Miðvikudagur 24. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

Steinar upplifði þrældóm á vinnuheimili: „Það má ekki koma svona fram við fólk“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég þurfti að borga með mér í vinnunni,“ segir Steinar Svan Birgisson, öryrki, myndlistar- og gjörningalistamaður, um reynslu sína af starfi fyrir starfsstað fyrir fatlaða. Þar upplifði hann þrældóm og var á endanum dæmdur úr leik.

Steinar er fatlaður, þótt það sjáist ekki á honum. Eftir hrakningar á vinnumarkaði benti Vinnumálastofnun honum á að leita eftir úrræði á vegum Atvinna með stuðningi, úrræði Vinnumálastofnunar, til handa fötluðum atvinnuleitendum.

Steinar Svan,

Á vef Vinnumálastofnunnar segir orðrétt:

Atvinna með stuðningi er árangursrík leið fyrir þá sem þurfa aðstoð við að fá vinnu á almennum vinnumarkaði.

Vinnubrögðin fela í sér víðtækan stuðning við þá sem hafa skerta vinnugetu vegna andlegrar og/eða líkamlegrar fötlunar, aðstoð við að finna rétta starfið og veita stuðning á nýjum vinnustað.

„Ég vildi vera lausnamiðaður og tók þessu boði. Vildi láta reyna á það hvort ég gæti innt af hendi þau verkefni sem mér voru falin og sá fram á að ef allt gengi að óskum væri þarna um að finna ákveðinn stökkpall út í atvinnulífið.“

- Auglýsing -

Þræll í betri stöðu

Steinari leist vel á og ákvað að taka boði um fjögurra vikna starfsprufu á vinnustaðinn. Hann var látinn skrifa undir pappíra þess efnis að hann myndi starfa í einn mánuð, 4 tíma á dag, og á þeim tíma yrði starfshæfni hans metin.

„Ég borgaði 40 þúsund krónur með mér í ferðakostnað og mat. Fékk engin laun. Ég vann mikið, bjó til plastvasa á suðuvél, var settur á pökkunarvélina, þrykkti á möppur og viktaði og pakkaði brjóstsykri og ýmislegt fleira.

- Auglýsing -

Ég upplifði þetta sem ákveðinn þrældóm en þó er má færa rök fyrir því að þrællinn sé í betri stöðu en sá sem þreytir starfsmatið. Þrællinn fær nefnilega mat að borða til að auka líkur á því að hann geti lagt enn harðar að sér í starfi sínu.“

Það á ekki að koma svona fram við fólk, segir Steinar.

Siðlaust og ólíðandi

Steinar segir að það hafi verið andað ofan í hálsmálið á honum við hvert skref. „Það var alltaf verið að fetta fingur út í allt sem ég gerði. Ég var milli vonar og ótta allann tímann því matsblaðið í lokin skiptir öllu, það er gulrótin í starfsmatinu.“

Eftir tvær vikur á vinnustaðnum hætti Steinari að lítast á blikuna. Hann segir það hafi verið andað ofan í hálsmálið á sér og fylgst með hverju skrefi og í ofanálag var hann látinn kvitta undir á blað þar sem hann afsalaði sér rétti á launum fyrir framlag sitt í starfsmatinu. Eftir starfsmatið hafði hann samband við bæði Eflingu og VR og spurði hvort það stæðist einfaldlega lög að þræla fólki svona út launalaust. Og ekki bara einhverju fólki heldur þeim sem höllustum fæti standa og leita á náðir verndaðs vinnustaðar þegar öll önnur sund virðast lokuð.

„Við nánari eftirgrennslan komst ég að því að það var sambærileg kvörtun í gangi þar sem einstaklingur var að leita réttar síns en á endanum gáfu bæði stéttarfélögin út þá yfirlýsingu að þetta stæðist lög. En þó þetta standist ef til vill lög, telst þetta háttalag stjórnendanna siðlaust með öllu og ólíðandi,“ segir Steinar Svan.

„Túlkun þeirra á starfsmati þykir vera út um allt, túlkað á einn hátt hér og á annan hátt þar. Sem dæmi fékk ég starfsmannaafslátt í verslun Múlalundar en samt var ég ekki starfsmaður heldur aðili í starfsmati!”

Harkalegur stimpill

Að lokinni fjögurra vikna vinnu kom loks niðurstaðan. „Endurgjöfin sem ég hafði beðið eftir.“ Steinar segir að matið hafi þótt og þyki enn heldur harkalegt. „Ég taldi mig hafa fengið stimpil á mig og að ég væri dæmdur úr leik. Þetta er sökum þess að mikilvægir þættir eru metnir lágt á matsblaðinu. Mér finnst þetta afar hlífðarlaust. Á matsblaðinu eru listaðir upp þeir þættir sem vinnustaðurinn metur og svo er viðkomandi einstaklingi birt hvar hann lendir á matsskalanum.

Ég á til dæmis erfitt með að læra nýja hluti, og það kom fram á matsblaðinu, en það sem kom ekki fram er að þegar ég hef lært þá get nýtt mér þá áfram. Þess var aldrei getið.“

Döpur reynsla

Steinar er mjög beygður eftir þessa reynslu. „Vinnumálastofnun sagði að ég hefði skrifað undir og þar með væri allt löglegt og það var allt sem ég fékk frá þeim. Þetta er virt stofnun og lætur mikið á sér bera í samfélaginu og má þó ekki koma svona fram við fólk. Og þá sérstaklega ekki þá einstaklinga sem standa hvað höllustum fæti í samfélaginu. Ég mun seint gleyma þessari döpru reynslu.

Það eina sem ég tek jákvætt frá þessu er að ég kynntist skemmtilegu fólki sem þar starfar á gólfinu. Vinnustaðurinn hefur á að skipa þó nokkrum fötluðum starfsmönnum sem þar inna af hendi hlutastarf.

Þessi reynsla mín verður vonandi víti til varnaðar til annara, sem lenda í svipaðri stöðu og þurfa að leita á náðir þeirra aðila sem framkvæma starfsmat eftir endurgjöf á vinnuframlagi sínu.“

Þrátt fyrir ömurlega reynslu er Steinar ekki að baki dottinn og heldur atvinnuleit áfram.

Vill á vinnumarkað

Aðspurður um draumastarfið segir Steinar það vera eitthvað sem hann kann og getur.

„Það er erfitt að negla það niður en ég hef reynslu í afgreiðslustörfum. Þau virðast þó vera að hverfa, maður þarf að afgreiða sig sjálfur á flestum stöðum án þess að nein verðlækkun á vörum fylgi því!“ segir Steinar og skellihlær. „En ég er tilbúin að prófa ýmislegt, til dæmis framleiðslustörf.“

Hann biður ekki um annað en vinnustað sem sýnir starfsfólki virðingu.

„Ég vil bara vinna á stað sem kemur vel fram við fólk, þar sem vinnuframlag mitt er metið og mér er tryggt hlutverk á vinnumarkaði,” segir Steinar Svan sem heldur ótrauður áfram í virkri atvinnuleit.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -