Laugardagur 22. janúar, 2022
0.9 C
Reykjavik

Sonur Sesselju tók líf sitt: „Þetta verða þriðju jólin án Helga“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

„Jólin eru ekki eins og þau voru áður. Það er val um að láta þetta ganga og hafa gaman og ég hugsa oft um hvað ég geti gert til að láta okkur líða vel. Ég er alltaf að finna út hvaða leið við förum þessi jólin þannig þau verði góður tími hjá okkur. Þannig er ég að tækla þetta fyrir þessi jól. Þannig hugsa ég um jólin í dag; hvaða leið ég eigi að fara þannig að við séum ekki að dvelja í sorginni. Ég gæti farið hina leiðina og hugsað með mér að mig langi ekkert til að halda jól og að þetta sé ömurlegur tími,“ segir Sesselja Anna Ólafsdóttir.

Elsti sonur hennar, Helgi Már Kristjánssson, tók eigið líf í mars í hittifyrra. Hann var 31 árs. Þetta verða því þriðju jólin án Helga. „Mér finnst ég vera á einhverju vegasalti sem ég get verið sitt hvoru megin við.  Ég vil hafa jólin yndisleg og góð. Þannig hugsa ég um jólin í ár. Ég ætla að baka smákökur sem Helga þóttu vera góðar og ég gerði það líka í fyrra; þetta eru kökur sem okkur öllum finnst vera góðar í fjölskyldunni.“ Sesselja segir að piparkökur hafi verið í uppáhaldi hjá Helga. Hvert var uppáhaldsjólalagið hans? „Jólahjól. Það var svo vinsælt þegar hann var barn. Svo spilaði hann á píanó og fyrsta jólalagið sem hann lærði og sem hann spilaði á fyrstu jólatónleikunum sínum og sem mun alltaf tengja mig við Helga er Jólakötturinn.“

Ég er alltaf að finna út hvaða leið við förum þessi jólin þannig þau verði góður tími hjá okkur

Sesselja Anna Ólafsdóttir

Að flýja sannleikann

Þriðju jólin án Helga.

„Mér fannst jólin í hittifyrra vera mjög erfið og ég upplifði mig mjög þunglynda,“ segir Sesselja Anna sem er gift og á fjögur önnur börn. „Við vildum ekki vera í sama farinu; mig langaði ekki til að gera það sama og ég var vön að gera um jólin og ég held ég hafi ekki heldur haft orku í það. Við vildum fara eitthvað annað og gerðum það. Ég sá eftir á pínulítið eftir að hafa farið þessa leið. Fyrir utan að finnast ég ekki hafa orku til að gera neitt fyrir jólin þá held ég að mig hafi langað til að hlaupa undan sorginni.

- Auglýsing -

Ég var örugglega að flýja sannleikann. Ég hef alltaf verið mikið jólabarn og bakað margar smákökusortir og allt á að vera svo fullkomið og æðislegt en þarna hafði ég það ekki í mér. Ég var að fást við áfallastreituröskun vegna fráfalls Helga og fékk ég martraðir á nóttunni í marga mánuði eftir að hann dó, ég svaf illa og borðaði ekki mikið á þessu tímabili. Ég var dugleg að fela hvernig mér leið.“ Fjölskyldan gisti í þrjár nætur yfir jólin 2019 á hóteli úti á landi. „Upplifun mín var ekki góð. Mér fannst eins og það væri svart yfir öllu; eins og allt væri litað svörtu og það væri kalt. Við fengum mjög góðan mat, allt var svo fallegt og flott og það vildu allir vel en andleg líðan mín var ekki góð.“

Ég var að fást við áfallastreituröskun vegna fráfalls Helga og fékk ég martraðir á nóttunni í marga mánuði eftir að hann dó, ég svaf illa og borðaði ekki mikið á þessu tímabili

Fjölskyldan var heima um jólin í fyrra. „Þau voru yndisleg. Við höfðum góðan mat, sama ísinn og sama frómasinn og venjulega. Mér leið miklu betur en jólin á undan. Ég fór meira í að kaupa jólagjafir og sendi öllum jólagjafir. Ég held ég hafi farið meira ýkt í þau jól af því að ég ætlaði að halda áfram. Ég ætlaði að gleðjast. Ég ætla ekki að vera þessi dapra manneskja og ég ætla að halda áfram. Ég ætla að nota þessa reynslu til að læra. Ég held að Helgi myndi vilja að við séum hamingjusöm.“

Sesselja segir að um jólin í fyrra hafi öll fjölskyldan verið saman og þar á meðal sonur hennar sem býr erlendis sem og tengdabörn og tvö barnabörn. „Ég átti yndisleg jól í fyrra af því að við gátum öll verið saman. Við grétum rosalega mikið og við hlógum rosalega mikið. Þetta voru frábær jól og mikil samvera. Ég held að við höfum öll haft gott af þessu.“

- Auglýsing -

Sesselja Anna Ólafsdóttir

 

Gleymdist að tilkynna andlátið

Helgi hafði búið í Þýskalandi í nokkur ár þar sem hann tók eigið líf.

„Hann veiktist í rauninni um jólin 2018; þá vissi ég að hann væri að veikjast. Við ætluðum öll að hittast á Spáni um jólin en Helgi var þá búinn að láta leggja sig inn á geðdeild í Leipzig. Hann var með króníska kviðverki en það fannst aldrei hvað var að en mér fannst þetta byrja þegar hann fékk botnlangakast í kringum 2014. Verkirnir komu og fóru. Hann fór nokkrum sinnum á sjúkrahús út af verkjum en það fannst aldrei hvað var að. Hann sagði við mig árið 2018 að hann væri hættur að geta sofið út af verkjunum og ætlaði að leita sér hjálpar; ég hafði talað um að þetta væri kannski andlegt.“

Fjölskyldan sem var komin til Spánar var í sambandi við Helga á netinu um jólin. „Ég hef oft í sorgarferlinu spurt mig hvers vegna ég áttaði mig ekki á því hversu alvarlegur þessi sjúkdómur er. Hvers vegna fór ég ekki til hans? Ég hef svolítið klórað í sárið og spurt mig hvers vegna ég fór ekki til hans um jólin 2018 þegar hann var svona veikur. Ég var í jólafríi en þurfti svo að drífa mig í mína vinnu. Maður er alltaf í sömu rútínunni.“

Sesselja Anna sagði sögu sína í viðtali við Mannlíf í vor. Þar kemur til dæmis fram að hún hafi ásamt dóttur sinni ætlað að heimsækja Helga á geðdeildina í mars árið 2019 og komust þær þá að því að hann hafði verið látinn í viku en fjölskyldunni hafði ekki verið tilkynnt um andlátið. „Kerfið á Íslandi klikkaði. Það var mikið um að vera á þessum tíma í Berlín en sendiráðið var með heimsókn þar. Ég veit ekki hvort sendiráðið þar klikkaði en ég veit að sá lögreglumaður á Íslandi sem opnaði tölvupóst frá sjúkrahúsinu í Leipzig um andlát Helga kláraði ekki pakkann þannig að við vissum ekki neitt. Við fengum áfall á sjúkrahúsinu og ég lenti í einhverju áfallastreitusjokki sem ég tel mig vera búna að vinna mig upp úr í dag.“

Þar kemur til dæmis fram að hún hafi ásamt dóttur sinni ætlað að heimsækja Helga á geðdeildina í mars árið 2019 og komust þær þá að því að hann hafði verið látinn í viku en fjölskyldunni hafði ekki verið tilkynnt um andlátið

Sesselja Anna Ólafsdóttir

 

Að lifa með sorginni

Sesselja segist oft í sorgarferlinu vera búin að hugsa um af hverju hún gerði hlutina ekki öðruvísi.

„Það var ekki bara sorgin. Minningarnar voru erfiðar. Fyrsta árið eftir að Helgi dó var ég að grafa í hvað klikkaði hjá mér og ég var svolítið að kenna sjálfri mér um; kannski var ég ekki nógu góð móðir. Kannski gerði ég eitthvað vitlaust. Hvað fór fram hjá mér? Hvers vegna tók ég ekki eftir öllum þessum bjöllum? Þetta ár skoðaði ég öll samskiptin sem fóru á milli okkar Helga á Facebook sem og sms-samskiptin okkar. Hvað klikkaði hjá mér?

Ég hef áttað mig á að það er ekki hægt að breyta fortíðinni. Ég er svolítið mikið í framtíðinni og ég vil vera þar. Núna er ég svolítið að vinna í sjálfri mér og vera ekki í sorginni. Ég vil vera sterk. Ég hef hreyft mig mikið og ég vil vera í mannlegum samskiptum. Ég forðast til dæmis að vera á Facebook en mér finnst vera skemmtilegra að hringja í fólkið mitt og hittast saman. Mér finnst ég vera sterkari eftir svona erfiða reynslu.

Sorgin er ekkert að fara. Maður mun alltaf lifa með hana en maður lærir einhvern veginn að lifa með henni. Ég leyfi sorginni alveg að flæða. Ég leyfi henni að koma, ég tala um sorgina og minningar um Helga sem tengjast til dæmis jólunum. Þetta er eins og vogarskál og ég er að ákveða hvorum megin ég ætla að vera. Ég hreyfi mig mikið og það sem gerir mig sterka er líkaminn af því að líkami og sál eru samvinna sem við verðum að hlúa að. Ég leyfi mér að byggja mig upp með hreyfingunni. Hún gerir mig jákvæða og ég fæ útrás.“

Hún segist líka lesa mikið svo sem um jógafræði. Stundar hugleiðslu. Núvitund.

Hún segir að orka sín hafi breyst eftir áfallið. „Maður er ekki sama manneskjan eftir svona áfall. Það sem skiptir mig máli er að vera ekki stressauð yfir einhverju sem skiptir ekki neinu máli heldur að njóta samvistanna og hugsa um hvernig við getum verið góð við hvert annað, elskað hvert annað og verið saman.“

Aska Helga var jarðsett í duftkeri í kirkjugarðinum Sóllandi. „Ég keypti hjartalaga jólaljós fyrir jólin í fyrra en núna er ég búin að kaupa ljósakross sem ég ætla að setja upp hjá honum. Ég hef svo farið á aðfangadag og kveikt á kerti sem ég set niður. Mér fannst það vera mjög erfitt. Í fyrra hágrét ég í kirkjugarðinum og oftast þegar ég fer þangað. Mig langar ekki til að vera í þessum sporum í lífinu en maður þarf einhvern veginn að lifa með því. Ekki gefast upp.“

Sesselja er spurð hvað hún hafi lært af þessu öllu saman. Sonarmissinum. Sorginni.

„Ég hef áttað mig á því að lífið er ekki sjálfsagður hlutur.“

Maður er ekki sama manneskjan eftir svona áfall

Sesselja Anna Ólafsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -