Fimmtudagur 18. apríl, 2024
2.1 C
Reykjavik

Jónas gerðist grænkeri með fikti: „Mér leið eins og ég ætti að vera í algjörri örvæntingu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Jónas Reynir Gunnarsson er ungur og efnilegur rithöfundur en hann hefur komið eins og hljóðlátur stormsveipur inn í bókmenntaheiminn undanfarin ár. Hafa bækur hans hlotið lof gagnrýnenda sem og bókmenntaverðlaun og jafnvel verið þýddar yfir á önnur tungumál. Svo er Jónas mikill húmoristi. Jónas ræddi við Mannlíf um heimabæinn, skáldskapinn, veganismann og húmorinn. Sem sagt um eitt og annað.

Hinn fagri Fellabær

„Það var bara ljúft að alast upp í Fellabæ,“ sagði Jónas Reynir og svo varð vandræðaleg þögn og skella þeir upp úr, Jónas og blaðamaðurinn. Spurningin var ekkert sérstök, hvernig var að alast upp í Fellabæ? Svarið var stutt enda kannski lítið meira um það að segja, það var bara ljúft að búa í Fellabæ.

Jónas Reynir í náttúrunni
Mynd: Elín Inga Bragadóttir

Aðspurður hvort Fellabær hafi gefið honum einhvern innblástur í skrifin segir Jónas svo vera. „Já, fyrsta ljóðabókin mín, Leiðarvísir um þorp. Það er auðvelt að draga línu frá henni í Fellabæ. Og líka í skáldsögu minni, Dauði skógar, en í hvorugri bókinni kemur nafnið Fellabær fram samt. Já, og svo í ljóðabók minni Þvottadagur koma fram æskuminningar frá Fellabæ.“ Sem sagt, af sex bókum sem Jónas hefur skrifað hefur Fellabær gefið honum innblástur í helming þeirra, verður það að teljast nokkuð gott. „Og það er kannski algengt meðal rithöfunda, svona mótandi æskuár.“

Jónas Reynir
Mynd: Dirk Skiba

Skrítið að gefa ekki út bók þetta árið

Jónas Reynir bjó í Fellabæ þar til hann var orðinn 22 ára en þá flutti hann suður og hóf nám við Háskóla Íslands. Þar fékk hann BA- og mastersgráðu í ritlist með kvikmyndafræði sem aukagrein. Árið 2017 komu út þrjár bækur eftir Jónas, sem hugsanlega er Íslandsmet. Það voru tvær ljóðabækur og ein skáldsaga. Síðan þá hefur svolítið hægst á Jónasi Reyni en þó komið út ein bók á ári. Þar til þetta árið. Aðspurður hvort það sé ekki svolítið skrítin tilfinning að vera allt í einu ekki með í jólabókaflóðinu segir Jónas það hafa verið það fyrst.

- Auglýsing -

„Ég er svona aðeins farinn að venjast því núna en fyrri hluti ársins var mjög skrítinn því ég er vanalega á vorin að ganga frá bók fyrir haustið. Og svo fékk ég níu mánaða listamannalaun en hafði aldrei áður fengið svo mikið úr því, þannig að maður var orðinn vanur því að troða marvaðann en núna náði ég loksins niður á botninn.“ Jónas segist hafa verið eirðarlaus til að byrja með og ekki vitað hvað hann ætti að gera við sig. „Mér leið eins og ég ætti að vera í algjörri örvæntingu og panikki yfir því að gera eitthvað meira en ég var að gera. Bókin sem ég er að vinna í núna hugsa ég að komi út á næsta ári, en það er skáldsaga.“

Jónas Reynir á góðri stundu
Mynd: Embla Ýr Teitsdóttir

„Nei,“ segir Jónas hikandi þegar hann er spurður hvort hann sé alveg hættur í ljóðunum. „Ég hef ekki tekið neina ákvörðun um það. Ég verð einhvern veginn bara að sinna hugmyndunum sem koma upp í hausinn á mér hverju sinni, en það vill þannig til að ég hef bara fengið skáldsagnahugmyndir undanfarið. En ég veit ekki hvenær næsta ljóðabók verður til.“

Björt fortíð Jónasar

- Auglýsing -

Jónas Reynir á sér fortíð sem alls ekki allir vita um. Á árunum 2005-2010 gerði Jónas myndasögur ásamt félaga sínum, Finni Torfa Gunnarssyni, sem þeir kölluðu Arthur. Nutu myndasögurnar gríðarlegra vinsælda og mætti jafnvel tala um költ-status Arthurs í dag. „Þetta tilheyrði einhverri internetmenningu, áður en Facebook sprakk út, bloggið var vinsælt á sama tíma, blogspot.com, hugi.is og hlekkjasíður eins og batman.is og fleira.“ Arthur var til að byrja með dreift á meðal fólks inni á þessum hlekkjasíðum en birtist svo á tímabili á DV.is og síðar gáfu þeir út bók með myndasögunum. Spurður hvort Jónas Reynir hafi hugsað sér að snúa sér aftur að myndasögum og gríninu segist hann fá útrás fyrir „einhverja svona vitleysu.“ á Instagram-síðu sinni. „En það er ekkert útilokað að ég geri eitthvað slíkt aftur. Grín er náttúrulega mjög erfið og góð æfing í strúktúr og skrifum almennt, held ég. Það er vanmetið form.“

Arthur naut mikilla vinsælda á fyrsta áratugi aldarinnar

Loksins fullgildur grænkeri

Veganismi er Jónasi hugleikinn en sjálfur er hann vegan eða grænkeri eins og það útleggst víst á íslensku. Fyrir um það bil tveimur og hálfu ári byrjaði hann að vera grænkeri en í nokkur ár á undan hafði hann byrjað að elda veganrétti heima hjá sér en nennti ekki að hugsa um það þegar hann fór í matarboð eða út að borða. „Þegar ég fór svo að spá í siðferðislegu rökin fyrir þessu þá sá ég bara að rök mín fyrir dýraáti héldu ekki. En svo hunsaði ég það í um fjögur ár, vegna þess að það var svo auðvelt og svo er fátt jafn samfélagslega viðurkennt og að borða dýr. En svo óx það smá saman, þetta byrjaði með fikti,“ segir Jónas og heldur niðri í sér hlátrinum. „En svo getur vel verið að umræðan um loftslagsmálin undanfarin ár, hafi ýtt við manni. Það var ekki vinkillinn sem ég var að pæla í upphaflega en voru aukarök sem negldu þetta alveg niður fyrir mér.“

Jónas heldur að það hafi náðst nokkuð góður árangur hvað varðar grænkeralífsstílinn, sífellt fleiri eru að bætast í hópinn og bæði veitingastaðir og verslanir hafa tekið við sér. „Maður sér það til dæmis á vöruframboðinu. Fólk sem var vegan fyrir tíu árum, maður bara klappar fyrir því. Nú eru nánast allir veitingastaðir með veganrétti og verslanir líka. Það sýnir bara að eftirspurnin hefur verið að aukast gríðarlega mikið.“ Hann segist fagna rökræðum um veganisma en segir fáa nenna því. „Ég hef borðað dýr meirihlutann af ævi minni, meira að segja eftir að ég komst að þeirri niðurstöðu að það væri rangt, þannig að ég skil alveg fólk sem er ekki tilbúið í þetta. Ég held samt að veganismi samræmist gildum flestra í raun.“ Jónas bætir því við að því meira sem það er normaliserað því auðveldara verður það fyrir fólk að gerast vegan. „Þegar þetta verður komið á þann stað að maður pantar pítsu og veganosturinn bragðast eins og venjulegur ostur, þá held ég að þetta verði auðveldara fyrir aðra.“

Jónas Reynir
Mynd: Gassi

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -