Sunnudagur 23. janúar, 2022
-2.1 C
Reykjavik

Kolbrún, eigandi Jurtaapóteksins: „Matur sem leikur við öll skynfærin“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Kolbrún Björnsdóttir, eigandi Jurtaapóteksins, hefur starfað við grasalækningar í 22 ár eða frá því að hún útskrifaðist úr grasalæknaskólanum í Bretlandi árið 1993. Kolbrún er Matgæðingur Mannlífs, þessa vikuna.

Við spurðum Kolbrúnu hvort hún ætti sinn uppáhaldsrétt.

„Uppáhaldsréttur minn, vá, það er ekkert auðvelt að finna einn sérstakan. Ég hugsa að annaðhvort sé það matur sem minnir mig á æskuna og fyllir mig nostalgíu, þar sem hjartað hoppar af kæti og til verður þessi barnslega gleði, eða hins vegar matur sem mér finnst geggjað gaman að elda, matur sem leikur við öll skynfærin.“

Veitir mér gleði og örvar gleðihormónin

„Bragð sem flytur mig á ókunnar slóðir, ilmur sem fær mig til að líða vel, veitir mér gleði og örvar gleðihormónin. Sjónin fær örvun með alls kyns litasamsetningu. Mér dettur helst í hug ísraelski kokkurinn Ottolenghi, sem starfar í Lundúnum, sem nær fram þessum áhrifum. Margir af hans réttum eru mínir uppáhaldsréttir.

Eitt af mínu uppáhaldi eru lambahakkskjötbollur, glúteinlausar.“

Kolbrún segist vera ástríðurkokkur sem geri mikið af þessu, soldið af hinu og pínulítið af öðru. Hún notast sjaldan við uppskriftir og ef hún gerir það, þá breytir hún þeim oftast. En henni finnst mjög gaman að elda og eldar úr eins fersku hráefni og hægt er.

- Auglýsing -

„Ég reyni að nota fjölbreytta liti í matinn svo það sé skemmtilegra að borða hann. En ef ég er þreytt og finnst ég ekki hafa tíma þá bý ég til vondan mat.

Ég er frekar nösk á að sjá hvað er mjög gott

Í matarboðunum hefur það aldrei klikkað að nota partíuppskriftir úr Ottolenghi-uppskriftabókinni. Ég útbý marga rétti og þótt ég segi sjálf frá þá er ég frekar nösk á að sjá hvað er mjög gott í uppskriftunum hans. Hér er t.d. salat frá Ottolenghi sem skapar bragð sem er engu líkt og kallast Karsi (ég nota klettasalat í staðinn) /pistasíu og appelsínu-blómasalat.“

Dagsrútína Kolbrúnar

Dæmigerður dagur hjá Kolbrúnu hefst þegar hún vaknar kl. 6.00 og fær sér stórt vatnsglas. Hún iðkar svo klukkutíma jógarútínu, öndun og hugleiðslu. Þannig fer dagurinn best af stað.

- Auglýsing -

„Svo pressa ég safa sem er gúrka, sellerí, hvítkál (nýjasta æðið), engifer eða eitthvað grænt, og fer eftir það í gott bað. Þegar ég kem úr baðinu fæ ég mér næringardrykk með alls konar í. Alltaf íslensk ber, vatn, olíur (Omega-3 + 7 og mct.), alls konar næringarjurtir, hreint kakó (oft), hörfræ eða hampfræ. Stundum set ég lífrænt epli (er svo flott pektín í því sem styður við bakteríuflóruna). Þessi drykkur byrjaði sem túrmerik-latte þegar ég var að prófa ketó svo þróaðist hann í þetta. Stundum er þetta geggjað gott og stundum fer ég yfir strikið og nota of mikið af einhverju sem gefur ekki nógu gott bragð. Það truflar mig ekki á morgnana, ég þarf bara góða næringu.

Hádegismaturinn er vanalega afgangar frá kvöldinu áður, sem oftast enda sem kássa. Á kvöldin elda ég frá grunni, oftast elda ég, en börnin fá stundum að spreyta sig og nota ég  eins ferskt hráefni og hægt er – grænmetismat, kjöt og fisk, en ég bý svo vel að fá fjallavatnasilung. Á kvöldin baka ég mjög oft heilan silung með beinum og öllu. Finnst þessi þróun að beinhreinsa allt ekki alveg nógu góð, vegna þess að beinin næra okkar bein.“

Ein af skemmtilegustu matarminningum Kolbrúnar

„Eitthvað sem ég get ekki borðað er lifrarpylsa, bara út af æskuminningu sem ég á. Annars finnst mér fátt virkilega vont.

En ein af mínum skemmtilegustu matarminningum er sennilega þegar ég var að vinna á  Heilsuhælinu í Hveragerði. Ég var tvítug og hafði sagst kunna að elda, sem ég varla kunni. Ég ólst uppi í sveit og hafði mestmegnis verið að vinna úti við, en ekki inni í eldhúsinu. Pálína, sem þá stjórnaði eldhúsinu, sagði við mig: „Settu 16 egg í pottinn.“  Það voru fjórir pottar á eldavélinni, ég valdi einn sem var fullur af vatni og byrjaði að brjóta eggin ofan í vatnið þangað til einhver kom og sá hvað ég var að gera og sagði: „Hvað ertu að gera?“

Ég var þá búin að skemma einhverja súpu og hafði átt að sjóða eggin. Eftir þetta var ég færð inn í sal og fékk aldrei að gera neitt  í eldhúsinu aftur.“

 

Lambahakkskjötbollur með ferskri basilíku

Innihald:

 • 500 g lambahakk, lífrænt (það er það sem ég nota)
 • 40 g basilíka fersk, smátt skorin
 • 1½ tsk. sjávarsalt gott, eða Himalaya-salt
 • 2 stk. eggjarauður
 • 4 msk. bókhveitiflögur (Sólgæti)
 • 2 tsk. kúmmin-duft
 • 1 msk. óreganólauf
 • 1 tsk. engiferduft
 • 1 tsk. grænmetiskraftur, án gers í dufti
 • svartur pipar eftir smekk

Aðferð:

Öllu hrært saman og mótaðar bollur með hreinum höndum. Sett á bökunarplötu með bökunarpappír undir. Bakað við 200 °C í 25 mínútur.

Með þessu er svo hægt að hafa ferskt salat og gufusoðið grænmeti eða bakað. Kjötið ætti ekki að vera nema 25% af matnum. Má hafa grjón eða kartöflur með. Hægt að gera uppbakaða sósu eins og mamma gerði, en gera hana í mínum stíl, sem væri kókósolía og bókhveitimjöl, svo vatn sett út í. Set svo kryddið sem ég notaði í kjötbollurnar líka í sósuna. Set svo smá kraft í sósuna og lita hana og krydda hana svo með hollri Tamari-sojasósu.  Smakka svo til með salti og pipar.

Karsi, pistasíu og appelsínu-blómasalat

Innihald:

 • 90 g klettasalat/karsi (karsi er erfitt að fá hér á Íslandi)
 • 20 g fersk basilíka
 • 20 g fersk kóríanderlauf
 • 10 g ferskt dill
 • 10 g ferskt estragon
 • 40 g ósaltaðar pistasíur, léttilega ristaðar og saxaðar

Aðferð:

Blandið öllu grænu saman og setjið ekki dressinguna og pistasíur í fyrr en rétt áður en þetta er borið fram.

Dressing:

 • 4 msk. kaldpressuð ólífuolía
 • 1½ msk. sítrónusafi
 • 1 msk. appelsínublómavatn (fæst í Jurtaapótekinu)
 • salt og pipar

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -