Föstudagur 19. apríl, 2024
1.8 C
Reykjavik

Tinna glímdi við fíknitendensa og heilablóðfall: „Búið að normalisera fíkniefnanotkun“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég er sjálf með fíknitendensa og það er í raun merkilegt að ég skuli ekki vera með fíknisjúkdóm. Ég tek tímabil þar sem ég haga mér eins og kaupfíkill en sem betur fer er ég svo heppin að hafa sloppið,” segir Tinna Barkardóttir sem rekur samtökin Það er Von af miklum krafti ásamt fleirum. „Ég brenn fyrir þetta málefni.”

Staðan er átakanleg

Samtökin voru stofnuð af Hlyni Kristni Rúnarssyni ásamt Rögnu móður hans og öðrum hugsjónaraðilum. Þessir einstaklingar höfðu áhuga á að beita sér fyrir bættri umræðu um fólk sem glímir við fíkn og hétu því að vinna markvisst gegn fordómum og skömm.

Fylgjendur nú ríflega 22.000 á samfélagsmiðlum sem félagið haldur úti og má segja að forsvarsmenn hafi komið með einlægni og áhrifaríkar færslur sem og fræðslu um hugarástand þeirra sem glíma við fíkn.

„Ég kem inn í þetta 2020. Ég er menntaður kennari og fíkniráðgjafi og hef meðal annars unnið á meðferðarheimilum. Því miður þekki ég alltof marga sem fóru þessa leið í lífinu og enn að á þessum stað. Það er átakanlegt. Úrræðaleysi kerfisins er átakanlegt og fordómarnir og skömmin sem fylgir fíknisjúkdómum er allsráðandi. Við höfum það markmið að útrýma því.”

Stéttaskipting heilbrigðiskerfisins

- Auglýsing -

Tinna segir úrræði kerfisins ekki virka saman. „Hvort það er meðvitað eða ómeðvitað innan kerfisins veit ég ekki. En þessi flokkun í kerfinu er allsráðandi og maður fær þá sýn að það sé stéttaskipting innan heilbrigðiskerfisins og fíknisjúklingar séu að einhverju leiti verri sjúklingar en aðrir.

Tinna fékk heilablóðfall og fékk alla þá hjálp í kerfinu sem unnt var að fá. „Enginn var með fordóma gagnvart mér eða spurði af hverju ég hætti ekki bara að vera lömuð. Það er langt því frá viðmótið við þá sem þróa með sér fíkn.

Að mörgu leiti er búið að normalisera fíkniefnanotkun, sérstaklega hjá ríka og fína fólkinu. Það kom til dæmis fram í grein sem ég las hjá ykkur.” Vísar Tinna þá meðal annars í viðtal sem Mannlíf tók við efnaðan kókaínnotanda, það viðtal má sjá hér. „Þarna er týpiskt dæmi um mann með fordómum gagnvart sjálfum sér enda vildi hann ekki koma fram undir nafni. Og það sýnir að fíkn spyr hvorki um stétt né stöðu”

- Auglýsing -

Fíkn og sjálfsvíg

Tinna segir stóra markmiðið að opna áfangaheimilið Annað tækifæri og leita þau til almennings um að leggja þeim lið sem Vonarliðar. „Við viljum bjóða upp á heildarþjónustu þar sem fólk sem klárað hefur meðferð getur fengið stuðning allt upp í tvö ár. Eftir langa og harða neyslu duga ekki tíu dagar á Vogi og fjórar vikur í eftirmeðferð. Hvað tekur þá við? Sama gamla lífið og því miður litlar líkur á að ná bara. Við viljum fá fólk í langtíma eftirmeðferð og vinna að úrræðum í samvinnu við ríki og sveitarfélög. Ekki síst bendum við á mikilvægi öflugrar sálfræðiþjónustu, jafnt fyrir sjúklinga og fjölskyldur. Ekki síst börnin.“

Tinna segir úrræði vissulega vera dýrt en margborgi sig þegar upp er staðið. „Við erum ekki bara að tala um að það spari peninga að gera fíkniefnaneytendur að ábyrgum samfélagsþegnum og skattgreiðendum, við erum líka að tala um að bjarga mannslífum. Ég hef sjálf upplifað það að fólk taki eigið líf þegar það gefst upp og getur ekki horft upp á fortíðina né framtíðina. Fíkn og sjálfsvíg haldast hendur, hjá því verður ekki litið.“

Hið opinbera lítur undan

Tinna er ásamt fleirum sjálfboðaliði hjá Það er Von. „Við erum ekki að fá neina aðstoð frá því opinbera. Við höfum sent beiðni á kynningu á starfseminni á öll ráðuneyti og langflest þeirra hafa hafnað. Það næsta sem við höfum komist er að fá fjarfundaáheyrn hjá einum aðstoðarmanni ráðherra í apríl. Við höfum líka verið í sambandi við hin ýmsu embætti, án árangurs. Þetta væri ef til vill auðveldara ef þetta myndi lenda á þeirra eigin skinni og opna augu þeirra.”

Tinna og kollegar hennar eru til staðar fyrir fólk. „Við tölum við fólk í neyslu og hjálpum þeim að finna úrræði, við tölum við þá sem eru edrú til að hjálpa þeim að fara ekki fram af brúninni, keyrum fólk á AA fundi og komum heim til fólks þegar áhyggjufullir foreldrar hringja. Það er ástríðan sem rekur okkur áfram, þetta er okkar val og þegar vel gengur fær maður gott í hjartað.

Við þurfum að grípa krakkana okkar áður en þau leita í hugarbreytandi efni og gefa þeim þau verkfæri sem þau þurfa í lífinu. Við tölum við krakkana á jafningjagrunni, bönnum ekkert né höldum ræður, heldur útskýrum við heilastarfsemina og reynum að finna ástæður fyrir breyttri líðan og hvernig sé best að taka á því.“

Enginn getur dæmt

Tinna og félagar hafa farið í skóla með forvarnarkynningar með góðum árangri. Hún segir að mörgu að gæta þegar talað er við krakka. „Það er orðið offað í öllum heiminum að sýna fíkniefni á skjá, það gerir þau jafnvel spennandi fyrir krakka og sýnir þeim hvernig á að nota þau. Við viljum fara aðrar leiðir og ná til unglinganna og sýna þeim fram á að það er ekkert sem á að kveikja spennu við að fara þessa leið í lífinu.

Það sem brennur á okkur er að hjálpa veiku fólki að vera virkir samfélagsþegnar, þeim og okkur til góðs. Hver hefur ekki séð eftir einhverju sem hann sagði og gerði í lífinu? Við fæðumst öll jöfn og það er enginn í þeim aðstæðum að geta dæmt.”

Allar nánari upplýsingar um Það er Von er að finna hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -