Föstudagur 29. mars, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Sigurbjörg er trúarleiðtogi: „Amma var myrt af fíkniefnaneytanda“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Við gerum yfirleitt ekki varanlegar og nauðsynlegar breytingar fyrr en við erum neydd til þess því við erum svo föst í viðjum vanans. Það er svo gott að lenda stundum í aðþrengdum kringumstæðum en þá gerum við oft loks breytingar sem geta orðið til þess að maður blómstri enn frekar í lífinu, segir Sigurbjörg Gunnarsdóttir, safnaðarleiðtogi í Smárakirkju.

Sigurbjörg hefur upplifað mikla gleði í lífinu en einnig mikil áföll.

Börnin hvött til að vara sig

Sigurbjörg segist hafa fengið óhefðbundið uppeldi. „Mamma og pabbi voru náttúrlega á kafi í kristna geiranum, þau Inga og Gunnar í Krossinum. Ég gekk um í pilsi, klippti ekki á mér hárið né litaði og málaði mig aldrei. Ég er ekki að segja að það hafi ekki verið mitt val en það var vissulega ákveðinn þrýstingur. En þegar ég lít til baka man ég eftir góðri æsku og góðu uppeldi og ég sé ekki eftir neinu. Margt var öðruvísi á mínu heimili og börnin í hverfinu voru hvött til að vara sig á okkur. Það var vissulega svolítið sárt á þeim tíma því börn taka svona inn á sig og framan af ævinni var ég mjög upptekin af því hvað fólki fannst um mig, sennilega út af æskuárunum, en ég er komin á þann aldur að ég er komin yfir það. Í dag er ég sátt og mín viðurkenning kemur frá mínu samfélagi við Guð og menn. Mér finnst svo gott að vera á þeim stað”. 

Morðið á ömmu eitt stærsta áfallið

Sigurbjörg kynntist eiginmanni sínum innan Krossins þar sem hann var einnig meðlimur og voru þau vinir í sjö ár áður en þau hófu samband. „Hann reyndi að bjóða mér út öll þessi ár en ég sagði alltaf nei. Við grínumst oft með það að ég hafi látið ganga á eftir mér! En svo gerist eitthvað og ég verð svona yfirgengilega ástfangin af honum, sem er svolítið merkilegt því það er nefnilega oft erfitt stíga út af vinasvæðinu þegar maður er búinn að koma sér vel fyrir þar. En ég var svo lánsöm að hann ávann hjarta mitt og heldur því áfram á hverjum degi enn þann dag í dag”.

- Auglýsing -
Sigurbjörg og eiginmaður hennar Aðalsteinn Scheving.

Fimm mánuðum eftir að þau gengu í hjónaband upplifði Sigurbjörg eitt stærsta áfall lífs síns. „Amma mín yndisleg, sem ég heiti í höfuðið á, var myrt af fíkniefnaneytanda sem bankaði upp hjá henni og framdi þetta voðaverk. Þetta var hræðilegt mál og ég upplifði gríðarlegt áfall og fór í kjölfarið að fá martraðir upp á hverja nótt og vaknaði í svitabaði. Ég vissi ekkert hver orsökin var en seinna lærði ég að þarna var um áfallastreituröskun að ræða.”

Varð hrædd og óttaslegin

Venjulega er andlit hulið við kistulagningu ef um áverka er að ræða en það var ekki gert í tilfelli ömmu Sigurbjargar. „Það var augljóst að eitthvað hafði átt sér stað en hún var með sáraumbúðir og því augljóst að dauðdagi hennar var ofsfenginn og ofbeldisfulllur. Uppfrá því varð ég hrædd og óttaslegin yfir svo að segja öllu og hugsaði iðulega um hennar síðustu andartök. Þarna er ég 26 ára og ekki enn búin að leita mér hjálpar við að gera upp mín mál tengd æskunni.

- Auglýsing -
Aðalsteinn þurfti að ganga vel og lengi á eftir Sigurbjörgu.

Mörgum árum síðar kom banamaður ömmu Sigurbjargar á samkomu hjá henni en áður hafði hann komið á samkomu í Krossinum auk þess sem Gunnar og Inga heimsóttu hann í fangelsið.

Hefur hún fyrirgefið? „Það var meira en að segja það fyrir mig að sjá hann ég bara viðurkenni það fúslega. Ég myndi ekki vilja umgangast viðkomandi í hinu daglega lífi en fyrirgefningin hefur ekkert með það að gera, þú verður að leyfa þér að halda áfram í lífinu. Auðvitað er eðlilegt að finna til reiði við missi og sársauka, það á rétt á sér en lykillinn er að halda áfram svo þú lifir ekki í biturð. Fyrirgefning hefur með mann sjálfan að gera og er svo mikilvæg. Með henni leysi ég ekki aðeins sjálfa mig, ég leysi líka út fólkið sem situr óvelkomið í kollinum á mér án þess að greiða nokkra leigu“.

Jónína var algjör týpa

Talið snýst að átökunum sem urðu til þess að Krossinn var lagður niður.

„Árið 2010 var erfitt. Pabbi og mamma skilja árið 2009 og árið 2010 kemur Jónína Ben inn í líf okkar og hún og pabbi gifta sig. Sama ár fara ásakanirnar á hendur pabba af stað og ég enda óvænt sem forstöðumaður sem var eitthvað sem ég hafði ekki séð fyrir.” 

Jónína og Gunnar.

Sigurbjörg segir Jónínu hafa verið magnaða konu. „Hún var algjör týpa og svakalega skemmtileg. Ég dáðist að svo mörgu sem hún var að gera, hún var súperklár og ótrúlega drífandi og ég bar mikla virðingu fyrir henni. En hún gat sko verið dramantísk! Hún var til dæmis mikið gefin fyrir að vera í fjölmiðlum sem mér fannst stundum helst til of mikið. Ég veit til dæmis ekki hvað margar síður í blöðunum fóru undir brúðkaup þeirra pabba. Sjálf hef ég ekki þessa þörf fyrir stöðuga fjölmiðlaathygli“.

Höfum ólíka styrkleika

Þegar ásakanirnar á hendur Gunnari komu fram tók hann þá ákvörðun að stíga til hliðar og tilnefndi Sigurbjörgu sem eftirmann. „Ég hafði verið pabba mjög innan handar og unnið náið með honum við að stýra innra starfi kirkjunnar nokkur ár þar á undan. En aðal starf mitt var sem deildarstjóri í banka á þessum tíma, var á kafi í allt öðrum hlutum og var aðallega starfandi innan kirkjunnar um kvöld og helgar. Við pabbi erum um margt lík en samt að mörgu leiti afar ólík, við höfum ólíka styrkleika.

Sigurbörg segir sig ekki hefði getað tekið mál pabba síns meira inn á sig þótt hún hefði  hefði lent í því sjálf. „Ég held að að fólk átti sig ekki á hvað svona ásakanir geta haft mikil og djúpstæð áhrif á fjölskyldu þess sem verður fyrir en þetta var ein erfiðasta reynsla lífs míns og ég veit að systkini mín segja sömu sögu“.

Snúinn og erfiður tími

„Þetta var óskaplega erfitt en þarna æxluðust mál þannig að ég var sett inn í hlutverk sem ég hafði aldrei séð fyrir mér og var aldrei í minni áætlun. Ritningin kennir að vegir Guðs eru órannsakanlegir og þá svo sannarlega við í mínu tilfelli.  Án þess að fara of djúpt í það þá var þetta snúinn og erfiður tími en á sama tíma óskaplega lærdómsríkur.

Málarekstur gegn pabba hélt áfram og þetta var griðarlegt áfall sem tók verulega á hann og okkur öll fjölskylduna. Á þessum tíma var ég ekki búin að takast á við öll gömlu áföllin sem ég var enn að burðast með”.

Gunnar Þorsteinsson.

Hún segir árin 2011 og 2012 hafa verið sérstaklega erfið og hún hafi verið að keyra sig út. „Ég er rosalega orkumikil og færist mikið í fang. Yfirleitt vinn ég á við þrjá, sem er ekki sniðugt”, segir hún og hlær.  „Ég mæli ekki með því! En á þessum tíma, þegar ég er verð fyrir persónulegum áföllum á öllum sviðum, leita ég mér loksins hjálpar, fór til fagaðila sem hjálpaði mér að vinna í sjálfri mér og guð minn góður hvað það var gott!”

Undirlögð af áfallastreituröskun

Hún segir að þrátt fyrir að fjölskylda hennar hafi mikið verið í sviðsljósinu á árum áður séu þau afar prívat fólk. „Ég er ekki mikið í viðtölum og slíku og lengi vel vissi ég ekki að ég þyrfti á hjálp til að takast á við það sem ég hef gengið í gegnum. En þarna fékk ég loksins upplýsingar um að taugakerfið mitt hefði verið undirlagt af áfallastreituröskun í tólf ár og það hjálpaði mér mikið að gera upp mín mál, mál sem rekja má alveg til æsku.

Ég mæli eindergið með því að opna hjarta sitt, það er svo gott að fá lánaða dómgreind, einhverns sem heyrir. Það sama gerist við bænina, við léttum á hjarta okkar við bæn og það er einhver sem heyrir. Það er mikil streitulosun sem felst í bæninni“.

Þurfti að læra að setja heilbrigð mörk

Sigurbjörg segir að ef til hljómi það einkennilega en hún sé smá efasemdamanneskja. ,,Ég er alinn upp af Gunnari og Ingu sem eru alveg brennandi í trúnni, en mín trú er ekki eins og þeirra. Við upplifum öll hlutina ólíkt.  Það er ekki nóg fyrir mig að vera sagt eitthvað, ég verð að finna og upplifa sjálf. Ég væri sjálfsagt ekki trúuð í dag nema fyrir persónulega trúarreynslu þar sem ég hef fundið fyrir nærveru Guðs. Hann hefur verið mér ljós á vegi mínum í erfiðum kringumstæðum.Það jafnast ekkert á við þá fullvissu að maður er ekki einn á erfiðum vegi. Það er einhver æðri sem sér um mig”

Hún segir að hún hafi reyndar vitað hvað hún þurfti að gera þegar hún talaði við sálfræðinginn. „En ég þurfti að fá staðfestingu því maður hefur tilhneigingu til að efast um sjálfan sig. Þarna fékk ég loksins nafn á það sem var að hrjá mig.  Ég hafði til dæmis ekki hugmynd um að ég væri meðvirk og þurfti að læra að setja mér heilbrigð mörk.”

Er allt önnur manneskja

Hún segist telja það öllum hollt að vinna í sjálfum sér, flokka hlutina og taka til í gömlu dóti og vinsa frá. „Ég lærði svo mikið um hvað er heilbrigt fyrir mig og mína fjölskyldu. Ég var til dæmis alin upp við það að heimilið okkar væri opið allan sólarhringinn en það er ekki þannig hjá mér í dag. Einkalíf minnar fjölskyldu er mér afar mikilvægt. Ég elska að þjóna fólki og sjá það blómstra en ég elska líka að vera heima í rólegheitum með fólkinu mínu. Lífsviðhorf mitt hefur breyst stórkostlega á síðustu tuttugu árum, ég er allt önnur manneskja og hef lært að leyfa kringumstæðunum að móta mig, mýkja og breyta.”.

„Drengurinn minn deyr“

 Talið berst að fjölskyldunni og Sigurbjörg hreinlega lýsist upp af stolti og gleði yfir börnunum sínum.

„Ég eignaðist tvíbura nokkrum árum eftir lát ömmu, strák og stelpu, fimm vikum fyrir tímann, sem ekki er óeðlilegt þegar um fjölbura er að ræða. En drengurinn minn deyr og er endurlífgaður. Hann varð fyrir súrefnisskorti, var gríðarlega veikur og okkur var sagt að það væru helmingslíkur að hann hefði það af. Í kjölfarið missi ég algjörlega tökin á áfallastreituröskuninni og dreymdi á hverri nóttu að ég væri að missa börnin. Þarna var ekki komin í gang umræða um afleiðingar af áfallastreituröskum né hvað væri hægt að gera”.

Tvíburarnir Hulda María og Gunnar gengu i gegnum erfið veikindi sem börn.

Þremur árum seinna gerðist það að dóttir Sigurbjargar fékk heilahimnubólgu og missti hluta af sjóninni en var mjög lánsöm að lifa það af. „Það greinast kannski þrjú slík tilfelli á ári svo bæði börnin mín hafa verið mjög lífshættulega veik og glíma við ákveðnar afleiðingar af því. Þú sérð það samt aldrei á þeim, þau eru ótrúlega flott og frábær bæði tvö, svo mikil guðsgjöf”.

Það mátti ekki seinna vera

Læknir, sem kom heim heim til þeirra, sagði þeim hjónum að ekki væri ástæða til að hafa áhyggjur af stelpunni en Sigurbjörgu fannst þá eins og tekið væri utanum sig og henni sagt að fara með barnið upp á spítala. „Ég er sannfærð um að þarna var æðri kraftur að verki því það mátti ekki seinna vera. Hún fór beint í öndunarvél og læknirinn sagði að hún hefði ekki lifað það af hefði hún verið heima. Þarna fann ég svo vel hvað það er passað upp á okkur og hvernig ég er látin vita þegar mikið liggur við. Mér finnst ég svo lánsöm að eiga trúna”.

Þegar sonur Sigurbjargar var var fjögurra ára var hann greindur með ódæmigerða einhverfu og læknirinn vildi meina að þar hafi súrefnisskortinum í fæðingu verið um að kenna. „Við höfðum verið vöruð við því að lífið gæti orðið honum mjög erfitt en ég er mjög ánægð með að segja frá því að ekkert af þessu hefur staðist og bæði hann og systir hans eru glæsilegt og heilbrigt ungt fólk með framtíðina fyrir sér“. 

Allir voru í áfalli

Margir voru í sárum eftir að ásakanirnar á hendur Gunnari komu fram á sínum tíma. „Þetta var erfitt fyrir alla, ekki bara mig heldur og fjölskylduna og kirkjuna. Allir voru í áfalli og það varði í töluvert langan tíma. Að því kom að við lokuðum Krossinum og stofnuðum aðra kirkju árið 2014. Hún heitir Smárakirkja og stendur fyrir allt aðra hluti en Krossinn gerði í gamla daga”.

Gunnar er ekki safnaðarmeðlimur og það er ekki mikið samband á milli feðginanna en hann býr á Spáni. Þau hittast þó reglulega, til dæmis í fjölskylduboðum.

Erum mun frjálslyndari

Sigurbjörg segir Smárakirkju mun frjálslyndari en Krossinn var. „Það eru til dæmis engar reglur fyrir kvenfólk varðandi klæðaburð eða annað slíkt heldur tókum við allt út sem okkur fannst ekki passa. Við höfðum reyndar gengið í gegnum ákveðið breytingatímabil innan Krossins, afnumið ýmis höft, aukið jafnrétti kynjanna og margt hafði breyst til batnaðar, en við tókum þetta skrefinu lengra. Við í Smárakirkju stöndum fyrir aðra hluti, t.d. ekkert kynjamisrétti og ég trúi því ekki að það sé gott fyrir nokkurn mann að vera barinn í hausinn með Biblíunni. 

Sigurbjörg trúir því að kærleikurinn breyti fólki. „Ég stend ekki í því að gera lítið úr ákveðnum þjóðfélagshópum því við erum öll ólík. Það er enginn betri en annar, en það sem við eigum sameiginlegt er að öll þurfum við á gæsku og ást guðs að halda. Ég vil að kirkjan lyfti fólki upp, leyfi því að blómstra og verða besta útgáfan af sjálfu sér með Guðs hjálp“.

„Líf mitt hefur verið blessað“

„Ég hef verið blessuð í lífinu og fundið að ég er elskuð. Ég vildi óska að allir myndu finna það. Það hafa verið erfiðleikar en það er hluti af lífinu. Málið er að halda áfram, burtséð frá því sem hefur gengið á. Sumir leyfa hjörtum sínum að harðna en ég vil að hjarta mitt mýkist og ég nái að verða dýpri manneskja. Það eru erfiðu kringumstæðurnar sem móta okkur og færa okkur þá reynslu sem gefur okkur samkennd. Við þurfum meiri samkennd og kærleika í heiminn, eiginleikann til að geta sett sig í spor annarra. Ef meiri samkennd væri ríkjandi væru engin stríð háð.

Tvíburarnir eru hraust og flott ungt fólk með framtíðina fyrir sér.

Ég gæti ekki verið hamingjusamari þrátt fyrir þessi áföll. Líf mitt hefur verið blessað“.

Trúir á vonina og kraftinn í trúnni

Sigurbjörg trúir á vonina og kraftinn í trúnni. „Trúin er svo mikið meira en að trúa á einhvern sem þú sérð ekki og er óskilgreindur. Trúin á Jesú virkar þannig að upprisukraftur hans býr í hjartanu. Fyrir mig virkar það þannig að hann reisir mig upp þegar ég geng í gegnum dimman dal, eitthvað sem við öll lendum í á einhverjum tímapunkti í lífinu. Ég finn hvernig hann er með mér í öllum aðstæðum lífsins. Af hverju gerast erfiðir hlutir í lífinu?  Ég hef ekki hið endanlega svar við því en eitt veit ég að allar kringumstæður, bæði erfiðar og gleðilegar geta haft áhrif á okkur til góðs. Það fer allt eftir því hvernig við bregðumst við kringumstæðum og afstöðu okkar til hlutanna,“ segir Sigurbjörg, hamingjusöm, stolt og einlæg.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -