Þriðjudagur 3. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Mannlífsviðtalið: Út fyrir þægindarammann

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Björg Thorarensen situr á skrifstofu sinni í Lögbergi á lóð Háskóla Íslands sem hefur verið vinnustaður hennar í tæp 19 ár. Bækur tengdar lögfræði fylla hillurnar.

„Það gengur mikið á þessa dagana og margt sem þarf að ljúka því ég er að skipta um starf með mjög stuttum fyrirvara.“

Björg og samstarfsmaður hennar við Háskóla Íslands, Ása Ólafsdóttir, munu yfirgefa háskólann á sama tíma og verða dómarar við Hæstarétt Íslands.

Björg talar um nýja embættið sem hún sótti um og fékk. „Ég er búin að starfa lengi við lagadeildina og hef þar fengið tækifæri til að rannsaka og kenna mín áhugasvið í lögfræðinni og bæta stöðugt við mig þekkingu. Það er í sjálfu sér mjög þægilegt líf að vera í sínu draumastarfi þar sem mörkin á milli áhugamáls og vinnu eru stundum óljós. Líklega þurfti ég að fá aftur þennan fiðring í magann sem fylgir því að takast á við eitthvað óþekkt og krefjandi. Ég hef unnið í gríðarlega skemmtilegum verkefnum þar sem maður er þó oftast á heimavelli. Þegar tækifærið kom spratt upp löngun til að gera eitthvað ögrandi og nýtt sem ég þarf að tileinka mér og hafa mikið fyrir. Þegar ljóst var að tvær stöður við Hæstarétt voru að losna fannst mér tilvalið að láta á það reyna og kannski um leið að fara út fyrir þægindarammann þótt mér finnist á sama tíma vera dálítið tregablandið að yfirgefa minn góða vinnustað í Háskóla Íslands og frábært samstarfsfólk mitt þar.“

Björg kynntist dómarastarfinu þegar hún var settur dómari við Landsrétt fyrri hluta þessa árs. „Mér fannst starfið eiga vel við mig. Í fræðistörfum velur maður sér rannsóknarspurningu og leitar oftast að svörum á breiðum grundvelli og frá mörgum hliðum meðal annars með rannsókn á dómum. Í dómarastarfinu fór ég úr fræðunum inn í framkvæmd laganna og þar nýtti ég þekkingu mína og kunnáttu í lögfræði alveg á nýjan hátt. Verkefnið er að leysa úr því sem að höndum ber, finna kjarna hvers máls og þær réttarreglur sem þarf að beita til að komast að lögfræðilega réttu niðurstöðunni þótt maður sé ekki sérfróður um þau efni sem eru til umfjöllunar í hverju máli. Alltaf tekur nýtt mál við af öðru, gerólíkt því fyrra með nýjum spurningum og nýjum heilabrotum, og stundum eru álitefnin alveg heillandi snúin.

„En vonandi kemur að gagni þekking mín á stjórnskipunarrétti því stundum þarf rétturinn að takast á við grundvallarspurningar um túlkun stjórnarskrárinnar, ekki síst mannréttindaákvæði hennar og skapa fordæmi um beitingu þeirra.“

Hæstiréttur hefur breyst. „Nú er þar ekki lengur gríðarlegt vinnuálag þar sem þurfti að klára hundruð mála og dóma á hverju ári. Búið er að breyta skipulaginu þar sem Landsréttur tók við hlutverki Hæstaréttar sem áfrýjunardómstóll og þar er mesti erillinn og málafjöldinn. Hæstiréttur tekur nú fyrst og fremst við völdum, fordæmisgefandi málum sem þarf að leysa úr og þurfa að fá sérstaklega vandaða skoðun. Dómarar við Hæstarétt hafa nú meiri tíma en áður fyrr að fara vel ofan í hvert mál og liggja yfir ítarlegum, lögfræðilegum röksemdafærslum. Ég vona að þekking mín og reynsla geti nýst þar en ég þarf auðvitað að læra fjölmargt nýtt því viðfangefni réttarins eru mjög fjölbreytt. En vonandi kemur að gagni þekking mín á stjórnskipunarrétti því stundum þarf rétturinn að takast á við grundvallarspurningar um túlkun stjórnarskrárinnar, ekki síst mannréttindaákvæði hennar og skapa fordæmi um beitingu þeirra. Ég hlakka líka til að taka þátt í að móta þetta nýja og breytta hlutverk Hæstaréttar til framtíðar með þeim afburða lögfræðingum sem þar eru fyrir. Á aðeins rúmu ári hefur orðið mikil endurnýjun þar sem fjórir af sjö dómurum hafa verið skipaðir á þeim tíma. Og nú er hlutfall karla og kvenna í dómarahópnum orðið nær jafnt – þrjár konur og fjórir karlar – sem eru afskaplega gleðileg tímamót og reyndar löngu tímabært í 100 ára sögu Hæstaréttar. Það styrkir verulega ásýnd réttarins og hefur líka hlotið mjög jákvæð viðbrögð í samfélagsumræðu síðustu daga.“

- Auglýsing -

Kolbeinn kafteinn

Björg fæddist árið 1966 og er dóttir hjónanna Sigurlaugar Bjarnadóttur, fyrrverandi alþingismanns, og Þorsteins Thorarensen bókaútgefanda sem er látinn. Hún er yngst þriggja systkina og ólst upp í Langholtshverfi og var á æskuárunum í sveit á sumrin hjá ættingjum í Vigur í Ísafjarðardjúpi.

„Mamma, sem ólst upp í Vigur, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri á fimmta áratugnum sem var ekkert svo algengt á meðal kvenna á þeim tíma. Hún var mikill námsmaður, dúxaði og fékk skólastyrk til að fara til útlanda til náms. Hún fór til Leeds í Englandi og lauk þar háskólaprófi í ensku og frönsku og lærði síðan meiri frönsku við Sorbonne í París. Hún flutti aftur til Íslands upp úr 1950 og fór að vinna sem blaðamaður á Morgunblaðinu og þar kynntist hún pabba sem var þar líka blaðamaður.“ Sigurlaug starfaði síðar sem framhaldsskólakennari og var borgarfulltrúi og hún var svo kosin á þing árið 1974 þar sem hún sat í nokkur ár. Hún er nú rúmlega níræð.

- Auglýsing -

Faðir Bjargar, Þorsteinn, var lögfræðingur að mennt en starfaði aldrei við fagið. Hann valdi blaðamennskuna sem lífsstarf sem og bókaútgáfu en hann rak bókaútgáfuna Fjölva í áraraðir. Hann vann hjá Morgunblaðinu frá 1947-1961, hann varð síðar fréttastjóri við dagblaðið Vísi í fimm ár og hann var fréttaritari Reuters fréttastofunnar frá 1951-1986. Hann stofnaði síðan bókaútgáfuna Fjölva árið 1966.

Tinna-bækurnar voru á meðal þess sem Fjölvi gaf út sem og bækurnar um Ástrík og Lukku-Láka auk þess sem Þorsteinn samdi sagnfræðibækur, þar á meðal um sjálfstæðisbaráttuna og stjórnmálaátök á Íslandi í kringum aldamótin 1900. Hann þýddi og gaf út fjölmargar bækur um listasögu, mannkynssögu og náttúrufræði auk Hringadróttinssögu og Hobbitann og fleiri verk Tolkiens á íslensku.

Björg segir að það hafi verið spennandi að alast upp í heimi teiknisögubókanna frá sex til sjö ára aldri sem var alger nýjung á þeim tíma hér á landi og hún hafi verið alveg heilluð af þeim. Hún segir að Kolbeinn kaftein sé uppáhaldspersóna sín í Tinna-bókunum. „Maður skildi þó ekki almennilega þessi drykkjuvandamál hans; þau voru svolítið áberandi í bókunum. Ég hafði sem betur fer ekki alveg innsýn í um hvað það snerist að vera sífullur og breytast svona ógurlega. Það var svolítið sérstakt hvað þessi löngun Kolbeins kafteins í viskí var afgerandi í gegnum allar bækurnar svo ekki sé nú minnst á öll blótsyrðin.“

Björg las bækur á æsku- og unglingsárunum og svo segist hún hafa verið mikill skíðafíkill. „Ég fór oft og tíðum gjarnan ein á skíði í Bláfjöllum á unglingsárunum og tók þá rútuna. Svo æfði ég badminton í smátíma. Annars var ég engin sérsök íþróttamanneskja. Aðalatriðið var að eiga fullt af góðum vinum og var alltaf að gera eitthvað með þeim.“

Ást í dómsmálaráðuneytinu

Björg lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1985. Hún var óráðin hvað tæki næst við svo hún flutti til Kaupmannahafnar þar sem hún bjó í einn vetur og vann ýmiss konar störf. Sumrin 1985 og 1986 vann hún sem blaðamaður í innlendum fréttum á dagblaðinu NT og DV. „Þá áttaði ég mig á því að lögfræðin gæti verið eitthvað fyrir mig. Mér fannst ég stöðugt þurfa að leita svara við lögfræðilegum spurningum hvort heldur í fréttaumfjöllun um dómsmál eða glæpi en ekki síður til að skilja stjórnkerfið og pólitíkina, störf Alþingis og ríkisstjórnarinnar sem er viðfangsefni fréttanna á hverjum degi.“

Úr varð að hún hóf nám í lögfræði við Háskóla Íslands haustið 1986 en samhliða námi og á sumrin var hún fréttamaður á fréttastofu RÚV. „Mér fannst fréttamannstarfið vera stórskemmtilegt og var farin að horfa til þess að lagaprófið yrði góður grunnur fyrir framtíðarstarf á því sviði.“ Þær áætlanir Bjargar breyttust því henni bauðst starf í dómsmálaráðuneytinu eftir útskrift úr lagadeild vorið 1991 þar sem hún vann í eitt ár en haustið 1992 hóf hún meistaranám við Edinborgarháskóla. Þar lauk hún prófi 1993 í stjórnskipunarrétti, alþjóðlegum mannréttindum og stjórnskipulagi Evrópusambandsins.

Í störfum sínum í dómsmálaráðuneytinu vann Björg meðal annars með Markúsi Sigurbjörnsson, lögfræðingi og prófessor við lagadeild Háskóla Íslands. „Ég kannaðist við Markús þar sem hann var prófessor við lagadeild Háskóla Íslands og kennari minn í ýmsum spennandi fögum eins og erfðarétti og dánarbússkiptum. En sérsvið hans var réttarfar þar sem enginn stóð honum á sporði og var hann fenginn til þess að semja fjölmörg lagafrumvörp á því sviði fyrir dómsmálaráðuneytið í tengslum við undirbúning að nýrri dómstólaskipan á Íslandi sem tók gildi 1. júlí 1992. Eftir að við höfðum unnið saman í ár og verkefninu var að ljúka varð okkur ljóst að við myndum verða eitthvað lengur saman. Við giftum okkur árið 1994 og eigum saman þrjú uppkomin börn. Dóttir okkar, Ingunn Elísabet, er 26 ára. Hún er nýorðin móðir og útskrifaðist með meistarapróf í lögfræði frá Háskóla Íslands síðasta vor. Svo eigum við tvíburasynina Sigurbjörn og Þorstein sem eru 23 ára. Sigurbjörn lærir lífefnafræði í Noregi og Þorsteinn er í læknisfræði við Háskóla Íslands.“

Stjúplangmamma

Markús átti fyrir dóttur, Steinunni, frá fyrra hjónabandi sem er orðin amma og Björg því stjúplangamma. Markús er 12 árum eldri en hún. „Hann var orðinn nokkuð þroskaður og slípaður þegar ég tók við honum og sambúðin með honum hefur verið auðveld. Ég veit ekki hvað hann myndi segja um mig. Við höfum átt mjög gott og viðburðaríkt líf saman. Hann er reyndar betri en ég í heimilishaldinu. Hann er algjör listakokkur og góður garðyrkjumaður. Það er líflegt í fjölskyldunni okkar og við hittumst mikið með öllum afkomendum sem fer bara fjölgandi. Það er dásamlegt að fá ný börn inn í fjölskylduna, næstum eins og maður hafi aldrei séð lítil börn fyrr. Við eignuðumst börnin okkar þrjú á innan við þremur árum og á tímabili þar sem var gríðarmikið að gera enda vorum við bæði í mjög krefjandi störfum á sama tíma og ég mikið á ferðalögum og fundum erlendis. Nú er hægt að velja tímann til að horfa sem dáleidd á barnabarnið og njóta þess til innilega. Það er einhvern veginn þannig.“

Markús var um árabil dómari við Hæstarétt Íslands og segir Björg að hún hafi þá aldrei leitt hugann að því að feta í fótspor hans hvað það varðar.

„Hann er núna kominn á eftirlaun og er á fullu í að gera upp húsið okkar. Það er verið að breyta því, steina upp á nýtt og laga klæðninguna og hann hefur ekki gert neitt annað í nokkrar vikur. Hann hefur gaman af því að vera í líkamlegri vinnu eftir allar seturnar í gegnum árin.“

Fálkaorðan

Áhugi Bjargar innan lögfræðinnar beindist snemma að stjórnskipun og stjórnarskránni. Það sama má segja um mannréttindi og eins og þegar hefur komið fram lauk hún meistaraprófi í lögum frá Edinborgarháskóla árið 1993 meðal annar í stjórnskipunarrétti og alþjóðlegum mannréttindum.

„Þær lagabreytingar sem ég vann við í dómsmálaráðuneytinu áður en ég hélt til Edinborgar tengdust ákvörðun Mannréttindanefndar og Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg frá 1990. Þar var íslenska ríkið talið hafa brotið gegn ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu um rétt manns til málsmeðferðar fyrir sjálfstæðum og óhlutdrægum dómstól vegna þess að þá fóru sömu embættismennirnir með dómsvald og lögregluvald eða nánar tiltekið sýslumenn og bæjarfógetar utan Reykjavíkur. Þetta voru leifar frá gamalli tíð í skipulaginu sem hafði varað um aldir þangað til einstaklingur kærði íslenska ríkið til Mannréttindanefndar Evrópu sem taldi að þetta stæðist ekki þær kröfur sem þyrfti að gera til sjálfstæðra dómstóla. Það þurfti því að endurskipuleggja dómstólakerfið frá grunni og flytja dómsvaldið frá sýslumönnum og bæjarfógetum úti á landi til nýrra héraðsdómstóla. Einnig þurfti að breyta fjölmörgum lögum þar á meðal meðferð mála fyrir dómstólum og setja nýja lagabálka á öllum sviðum réttarfars. Ég vann við þetta verkefni með nefnd sem dómsmálaráðherra hafði skipað til að undirbúa gildistöku nýrrar löggjafar um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði sem tók gildi 1. júlí 1992. Samhliða þessu verkefni vaknaði áhugi minn á Mannréttindasáttmála Evrópu sem á þessum tíma var ekki sérlega þekktur hér á landi þótt Ísland hefði verið aðili að honum í næstum 40 ár. En þetta var í fyrsta skipti sem Ísland var talið vera brotlegt gegn ákvæðum hans og vakti reyndar menn til umhugsunar um margt annað sem mætti fara betur í vernd mannréttinda hér á landi.“

Kennslan gefandi

Haustið 1993 var Björg í starfsnámi hjá Mannréttindanefnd Evrópu en hóf svo aftur störf í dómsmálaráðuneytinu. Hún varð fljótlega skrifstofustjóri yfir stærstu skrifstofu ráðuneytisins, löggæslu- og dómsmálaskrifstofu, með afar umfangsmikil verkefni þar á meðal málefni lögreglu- og sýslumannsembætta, dómstóla og ákæruvalds og útlendingamála. „Þetta var krefjandi starf en samhliða því fór ég að kenna mannréttindi sem stundakennari við Háskóla Íslands og síðan færðist það yfir í stjórnskipunarrétt og stjórnarskrána. Ég ákvað að söðla um þegar ég var búin að starfa í ráðuneytinu alveg fram til ársins 2002 og sækja um fullt starf í háskólanum við kennslu og rannsóknir. Ég kom til starfa í lagadeild Háskóla Íslands í mars 2002 og þar hef ég átt einstaklega ánægjulegan tíma þar sem ég hef notið framúrskarandi starfsaðstæðna og möguleika á að þróa áfram áhuga á rannsóknarsviðum mínum. Ég hef notið sjálfstæðis til að velja mín verkefni og fulls trausts til þess. Ekki síður hef ég haft óskorað sjálfstæði til að tjá mig um þau málefni sem tengjast rannsóknarsviðum mínum. Þetta skiptir máli þegar leitað er til okkar háskólafólks um álit eða skýringu á málefnum sem hafa þýðingu fyrir samfélagið. Það finnst mér vera gífurlega dýrmætt og ég hef talið skipta máli að leggja þannig eitthvað af mörkum til samfélagins. Það vantaði til að mynda mikið rannsóknir á íslensku stjórnarskránni þegar ég hóf störf við háskólann og hefur mér tekist að gefa út helstu grundvallarrit um hana. Svo hef ég verið að kenna fög eins og stjórnskipunarrétt, evrópsk mannréttindi, þjóðarétt og persónuverndarrétt upp á síðkastið. Ég hef notið kennslunnar mjög og samskipta við nemendur.“

Björg var í ársbyrjun 2019 sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu fyrir kennslu og rannsóknir á sviði lögfræði. „Mér fannst það auðvitað vera sannur heiður og viðurkenning á því að maður hafi látið eitthvað gott af sér leiða. Ég varð frekar undrandi þegar mér var tilkynnt að þetta stæði til, kannski af því að mér finnst ég vera svo ung sem er auðvitað misskilningur ef maður skoðar fæðingarárið. En þá rennur upp fyrir manni hvað ég er búin að vinna lengi í þessum bransa.“

Breytingar á stjórnarskránni

„Stjórnarskráin okkar frá 1944 hvílir í grunninn á mjög gömlum merg sem má rekja aftur til dönsku stjórnarskrárinnar frá 19. öld frá því Ísland var undir danskri stjórn. Henni hefur þó verið breytt á síðustu áratugum í mörgum mikilvægum atriðum. En það er enn margt sem ég tel að mætti laga og færa til betri vegar. Eftir bankahrunið árið 2008 kom upp nokkuð útbreiddur þjóðarvilji að því er virtist til þess að Íslendingar settu sér nýja stjórnarskrá frá grunni, enda víst að gildandi stjórnarskrá er frekar torskilin þeim sem vilja kynna sér hvernig meginstofnanir stjórnskipunarinnar starfa, en stjórnmálamönnum hefur ekki tekist að ljúka heildarendurskoðun hennar. Sérstakt Stjórnlagaþing, sem var kosið 2010, sem síðar varð Stjórnlagaráð, fékk það verkefni að semja tillögu að nýrri stjórnarskrá á nokkrum mánuðum fyrri hluta ársins 2011. Í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu haustið 2012 voru kjósendur spurðir hvort þeir vildu að þessar tillögur yrðu notaðar sem grunnur að frumvarpi til stjórnarskrár. Á grundvelli þeirra var lagt fram frumvarp á Alþingi 2012, enda verður Alþingi að samþykkja breytingar á stjórnarskrá eftir gildandi reglum. Eins og við var að búast voru mjög skiptar skoðanir um það hversu góðar þessar tillögur voru eða hvort breytingarnar væru til bóta. Tíminn var afar stuttur til að fara yfir þetta umfangsmikla frumvarp og það varð ekki afgreitt.

Á þessu kjörtímabili hafa formenn stjórnmálaflokkanna unnið að breytingum á afmörkuðum þáttum stjórnarskrárinnar og mun forsætisráðherra leggja á næstunni fram fimm frumvörp sem taka á nokkrum mikilvægum atriðum sem mikill vilji hefur verið fyrir að koma inn í stjórnarskrána. Þetta eru meðal annars ákvæði um nýtingu náttúruauðlindanna, umhverfismál, svo er gerð tillaga um nýjan kafla um ríkisstjórn og ráðherra og forseta Íslands og þjóðaratkvæðagreiðslur.

Þetta er staðan núna. Þessi frumvörp byggja ekki nákvæmlega á tillögum stjórnlagaráðs en segja má að þær tillögur hafi verið róttækari í mörgu tilliti. En ég tel að það sé í grunninn margt sameiginlegt með þessum tillögum. Það væri mikilvægur áfangi að ná fram þó þessum breytingum sem stefnt er að og þær myndu gera stjórnarskrána betri en hún er í dag.“

Heilsan er ekki sjálfgefin
Björg hefur unnið krefjandi störf í áratugi og verið hraust. Hún greindist svo með ristilkrabbamein fyrir fimm árum. „Það var auðvitað áfall sem aldrei hvarflaði að mér að lenda í. Ég fékk bestu mögulegu þjónustu í heilbrigðiskerfinu til þess að lækna þetta og fór í gegnum nokkrar meðferðir og aðgerðir. Þetta var strembið meðan á því stóð og ekki einfalt að leysa en útlit fyrir bata var þó alltaf frekar gott sem gekk svo eftir.“

Björg segir að eftir á að hyggja hafi þessi lífsreynsla mótað hana nokkuð auk þess að dýpka skilning á aðstæðum svo fjölmargra sem eru í þessari aðstöðu. „Ég hef hugsað um hvað ég hef lært eða grætt á því að hafa lent í þessum óheyrilegu leiðindum en þetta var vissulega forvitnileg reynsla. Og svo hef ég lært heilmikið um krabbamein sem ég ekki vissi. Þetta voru aldrei það alvarleg veikindi að ég yrði lengi óvinnufær og reyndar hjálpaði vinnan mér sannarlega til að dreifa huganum því manni hættir til að verða alveg heltekin af hugsunum um þá lífsógn sem krabbamein er.“

Fimm ár eru liðin og Björg segir að ekkert bendi til annars en að hún sé læknuð að fullu. „Ég lít á þetta sem áfall sem hafði þó góðan endi og það hefur orðið frekar til þess að styrkja mig bæði líkamlega og andlega. Ég lærði líka að taka því ekki sem gefnu að vera við góða heilsu og rækta heilsuna betur en áður.“

Fjallgöngur

Áhugamál Bjargar áður fyrr voru skíði en nú eru það fjallgöngur, hjólreiðar og hvers kyns útivist. „Ég er algerlega háð því að komast á fjall að lágmarki einu sinni og helst tvisvar í viku. Ég hef farið margsinnis á flest fjöll og fell í kringum Reykjavík á síðustu árum. Svo hef ég verið víða um landið í göngum. Það er ekkert meira endurnærandi en að komast í ferskt og hressandi loftið og maður verður svo þægilega þreyttur eftir góða og helst krefjandi fjallgöngu. Ég er í frábærum félagsskap með fólki sem hugsar eins og ég og er alltaf á fjalli. Við hittumst einu sinni í viku síðdegis í miðri viku allt árið og göngum á fjöll með hálkubrodda, ef þarf, og höfuðljós í kolsvarta myrkri á veturna. Svo er best að taka eina helgargöngu líka.“

Hún upplifir Ísland á annan hátt en ella. Hún er spurð hvað Ísland sé í huga hennar. „Náttúra landsins er ómetanleg og órjúfanlegur partur af mér. Ég hef lært æ betur á síðustu árum að meta hvað hún stendur okkur líka nærri og hvað það er einfalt að komast í samband við hana. Þannig er hægt að komast í næstum ósnortna náttúru svo stutt frá Reykjavík eftir minna en hálftíma akstur úr bænum. Ég vil á næstu árum skoða landið mitt enn betur, þar er af nógu að taka í ókönnuðum náttúruperlum.“

Svava Jónsdóttir

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -