Margt fólk feimið við að ræða draugagang –  „En það vilja allir vita hvað gerist þegar maður deyr“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Katrín Bjarkadóttir og Stefán John Stefánsson, eigendur og stjórnendur hlaðvarpsins Draugasögur, hafa lengi haft áhuga á yfirnáttúrulegum hlutum og atburðum. Undanfarið hefur áhugi þeirra aukist mikið og í sumar ákváðu þau að fara af stað með hlaðvarpsþætti þar sem þau ræða ýmsa dulræna hluti og draugasögur.

„Við höfum lengi haft áhuga á draugasögum og verjum oft frítíma okkar í að ferðast á staði þar sem er reimleiki. Við ætluðum til dæmis að eiga rómantískt deitkvöld í sumar sem endaði með því að við keyrðum vestur til að skoða gamalt draugahús. Það var einmitt í þeirri ferð sem við ákváðum að byrja með hlaðvarpið,“ segir Katrín.

„Forvitnin er svo mikil, líka hjá skeptísku fólki.“

Í upphafi ákváðu þau Katrín og Stefán að gera fimm þætti og sjá hver viðbrögðin yrðu og meta þá framhaldið. „Viðbrögðin voru svo góð og fólk vildi heyra meira. Forvitnin er svo mikil, líka hjá skeptísku fólki,“ segir Stefán. „Við elskum alla sem hafa efasemdir,“ bætir Katrín hlæjandi við. „En það vilja allir vita hvað gerist þegar maður deyr.“

„Vissi að þetta var ekkert hættulegt“

Katrín segist hafa haft áhuga á yfirnáttúrulegum hlutum frá því hún man eftir sér. „Ég ólst upp í húsi sem er reimt. Það er ekkert leyndarmál. Ég hef alltaf verið næm á þessa hluti og ég byrjaði snemma að heyra og sjá hluti sem aðrir sáu ekki,“ segir Katrín.

Beðin um að lýsa reynslu sinni segir Katrín: „Ég átti herbergi á neðri hæð hússins. Á efri hæðinni var stofan, herbergi foreldra minna og eldhúsið. Þegar ég var farin niður í herbergi þá heyrði ég oft fótatak um íbúðina og í stiganum. Fyrst hélt ég að þetta væri pabbi minn að ganga um íbúðina, en þegar ég fór upp þá var aldrei neinn uppi og allir í húsinu sofandi. Þetta gerðist aftur og aftur.“

„Oft lætur fólk nefnilega eins og þetta sé eitthvað sem má ekki ræða.“

Hún segist aldrei hafa verið hrædd. „Það sem hjálpaði mér var að ég gat talað um þetta við foreldra mína og þau trúðu mér. Auðvitað brá mér stundum en ég vissi að þetta var ekkert hættulegt. En það var gott að ræða þetta, oft lætur fólk nefnilega eins og þetta sé eitthvað sem má ekki ræða.“

Stefán tekur undir með henni: „Það er stundum talað um að öll börn séu með einhvern skyggnihæfileika til 12 ára aldurs áður en það lokast á hann hjá þeim. Þannig að ef börn eru að finna eitthvað eða sjá eitthvað sem við hin sjáum ekki, þá er kannski ekkert sniðugt að reyna að þagga það niður. Það gæti verið eitthvað til í þessu hjá þeim.“

Stefán segist ekki hafa orðið var við draugagang í æsku en eftir að þau Katrín fóru að ferðast á staði þar sem er reimleiki kveðst hann oft hafa orðið vitni að óútskýranlegum atvikum. „Ég hef alltaf haft áhuga á þessum hlutum og lengi langað að reyna að sanna tilvist drauga.“

Fá ótal reynslusögur sendar

Stefán og Katrín segja margt fólk ekki vilja ræða yfirnáttúrulega hluti á meðan aðrir eru óhræddir við að deila sinni upplifun með þeim. Þeim hefur borist fjölmargar reynslusögur síðan þau byrjuðu með þættina. „Já, við fáum sögur á hverjum einasta degi. Sögur frá fólki sem virkilega hefur tekið sér tíma í að skrifa til okkar og lýsa reynslu sinni,“ segir Katrín.

Mynd / Aðsend

„Já, það er algengt að fólk reyni að draga þessar sögur í efa þannig að fólki finnst gott að deila sinni sögu með einhverjum sem trúir þeim,“ segir Stefán.

Erfiðara að fjalla um íslensk mál

Áhugasamir geta hlustað á Draugasögur á öllum helstu hlaðvarpsveitum. „Við sendum frá okkur fjóra þætti í mánuði og svo geta þeir sem vilja eitthvað extra skráð sig í áskrift á Patreon og fengið aukaþætti.“ Þar fjalla Stefán og Katrín um íslenskar draugasögur.

Þau segja oft erfiðara að taka íslensku málin fyrir. „Það getur oft verið erfitt að fá leyfi fyrir að skoða til dæmis hús og byggingar á Íslandi sem eru þekkt fyrir reimleika. Það má stundum ekki tala um þessa hluti vegna þess að eigendur húsanna eða fjölskyldur sem tengjast inn í einhver óhugnanleg mál eru ósammála um hvort megi tala um hlutina,“ segir Stefán. „Þetta getur nefnilega verið viðkvæmt, til dæmis sögur um draugagang í skólabyggingum, við ákváðum strax að fjalla ekki um þær sögur.“

Á Patreon áskriftasíðunni er líka að finna viðtöl við þekkt fólk innan þessa bransa. „Við vorum til að mynda að ljúka við að taka viðtal við einn þekktasta rannsakanda heims á yfirnáttúrulegum fyrirbærum, hann Nick Groff. Hann hefur til dæmis verið í þáttunum Ghost Adventures og Paranormal Lockdown. Hann gaf okkur innsýn inn í ýmislegt spennandi. Okkur fannst það alveg klikkað,“ segir Stefán.

Hvítárnesskáli einn rosalegasti staðurinn

Þegar þau eru spurð hvort einhverjar draugasögur hafi haft sérstaklega mikil áhrif á þau segjast þau vera sammála um að sögurnar í kringum Hvítárnesskála sem er í eigu Ferðafélags Íslands hafi setið í þeim.

„Það er einn rosalegasti staður sem við höfum komið á,“ segir Stefán og Katrín tekur undir. „Já, það er eitthvað við þetta hús. Þátturinn um Hvítárnesskála er einn besti þáttur sem við höfum gert,“ segir Stefán.

Stefán og Katrín hvetja svo áhugasama til að fylgjast með þeim á samfélagsmiðlum, á Facebook og Instagram.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -