• Orðrómur

SÖFNUN- Íris var allslaus og í forræðisdeilu í Bretlandi:„Ég átti ekkert og lenti næstum á götunni“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

„Sé litið til baka sé ég núna að það voru ský á lofti sem ég tók ekki eftir, ég gæti trúað að þar sé menningarmunurinn að spila inn í,” segir Íris Dögg Margeirsdóttir, leikskólastarfsmaður, búsett í Bretlandi, sem stendur í forræðisdeilu við fyrrverandi sambýlismann sinn.

Íris er 36 ára Keflavíkurmær sem flutti ásamt fjölskyldu sinni til Danmerkur árið 2007. Hún kynntist manni sínum á Facebook tveimur árum síðar og ástin vaknaði. Hann er Portúgali sem var við nám í London. „Ég flyt út til hans í febrúar 2010 til að gefa honum færi á að klára námið. Hugmyndin var alltaf að við færum aftur til Danmerkur en hann dró það og ekkert varð úr. Síðan gerast hlutirnir hratt. Við eignumst eldri stelpuna í desember sama ár og þá þá yngri árið 2014.“

Stóð uppi allslaus

- Auglýsing -

Íris segir vissulega hafa verið erfitt að vera nýbökuð móðir í ókunnugu landi án stuðnings fjölskyldu og vina. „Þegar eldri dóttir mín var lítil fékk ég hlutastarf fjögur kvöld í viku en fannst erfitt að vera án fjölskyldunnar á kvöldin svo ég sameinaði tvær kvöldvaktir í eina dagvakt. Það þýddi auðvitað að ég þurfti að setja hana á leikskóla, sem er rándýr hérna úti, en það var litið svo á á mínu heimili að börnin væru á mína ábyrgð og því væri það mitt að greiða fyrir leikskólann.“

Íris Dögg ásamt Oliviu Hafdísi og Isabellu Írisi á góðri stund.

Fjölskyldan keypti hús árið 2013. „Minn fyrrverandi sagði það ekki góða hugmynd að setja nafn manneskju í hlutastarfi á pappírana á láninu við húskaupin og ég tók þeirri skýringu sem eðlilegri á sínum tíma. Það kom í bakið á mér þegar við skildum fjórum árum seinna og ég stóð uppi allslaus með ekkert á mínu nafni.“

- Auglýsing -

Heimilishaldið var alfarið á höndum Írisar, hún sá um daglegan rekstur heimilisins og sinnti dætrunum enda leit faðir þeirra svo á að það væri hlutverk móður að elda og sinna barnagæslu á meðan að hann ynni. „Ég var líka mikið ein og þekkti fáa, við höfðum flutt bæja á milli og lítið náð að kynnast fólki. Ég eignaðist þó nokkrar vinkonur í kennslu í ungbarnanuddi þar sem ég var með eldri stelpuna, þær eru góðar vinkonur mínar enn þann dag í dag.”

Skrítin og vond tilfinning

Íris stóð uppi heimilislaus við skilnaðinn. „Ég átti ekkert og lenti næstum á götunni. Ég fékk að gista hjá vinkonu í nokkra daga því minn fyrrverandi tók ekki í mál að flytja. Kerfið hérna er gríðarlega flókið, ekki síst fyrir útlending sem er að reyna að fá stuðning. Sem betur fer lenti ég á góðum leigusala sem tók sénsinn á að leigja mér áður en ég fékk svör um húsaleigubætur sem ég síðan fékk.

- Auglýsing -

Ég fékk ekki að taka neitt af heimilinu, ekki einu sinni rúm eða önnur húsgögn barnanna. Þegar ég fór fram á það fékk ég þau svör að það myndi eyðilegga ásýnd herbergisins. Því sváfum við á dýnum í galtómri íbúð í byrjun. Ég þurfti að leita á náðir fjölskylduhjálpar sem var mjög lágur punktur í mínu lífi. Það var skrítin og vond tilfinning að vera upp á aðra komin með nauðsynjar. Í matvöruverslunum hér eru stórar grindur þar sem unnt er að setja í mat og nauðsynjar aðrar en ferskmeti sem síðan er deilt á matarbanka. Ég set alltaf eitthvað í grindina þegar ég kaupi inn, ég veit vel hvernig er að vera í þessum sporum.“

Litla fjölskyldan ásamt heimilshundunum Kilo og Freyju.

Saknar stuðningsnets

Íris tekur fram að fyrrverandi maður hennar sé alls ekki vondur maður en með afar ólíkan bakgrunn og forgangsröðun. „Honum finnst gaman að vera leikpabbinn og tekur þær aðra hvora helgi þótt ég viti reyndar aldrei hvenær hann kemur og hvort hann kemur yfirleitt. Hann kom til dæmis ekki þegar hann var að vinna í húsinu, það hefði truflað hann. Hann vill fara í bíó, spila tölvuleiki og gera skemmtilegu hlutina með þeim. Hann hefur aftur á móti aldrei verið á því að vakna með þeim eldsnemma um miðja vikuna og undirbúa þær í skólann, hann segir það skemma líkamsklukkuna sína!

Með tímanum fór Íris að sakna fjölskyldu sinnar sífellt meira, ekki síst þegar þjóðfélagið lokaðist í Covid. „Ég hef ekki haft neitt stuðningsnet hérna í Bretlandi og vildi komast til mömmu, pabba og systkina minna í Danmörku. Mamma vildi gjarnan koma en sá sér það ekki fært því hún er með yngri börn. Ég er náin fjölskyldunni minni og það var alltaf ætlunin að búa nálægt þeim. Skólafríin er líka erfið, það er augljóst að þegar skólinn er lokaður 11-12 vikur á ári er það erfitt fyrir einstæða móður sem er með þriggja vikna sumarfrí á ári.“

Lögfræðikostnaðurinn hefur reynst Írisi þungur í skauti.

Aðspurð að því hvort hennar fyrrverandi hafi ekki tekið börnin í fríum segir Íris hann hafa tekið telpurnar þegar hann var sjálfur í sumarfríi. „Hann hefur farið með þær til Portúgal í sumarfrí en hann er ekki týpan sem tekur sér annað frí úr vinnu til að „passa” þær. Ég má heldur ekki senda þær til foreldra minna í Danmörku. Svo er mikið ströggl að koma þeim í tómstundastarf eins og er á Íslandi, eins og allt sem snertir börn hérna er það óskalega dýrt.”

Reyndi að finna lausnir

Sambýlismaðurinn fyrrverandi tók afar illa í hugmynd Írisar um flutninga. „Ég reyndi bókstaflega allt til að ná sameiginlegri niðurstöðu. Ég bauðst til að fá borgað meðlag annan hvern mánuð svo hann gæti nýtt hinn helminginn í að ferðast eða fljúga þeim til sín en það var strax slegið út af borðinu.

Ég skil hann svo sem alveg, þetta eru líka börnin hans, en ég er ekki að taka þau frá honum. Það er fullt af fólki í þessum sporum og gengur bara ágætlega. Ég bauðst einnig til að koma með þeim þrisvar til fjórum sinnum á ári auk þess sem hann gæti komið í heimsókn til Danmerkur. Ég bauðst meira að segja flytja úr þeirri íbúð sem ég væri komin í og inn til mömmu og leyfa honum að vera með stelpurnar í friði. En nei, því var ekki tekið. Hann segir að það mér sé velkomið að flytja svo lengi sem ég skil þær eftir, þær séu fæddar í Bretlandi, séu Bretar og eigi að vera þar.

Sem er í raun fyndið því hann hefur ekkert verið að sinna þessum daglegum hlutum og aldrei mætt á foreldrafundi eða séð stelpuna í fimleikum.“

Íris stakk upp á að þau færu í sáttameðferð sem hann var ekki fylgjandi og reiddist hann tilögunni í upphafi. Hann lét þó til leiðast en þær viðræður sigldu í strand.

Dómstólar eini kosturinn

Þá sá Íris engann annan kost í stöðunni en að leita til dómstóla. Fyrirtaka málsins var í nóvember síðastliðinn. „Það er enginn millivegur í þessu máli. Það er ekki eins og ég flytji til Þýskalands því það er á milli Bretlands og Danmerkur. Annaðhvort fæ ég að fara með stelpurnar úr landi eða ég er föst hérna í mörg ár í viðbót. Það kemur aldrei til greina að ég yfirgefi börnin mín. Ég hef verið hreinskilin við þær um hvað er í gangi og þær vita að þetta er ekki lengur í höndum mömmu og pabba, þetta er í höndum dómarans. Fyrrverandi maður minn hefur reyndað spilað þennan leik af færni, ýtt undir sektarkennd stelpnanna um að yfirgefa hann og flogið mömmu sína til landsins til að sýna fram á fjölskyldunet í Bretlandi. Hún skildi að baki eiginmann, börn, barnabörn, hús og hund!

Hún kann reyndar enga ensku og þar sem hann kenndi aldrei stelpunum portúgölsku geta þær ekkert talað við ömmu sína.”

Ferlið hefur reynst Írisi dýrt. „Lögfræðingar eru rándýrir og ég hef þurft að nurla hverri krónu saman. Leikskólastarfsmenn eru ekki hátekjustétt. Fjölskylda mín og nánar vinkonur hafa lagt sitt af mörkum, sem ég er óendanlega þakklát fyrir, en ég viðurkenni alveg að ég hef átt svefnlausar nætur. Auðvitað var mitt val að fara þessa leið en ég sá engan annan kost í stöðunni. Það er sorglegt að hugsa til þess en einhver verður afar miður sín þegar þessu er lokið. Ég treysti mér ekki til að segja hvort okkar það verður,“ segir Íris Dögg Margeirsdóttir, móðir og leikskólastarfsmaður í Bretlandi.

Þeir sem vilja leggja Írisi lið við lögfræðikostnaðinn er bent á söfnunarsíðu sem er að finna hér.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -