Þriðjudagur 19. mars, 2024
0.8 C
Reykjavik

Lungnakrabbi grasseraði hjá Ragnhildi: “Mér fannst ég vera í andaslitrunum”

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Fólk ætti helst ekki að byrja að reykja því það er erfitt fyrir alla að hætta og allir þeir sem eru að spekúlera í að hætta að reykja ættu að leita sér hjálpar; það eru til alls konar leiðir svo sem Reykingasíminn,“ segir Ragnhildur Benediktsdóttir sem hætti að reykja fyrir áratug og greindist svo með lungnakrabbamein árið 2018.

„Já, þetta var dýrkeypt fyrir mig,“ segir hún er hún reykti í um 40 ár. Hún segist nýlega hafa reiknað út hvað hún hafi sparað á því að reykja ekki síðasta áratuginn miðað við verðlag á tóbaki á dag. Útkoman: Um fjórar milljónir króna.

„Ég hafði oft reynt að hætta að reykja og var með nikótíntyggjó og -plástra sem héldu alltaf við þörfinni. Ég fékk síðan árið 2018 afskaplega góðar geðpillur hjá lækni en þeir voru búnir að uppgötva að geðsjúklingar sem fengu þær hættu að reykja þegar þeir voru á þessu lyfi.“

Ragnhildur segist hafa tekið lyfið í nokkrar vikur. „Þetta gekk svo ljómandi vel. Svo var líka annað sem spilaði inn í en það var að ég var svo tilbúin andlega til að hætta að reykja og maður þarf að vera það. Það þýðir ekkert að segja við manneskju sem reykir að hún verði að hætta að reykja. Það bara gengur ekki.“

Ég hafði oft reynt að hætta að reykja og var með nikótíntyggjó og -plástra sem héldu alltaf við þörfinni.

Tóbakslöngunin var lengi til staðar eftir að Ragnhildur hætti að reykja. „Mig dreymdi það allar nætur að ég væri að reykja og ég vissi í draumunum að mig væri að dreyja og ég barðist við að vakna ekki.“

Hvað varð um öskubakkana á heimilinu þegar Ragnhildur hætti að reykja? „Þeir fóru bara í ruslið nema þeir sem ég notaði sem bókastoðir um tíma.“

- Auglýsing -
Ragnhildur Benediktsdóttir
Ragnhildur og eiginmaður hennar, Einar Pálsson.

 

Lungnakrabbi

Ragnhildur var farin að verða mjög móð fyrir nokkrum árum. „Ég vann þá á heilsugæslustöðinni á Djúpavogi í afleysingum og þar sagði ungur læknir að ég yrði að fara til lungnasérfræðings út af þessari mæði. Ég sagði að þýddi ekkert; mér yrði sennilega sagt að ég væri of feit og búin að reykja of mikið. Læknirinn sagði að ég skyldi hætta að setja allt á fordómana og stundum væri þetta eitthvað annað.

- Auglýsing -

Ég fór skömmu seinna til lungnalæknis og þá greindist ég með lungnakrabbamein sem var þó ekki orðið meira en það að það var skurðtækt. Þeir bara fjarlægðu æxlið og svo var ég í dekri á Landspítalanum.“

Ragnhildur segir að lungnalæknrinn telji að krabbameinið hafi verið búið að grassera í nokkuð mörg ár.

Biðin var erfið frá því að það kom í ljós að eitthvað var athugavert í öðru lunganu þangað til í ljós kom um mánuði síðar að um var að ræða krabbamein. „Ég fór náttúrlega að gúggla og mér fannst ég vera í andarslitrunum en ég var þá búin að gúggla allt um lungnakrabbamein; mér skilst að maður eigi ekki að gúggla. Þá sá ég ekkert fram undan. Móðurbróðir minn hafði fyrir ekkert svo löngu áður farið úr lungnakrabba.

Maður bara talaði um þetta en auðvitað leið manni ekkert ofsalega vel. Þetta var eins og hvert annað hundsbit sem maður verður að taka og það þýddi ekkert að vera með neitt drama í kringum það. Eitt sinn skal hver deyja. Það voru kannski börn og barnabörn sem voru með meiri áhyggjur heldur en ég og bóndinn kannski. Það var síðan ákveðinn léttir þegar í ljós kom hvað þetta var og að það yrði hægt að skera. Ég var búin að ímynda mér mikið verra.“ Hún segir að það hafi ekkert þýtt að væla yfir því hvers vegna hún fékk lungnakrabbamein.

„Þetta var náttúrlega spurningin „af hverju ekki ég sem fékk krabbamein?“ Ég bauð eiginlega upp á það og maður mátti alveg búast við þessu. En þegar maður var ungur þá var maður ekkert að pæla í þessu og reykti bara og reykti og naut þess.“

Ég fór náttúrlega að gúggla og mér fannst ég vera í andarslitrunum en ég var þá búin að gúggla allt um lungnakrabbamein; mér skilst að maður eigi ekki að gúggla.

Ragnhildur lagðist svo inn á Landspítalann þar sem æxlið var fjarlægt. Hún fékk lungnabólgu í kjölfarið og var erfitt að verkjastilla hana og var hún á gjörgæslu í þrjá sólarhringa og hún segist ekki muna eftir þeim tíma. Hún lá síðan á lungna- og hjartadeild í sex daga. „Þar var dekrað við mann. Starfsfólkið var dásamlegt; hlýtt og gott fólk. Það virtist vera undirmannað en það var alltaf verið að gera eitthvað fyrir mann. Þarna var dásamlegt að vera. Ég ætla ekki að kvarta yfir því.“

Ragnhildur fór í eftirlit á hálfs árs fresti eftir aðgerðina. Hún fór síðast í maí og á svo að koma aftur næsta vor. „Maður er í eftirfylgni í fimm ár.“

Hún segir vera nauðsynlegt að fólk njóti lífsins; muni að brosa og vera gott hvert við annað.

Maður er í eftirfylgni í fimm ár.

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -