Föstudagur 29. mars, 2024
-3.2 C
Reykjavik

Steingrímur J. og Landsdómur: Geir Haarde hefði ekki átt að taka þessu persónulega

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þetta var gífurlega erfitt mál og okkur öllum held ég erfitt og með því leiðinlegra má segja sem maður hefur þurft að ganga í gegnum. En þetta var því miður óumflýjanlegt. Alþingi gat ekki vikist undan því að takast á við þetta,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, um Landsdómsmálið og ákæruna á Geir Haarde fyrrverandi forsætisráðherra. Þetta er eitt þeirra mála sem  Geir gerir upp að leiðarlokum  í Mannlífsviðtali og líf sitt og starf.  Þeir þingmenn sem samþykktu ákæruna hafa í einhverjum tilvikum verið  úthrópaðir fyrir að taka Geir einan fyrir en sleppa öðrum ráðherrum, meðal annars af vinstri vængnum, við ákæru.

„Það var alveg ljóst frá byrjun þegar rannsóknarnefndin var skipuð að þá voru allir sammála um að eitt af því sem hún hlyti að skoða væri ábyrgð ráðherra og æðstu embættismanna. Við vissum það alveg að það gat þýtt að niðurstöður nefndarinnar kæmu svo til Alþingis á því formi að Alþingi þyrfti að taka afstöðu til þess að einhver þyrfti að axla ábyrgð. Um þetta var alveg samstaða þegar lagt var af stað með rannsóknarnefndina. Þingið undirbjó sig mjög vel við að taka við niðurstöðunum og stofnaði sérstaka nefnd undir forystu Atla Gíslasonar sem vann mánuðina áður en rannsóknarnefndin skilaði áliti til þess að vera undirbúin hver sem niðurstaðan yrði. Við tókum fljótlega þá afstöðu í VG að setja traust okkar á þessa nefnd. Og það var alger samstaða um að við myndum styðja þær tillögur sem hún kæmi með. Þaðan kom tillagan um að ákæra fjóra ráðherra og við greiddum öll atkvæði algerlega í samræmi við niðurstöðu meirihluta nefndarinnar …,“ segir Steingrímur.

Var hlýtt til Geirs Haarde

Steingrímur segir að á meðal ástæða þess að þetta mál hafi verið honum erfitt sé að honum hafi verið og sé mjög hlýtt til Geirs H. Haarde. „Hann er að mínum dómi góður maður. En mér fannst ekki hátt risið á þeirri umræðu að maður ætti þá að greiða atkvæði í samræmi við það hvort manni væri vel eða illa við viðkomandi mann. Ég ýtti því bara algjörlega frá mér og tók málefnalega afstöðu, eins erfið og hún var. Ég hefði alveg þegið að vera aldrei í þessum sporum en ég tók afstöðu út frá því hvernig málin lágu fyrir á þessum tíma og ég hef ekki endurskoðað afstöðu mína. Ég sé ekki eftir þessu í þeim skilningi að ég telji að ég hefði átt að greiða öðruvísi atkvæði. Það geri ég ekki, ég hef aldrei beðist afsökunar og mun ekki gera það af því að ég tel að ég hafi haft málefnalega nálgun á þetta mál.“

Hann bendir aftur á móti á að aðrir þingmenn hafi tekið þá afstöðu að ákæra aðeins Geir en sleppa öðrum ráðherrum. Þeir sem Alþingi ákvað  að sleppa við ákæru voru Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingar, Björgvin G. Sigurðsson fjármálaráðherra og Árni Mathiessen fjármálráðherra.

„Það sem kom okkur hins vegar í opna skjöldu og eitraði þetta mál mjög mikið var hvernig atkvæði féllu hjá öðrum. Það hefur ekkert með okkur í VG að gera. Menn í öðrum, ónefndum þingflokkum studdu ákærur á suma ráðherra en ekki aðra. Það er allt annað mál og setti dálítið annan svip á þetta leiðindamál hvernig þær atkvæðagreiðslur fóru.“

Steingrímur segir að það megi endalaust deila um hvort það hefði átt að ákæra bara ráðherrana þrjá sem rannsóknarnefndin taldi að væru ábyrgir eða bæta fjórða ráðherranum við eins og nefnd Alþingis ákvað.

Það voru hans beisku örlög í stjórnmálum að vera forsætisráðherra

- Auglýsing -

Steingrímur segir að hann telji að það hefði ekki mælst vel fyrir ef menn hefðu sópað öllu sem hét „ábyrgð stjórnmálamanna“ undir teppið og bara lögsótt og fangelsað bankamenn. „Auðvitað átti bara og varð að útkljá þessi svakalegu mál sem hruninu tengdust á forsendum réttarríkisins – láta lög og reglur gilda um það. Og ég held að Íslendingum hafi tekist það nokkuð vel. Það er að segja, við stofnuðum þessa rannsóknarnefnd sem vann feiknarlega mikið og merkilegt starf og síðan var málum vísað til dómstóla sem eftir atvikum áttu erindi þangað. Ég veit ekki hvað annað hefði verið hægt að gera en að láta grundvallarreglur réttarríkisins virka hér eins og við aðrar aðstæður. Geir H. Haarde hafði verið forsætisráðherra fyrir hrun og lögin og ráðherraábyrgð eru þannig að hún getur tekið til athafna eða athafnaleysis manna í tiltekinn tíma aftur í tímann. Það voru hans beisku örlög í stjórnmálum að vera forsætisráðherra þessa tíma. Ég tel að Geir hafi ekki átt að líta á þetta sem persónulega árás eins og hann gerði. Ég held að mönnum sé hlýtt til hans. Þessi niðurstaða varð mjög væg í hans garð – hann var fundinn sekur um vanrækslu á einu sviði, það er að segja að hafa ekki boðað fundi og virkjað ríkisstjórnina alla sem hafði vissulega afleiðingar inn í stóra samhengið að ríkisstjórnin var ekki samstillt, fundaði ekki og stillti ekki saman strengi og það gat mögulega haft neikvæð áhrif á það hvað menn gerðu eða reyndar fyrst og fremst gerðu ekki í aðdraganda hrunsins. En það er ekki alvarleg yfirsjón finnst mér og ekki eitthvað sem hann og aðrir eigi að líta á sem þungan áfellisdóm í tilviki hans. En þetta var niðurstaða dómsins og þá verða menn að hlíta því. Hann gat á hinn bóginn bent á að hann var sýknaður af öðrum ákæruatriðum og kom þar af leiðandi ekkert illa út úr þessu máli svoleiðis. En auðvitað verður hann að stjórna og ráða viðbrögðum sínum.“

Steingrímur segir að þrátt fyrir sárindin sem urðu vegna afgreiðslunnar hafi samt verið  gott á milli hans og Geirs. Þegar Steingrímur slasaðist illa í bílveltu við Svartá og lá á spítala heimsótti Geir hann.

„Það voru ekki síður keppinautar mínir í öðrum flokkum sem komu í heimsókn til mín eða sendu mér kveðjur. Geir H. Haarde er á meðal þeirra sem heimsóttu mig. Það þótti mér vænt um…“

- Auglýsing -

Viðtalið í heild sinni er að finna hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -