara grætt á umtali, líka þó það sé illt. Það bara fylgir þessu djobbi. En ég verð að segja að mér hefur sárnað að sjá að það sé til fólk þarna úti sem finnst í lagi að gera grín að nauðgun, og það jafnvel eftir Metoo-bylgju númer tvö. Það stingur mig. Ég er hins vegar ekki eins viðkvæmur því hvað fólk segir um bækurnar mínar, hvað ég segi í viðtölum eða hvort ég sé á listamannalaunum. Mér er alveg sama um það. Það snertir mig ekki mikið.“

Honum er skítsama en honum er ekki skítsama um samfélagið sem hann býr í og segist nýta um hálftíma á hverjum degi til að láta skoðanir sínar í ljós svo sem á samfélagsmiðlum. Hann hefur látið þær í ljós á annan hátt í gegnum tíðina og tók til dæmis þátt í búsáhaldabyltingunni á sínum tíma.

„Þetta var svo mikið sjokk fyrir alla. Og kannski extra mikið sjokk fyrir mig af því að ég hafði verið lúmskt hrifinn af þessum útrásarvíkingum. Þeir voru reyndar að gera alveg óskiljanlega hluti en það var þessi ljómi yfir þeim. Það voru í raun allir sammála um að þetta væru allt stórkostlegir gaurar og að útrásin væri frábær. Annað heyrðist varla. Það var því svo mikið sjokk þegar allt hrundi. Og ríkisstjórninn vara bara lens, með Davíð delerandi á kantinum. Fullkomið kaos. Algjört hrun. Búsáhaldabyltingin var bara sjálfsprottin. Það voru engir leiðtogar. Þessu var ekkert stjórnað. Þetta bara gerðist. Og fólk fékk kikk út úr því að standa fyrir utan Alþingishúsið og berja á potta og pönnur. Sumir kveiktu í jólatré og ég kastaði snjóbolta í Stjórnarráðið og barði í bílrúðuna hjá Geir H. Haarde. Þetta var heilög reiði. Og kannski gengum við stundun of langt. En þetta var einhver andleg hreinsun. Nauðsynleg hreinsun. Og Ísland varð ekki eins á eftir. Það varð mun meiri þátttaka í lýðræðislegri umræðu. Allt í einu fóru allir að skrifa greinar og allt í einu var Facebook logandi af þúsund röddum sem fengu að ljóma þar. Það var ekki lengur bara hlustað á ákveðna skríbenta. Þetta var ótrúleg bylting sem sýndi sig best í stjórnarskrárferlinu; að við kusum fólk til að semja nýja stjórnarskrá og hún var síðan samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu og það er ótrúlegt að stjórnmálamennirnir hafi svo bara ákveðið að hundsa hana. Ég meina, Brexit var samþykkt í alveg eins þjóðaratkvæðagreiðslu og það hvarflaði ekki að neinum í Bretlandi að hundsa hana. Hér gilda hinsvegar einhver önnur lögmál en lýðræði þegar kemur að mikilvægustu og viðkvæmustu málunum.“

Hallgrímur hefur líka vakið athygli á skoðun sinni á málefnum hælisleitenda og jafnvel því að honum finnst að veita ætti öllum hæli.

„Nígeríumaður kom í fjölskyldu okkar fyrir tveimur árum og kvæntist systur Öglu í fyrra og þau eignuðust síðan barn. Hann kom hingað sem námsmaður. Allt sem fylgir honum er auðvitað mjög framandi en fyrir okkur er hann bara gangandi kraftaverk og úr því kom þetta líka kraftaverk sem barnið er. Og mikil hamingja. Við Íslendingar eigum að hætta að vera hrædd við kraftaverk. Við erum nefnilega alltaf að vísa þeim frá okkur. Við höfum það svo gott á Íslandi. Við ættum að taka opnum örmum því fólki sem er að flýja stríð eða fátækt. Það ætti bara að leggja niður þetta mikla útlendingabatterí sem eyðir rosalegum peningum og breyta því í stórkostlega gestamóttöku. Við verðum líka að endurhugsa hugtakið „þjóð“. Hvað er þjóð? Kannski er það hugtak bara úrelt. Ég vil að fólk spyrji sig spurningarinnar: Hvort er mikilvægara, menning eða mannslíf? Hér er pláss fyrir 20 milljónir. Ef það strandaði olíuskip úti fyrir Langanesi með 5000 flóttamenn um borð, hvort myndum við reyna að bjarga þeim eða reyna að bjarga íslenskri tungu og menningu frá þeim?“

Hallgrímur er spurður hvort honum finnist vera rasismi á Íslandi.

„Hann er lúmskur. Hann er þarna. Hann er líka í menningunni. Íslendingar hlusta til dæmis bara á hvíta músík. Tólistarmenn verða að vera hvítir karlkyns Ameríkanar eða Bretar til að fólk hlusti á tónlist þeirra.“

Hann er spurður hvernig tónlist hann hlusti á.

„Uppáhaldstónlistin mín er eighties RnB, sem ég kynntist á New York árunum, og ég hef hana stundum á þegar ég er að mála. En ég held að ég sé algjörlega einn um þennan tónlistarsmekk hér á landi! Fyrir utan þetta hlusta ég alltaf meira á klassísk. Núna erum við hlustum við á Töfraflautuna í bílnum þegar ég sæki dóttur mína í leikskólann, það er visst óperu-uppeldi í gangi og hún er einkar hrifin af Næturdrottningunni. Í poppinu læt ég Eurovision duga, þessi þrjú lög sem hún gefur af sér árlega.“

Hallgrímur Helgason rithöfundur og listamaður.

Hann kaus úkraínska lagið.

Talandi um bíla.

Svo er það Samherji og Teslan fyrir utan húsið þar sem Hallgrímur býr.

„Mér leiðast tölur og peningar, kjaramál og efnahagsmál, og næ því aldrei að verða almennilega heitur í þeim málum. Ég er meira fyrir spillingarmálin eins og Samherjamálið til dæmis. Samherjamálið hefur verið mér hugleikið síðustu daga og ég varð reiður eftir að skæruliðadeildin var afhjúpuð og þar kom ég meira að segja við sögu. Þeir flettu mér upp í ökutækjaskrá til að njósna um mig. Auðvitað sveið manni það. Það átti að nota gegn mér að ég ætti Teslu og væri á listamannalaunum, upptaktur að þvílíku stórhneyksli. Staðreyndin er sú að nágranni minn, sem deilir með mér innkeyrslu, á Teslu. Tesla er svo annars ekkert rosalega dýr bíll en hann lúkkar vel og er svolítið millalegur að sjá. Mér finnst nú, í ljósi atburða, að Samherjamenn megi alveg splæsa í eina Teslu handa mér. :)“

Sjálfur segist Hallgrímur eiga Hyundai Santa Fe árgerð 2005. Svo á hann gamlan Galoper-jeppa árgerð 1998 sem er úti í Hrísey.

„Það er í rauninni heiður að vera kominn á hittlistann hjá Samherja. Það sýnir að maður er að gera eitthvað rétt og gott.“

Lífið er stundum eins og málverk og málverk eru stundum eins og lífið sjálft. Spegilmyndir. Realismi. Súrrealismi.

Hallgrímur er búinn að taka af sér grímuna og losa sig við Grim. Hann er farinn að mála öðruvísi myndir. Hann stefnir að því að halda sýningu í haust.

„Ég er nú meira fyrir að mála innra lífið en það ytra. Ég nenni ekki lengur að vera natúralískur og mála hlutina eins og þeir líta út á yfirborðinu. Óvissan er meira spennandi, að fanga ástandið sem ríkir innra með mér og sjá hvað kemur út úr því. Maður sé það ekki fyrr en myndin er búin. Þetta er auðvitað óvissuferð sem getur stundum verið mjög óþægileg og frústrerandi, en eins og bandaríski málarinn Philip Guston sagði, þá snýst hin sanna list frekar um frústrasjón en fullnægingu.

Er lífið óvissuferð?

„Já, það verður að vera. Annars er ekkert fútt í því. Það þarf að vera eitthvað óvænt á bak við hólinn.“

Óvissuferð. Öðruvísi myndir. Jú, stundum er lífið eins og skáldsaga. Í mörgum bindum. Næsta bindið kemur út í haust. Sextíu kíló af einhverju sem við vitum ekki hvað verður.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -