Fimmtudagur 12. september, 2024
8.8 C
Reykjavik

Sigurður tvívegis nálægt dauðanum: „Datt bara einu sinni í það en það rann ekki af mér í rúm 30 ár“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég var einu sinni næstum búinn að yrkja mig út úr skóla. Þá tók ég The Raven eftir Edgar Allan Poe og snéri honum upp á skólameistara Menntaskólans á Akureyri. Svo fór ég til hans og spurði hvort ég mætti ekki lesa þetta á ljóðakvöldi, kvöldið eftir. Hann las þetta og fölnaði svo hægt og rólega og sagði svo orðrétt, Sigurður, ég ætla að biðja þig að vísa úr mínum húsum, ég er þreyttur og hef unnið mikið en ég get sagt þér það að ef þú hefðir lesið þetta upp að mér forspurðum hefðirðu verið umsvifalaust rekinn úr skóla.“

Dr. Sigurður Ingólfsson er vinsæll meðal þeirra sem til hans þekkja. Hann er fyndinn, djúpur og heiðarlegur. Og svo er hann heilmikill karakter. Hann titlar sig sem þýðanda og ljóðskáld en snemma á næsta ári kemur út níunda ljóðabók hans. Mannlíf plataði hann í viðtal.

Sigurður er frá Akureyri og stundaði nám við Menntaskólann á Akureyri en fór svo í bókmenntafræði í Háskóla Íslands, tók svo kennslufræðina en flutti svo til Frakklands. Þar tók hann doktorsgráðu í frönskum bókmenntum og samtímaljóðlist. „Það er miklu skemmtilegra að skrifa um eitthvað sem er skrifað núna en ekki eitthvað dautt sem hefur verið skrifað um milljón sinnum.“

Byrjaði snemma að semja ljóð

Eftir Frakkland fór Sigurður ásamt þáverandi eiginkonu sinni og tveimur sonum austur á Egilsstaði hvar Sigurður kenndi frönsku. Í Menntaskólanum á Egilsstöðum var hann kallaður Dr. Zorro en á þeim árum hafði hann langt hár sem hann setti upp í stert og var með franskt skegg sem minnti helst á Zorro. Eftir að starfi hans lauk við skólann fékkst hann við ýmislegt, meðal annars ritstjórn og skrif. Nú býr Sigurður í miðborg Reykjavíkur og starfar sem þýðandi og svo gefur hann út ljóðabækur endrum og eins. Þá stundar hann einnig nám við guðfræðideild Háskóla Íslands.

„Ég byrjaði að semja ljóð strax í barnæsku. Byrjaði við að fikta við ferskeytluna en fyrsta vísan sem ég samdi var hræðileg. Af því að ég hrúgaði bara fullt af stuðlum í allar setningar,“ segir Sigurður og hlær. „Halldór frændi minn, fyrrverandi skólastjóri í Þorlákshöfn spurði mig einfaldlega hvort ég vissi ekki að það ættu bara að vera tveir stuðlar í hverri setningu og einn höfuðstafur.“ Sigurður heldur áfram og segir blaðamanni hver hafi kennt honum mest hvað ljóðlistina varðar. „Svo lærði ég mest af honum Birni Andrési Ingólfssyni, föðurbróður mínum. Hann er algjör spesíalisti í almennilegri bragfræði.“

- Auglýsing -

„Guð minn almáttugur, ekki hann!“

Í Menntaskólanum á Akureyri segist Sigurður hafa lifað hálfgerðu prívatlífi, mætti í prófin en „ég var bara út á þekju einhvernveginn en einn besti vinur minn sagði mér að það fyrsta sem honum datt í hug þegar hann sá að ég var að koma í bekkinn hafi verið, Guð minn almáttugur, ekki hann!“

Fyrsta ljóðabók Sigurðar, Húm, kom út árið 1986. „Hún var svona ungæðingsleg og ég ætlaði bara að fá Nóbelinn strax. Og íslensku bókmenntaverðlaunin,“ bætir Sigurður við hlæjandi. „En svo voru nú einhverjar þýðingar í bókinni sem ég er ennþá ánægður með, Poe, Goethe og Shelley.“ Síðan þá hafa komið út eins og áður segir þó nokkrar ljóðabækur eftir Sigurð og er hann hvergi nærri hættur.

- Auglýsing -

Blaðamanni lék forvitni á að vita hvaða skáld hann hefði mest dálæti á og sagði Sigurður því auðsvarað. „Fyrsta skáldið sem ég féll kylliflatur fyrir var Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. Og svo var það Steinn Steinarr. En síðan hafa það verið frönsku skáldin, Charles Baudelaire, Arthur Rimbaud og fleiri. Svo er Sigurður Pálsson reyndar líka í sérstöku uppáhaldi hjá mér.“

Sigurður við Geldingagosið

Varð næstum úti sem barn

Sigurður er ekki laus við drama á lífleiðinni eins og kannski flestir sem fengnir eru í viðtöl sem þessi en hann hefur tvisvar sinnum verið nálægt dauðanum. Eftir seinna skiptið sem hann nánast dó, segir Sigurður að þegar fólk spyrji hann hvort það hafi ekki verið alveg hræðilegt, svari hann alltaf eins; „Ja, maður er þá búinn að prófa þetta einu sinni.“
Fyrra skiptið gerðist þegar hann var aðeins fjögurra ára gamall og ber hann þess enn merki. „Ég var alveg búinn að sætta mig við það að vera að deyja, fjögurra ára gamall. Sá bara í hvað stefndi og ok, það er þá bara þannig.“

Á þessum tíma bjó Sigurður með foreldrum sínum og bróður á Svalbarðseyri, í Jakobshúsi svokölluðu. „Ég vildi búa til stromp á snjóhús sem ég og vinir mínir vorum búnir að búa til úr skafli. Við byrjuðum fyrir hádegi en eftir hádegi vildi enginn koma með mér til að klára strompinn. Þannig að ég fer einn út. Ég byrja að gera gat á snjóhúsið en svo pompaði ég bara niður og sat þar fastur um miðjuna. En ég tek vettlingana af mér til að reyna að nota hendurnar til að losa mig en þegar það klikkar og ég ætla að setja þá aftur á mig eru þeir foknir burt. Ég rétt sá grilla í þá en þeir gerðu það bara til að stríða mér.“

Úti var mikið frost en rétt áður en Sigurður missti meðvitund man hann eftir að hafa séð tvo handleggi taka á móti sér. „Og ég hélt bara að ég væri að deyja. En nei, þetta var bara karlinn í næsta húsi en konan hans hafði svo gaman af því að sauma á daginn en í þetta skiptið bilaði saumavélin hjá henni og hún tók því upp kíkinn sinn og horfði út um gluggann til að kíkja í kringum sig. Sá hún þá einhverja þúst vera að sprikla og náði í karlinn sinn og sagði honum að athuga með þetta. Hann kom út og kippti mér úr skaflinum. Þetta var hann Sigmar karlinn og á ég honum líf mitt að launa.“

Sigurður var fluttur á sjúkrahús með kalsár á fingrum en þeir voru glærir á lit að sögn móður hans. Í dag er hann með mislanga fingur, sökum kalsins. Sigurður var nokkuð ódæll á sjúkrahúsinu. „Svo vakna ég bara sprelllifandi á sjúkrahúsinu og var bara steinhissa. Ég var þarna innan um nokkrar konur sem mér fannst alveg eldgamlar en ætli þær hafi ekki verið svona 18, 19 ára. Ein þeirra var mjög sæt en ég var svolítið hrekkjóttur þarna og var alltaf að fela mig fyrir hjúkkunum þegar þær komu. Þessi sæta leyfði mér að fela sig undir sænginni sinni og þar fékk ég bara fría anatómíu, segir Sigurður og skellir upp úr.“

Sigurður reyndi einnig að strjúka af sjúkrahúsinu í tvígang. „En ég var stoppaður að minnsta kosti einu sinni en var þá kominn alla leið út á gang og var að reyna að fá einhvern til að ýta á lyftutakkann fyrir mig. Í hitt skiptið var ég kominn alla leið í anddyrið. Mér hundleiddist þarna og svo var maturinn vondur.“ Það sem Sigurði fannst, fjögurra ára gömlum, þó leiðinlegast við sjúkrahúsdvölina var að geta ekki lesið enda þá með ónothæfa fingur til að fletta blaðsíðum. „Þannig að ég þróaði með mér tækni í því að fletta með tánnum.“ Aðspurður segist Sigurður ekki notast við þessa aðferð lengur, „ég efast um að ég nái bókinni upp.“

„Prófessional fyllibytta“

Heilsan hans Sigurður hefur ekki alltaf verið upp á sitt besta en hann segist vera „prófessional fyllibytta.“ „Ég datt reyndar bara einu sinni í það en það rann ekki af mér í rúm 30 ár.“ Eftir alla drykkjuna er Sigurður nú með nokkurvegin ónýta lifur, geðhvarfasýki og sykursýki 2. „Og geng bara á lyfjum. Ég hætti að drekka fyrir ca 3-4 árum og það var bara auðvelt. Ég hafði áður farið í 100 og eitthvað meðferðir og fannst allt heimskulegt sem þar fór fram. Svo einn daginn vaknaði ég, auðvitað á sjúkrahúsinu og sagði við sjálfan mig, fuck, ég nenni þessu ekki lengur. Svo fór ég bara heim og hætti að drekka. Nema jú, ég fékk mér tvisvar sinnum rauðvínsglas til að athuga hvort ég yrði alveg brjálaður í áfengi. Svo var ekki og þá gat ég hætt með góðri samvisku. Af því að þá var ég ekki að hætta sem alki heldur sem fyllibytta. Allavega í mínum huga en samkvæmt skilgreiningunni er ég auðvitað bullandi alkahólisti.“ Sigurður er alvanur sjúkrahúsdvöl en hann segist hafa dvalið á öllum sjúkrahúsum landsins, „nema á Ísafirði, ég á það eftir,“ segir Sigurður og hlær. „Ég er að hugsa um að fara á Ísafjörð og ná sjötta fótbrotinu mínu þar.“

Sigurður les í Davíðshúsi á Akureyri

Að lokum segir Sigurður nokkuð alvarlegur í fasi, að hann hafi byrjað að semja ljóð „til að verða frægur og ná í stelpur en nú sé það sér lífsnauðsynlegt því „nú er ég Bi-polar og gömul fyllibytta og hvað eina, en ljóðið er það eina sem ég get algjörlega einbeitt mér að. Annars er hausinn á mér bara á einhverju flökkti. Svo finnst ég mér líka hafa eitthvað að segja.“

Heima

Þegar líður hugur heim
og hugsar öllum þeim
sem sáðu í þennan akur sem við eigum,
þakkir fyrir það
og þennan fagra stað.
Ég anda skógi og saman sumrið teygum.
Um allan Eyjafjörð
er einhver heilög jörð
og fuglasöng og fjarræn ljóð ég heyri.
Það líf sem líður hjá
þau ljóð sem vakna fá

ég heyri ef ég hugsa um Akureyri.

Sigurður Ingólfsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -