• Orðrómur

Umdeildir þættir

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Nýir sjónvarpsþættir gerðir eftir skáldsögu, Sarai Walker, Dietland, hafa vakið mikla athygli og deilur í Bandaríkjunum.

Í þáttunum er sársauki kvenna skoðaður með tilliti til rammskakkra gilda og viðmiða samfélagsins.

Hér er um að ræða háðsádeilu á glanstímarita- og snyrtivöruiðnaðinn þar sem sársauki kvenna er skoðaður með tilliti til rammskakkra gilda og viðmiða samfélagsins. Húmorinn er svartur, nærri illkvittnislegur á köflum en aðalpersónan heillandi og hugsandi áhorfendur geta ekki hætt að horfa.

Að því sögðu er söguþráðurinn ruglingslegur á köflum og boðskapurinn svo óvæginn að manni hrýs næstum hugur við. Sagan hverfist í kringum Plum Kettle sem Joy Nash leikur snilldarlega. Hún vinnur fyrir vinsælt stúlknatímarit, Daisy Chain, svarar lesendabréfum í nafni ritstýrunnar, Kitty Montgomery. Plum er feit og sjálfsmynd hennar mótuð af þeirri fyrirlitningu sem konur í hennar stærð mæta hvarvetna. Hún er greind, hlý og skemmtileg en þeir eiginleikar fá ekki að njóta sín nema í skrifum hennar. Heitast af öllu þráir hún að fá að vera alvörublaðamaður en Kitty hefur ekkert rúm fyrir starfsfólk í yfirþyngd að minnst kosti ekki opinbert rými.
Plum hefur alla ævi barist við aukakílóin og hefur reynt alla megrunarkúra á plánetunni jörð. Enginn hefur skilað varanlegum árangri og nú hefur hún ákveðið að fara í hjáveituaðgerð og eftir það svuntuaðgerð. Hún reynir að safna peningum því aðgerðin er dýr og kaupir draumakjólinn og hengir hann upp á áberandi stað til að brýna viljann. Líf hennar er litlaust og einmanalegt. Einu vinirnir eru kaffihúsaeigandi í nágrenninu og starfsmaður hans.

„Marti Noxon er leikstjóri þáttanna og óhætt að segja að hún hafi sýnt mikið hugrekki með þvi að ganga svo langt með femínískan boðskap. Mörgum finnst hún raunar skjóta langt yfir markið en öfgarnar og ýkjurnar undirstrika og gera ádeiluna beittari.“

- Auglýsing -

Skilgetið afkvæmi Metoo
Í gegnum femíníska hópa kynnist Plum alveg nýjum viðhorfum. Hún upplifir meðal annars innsetningu, listgjörning sem er einfaldlega bein útsending frá nokkrum þekktum klámsíðum. Í fyrstu fyllist hún hryllingi en svo áttar hún sig á að þarna birtist á skjánum hin fullkomna staðalmynd kvenna. Barbie-dúkkurnar holdi klæddar og karlmenn níðast á þeim. Var þetta þá það sem hún sóttist eftir? Að verða grönn til að einhvern langaði að beita hana ofbeldi.
Margir vilja meina að þættirnir séu skilgetið afkvæmi Metoo-byltingarinnar og uppreisn kvennanna gegn ofbeldismönnum ekki hneykslanlegri en það að fólk komist upp með morð í þáttum á borð við House of Cards og How to Get Away with Murder. Þarna taki hinir valdalausu réttlætið í eigin hendur og beiti þeim meðölum sem karlar hafa hingað til notað eða skjóta skólafélaga, sprengja byggingar í loft upp og ræna og myrða konur til að hefna harma sinna.

Þreyttar á að bíða
Marti Noxon er leikstjóri þáttanna og óhætt að segja að hún hafi sýnt mikið hugrekki með því að ganga svo langt með femínískan boðskap. Vissulega verður því ekki neitað að reiðin kraumar undir niðri og hnefinn er reiddur á loft gegn óréttlætinu. En jafnframt er öllum er á horfa sýnt hversu ótrúlega margvíslega niðurlægingu konur hafa mátt þola og þær hafa staðið hana af sér. Allar tilraunir til að kæfa raddir þeirra, berja þær niður og troða þeim í mót sem ekki passa þeim.
Þættirnir endurspegla að konur eru þreyttar á að bíða, þær vilja rísa upp og svara fyrir sig. Þessi hárbeitta og að mörgu leyti harkalega sýn á stöðu konunnar er svo hressileg, frumleg og um leið heillandi að það er ekki hægt annað en að hrífast með. Konur hafa of lengi refsað sjálfum sér fyrir að standast ekki kröfur karlaveldisins, barið á sér fyrir að hafa þolað ofbeldi og gefist upp fyrir ósanngirninni. Þarna er heil sjónvarpsþáttasería er bregður upp mynd af heimi þar sem viðsnúningur verður á öllu þessu. Sannarlega merki um nýja tíma.

Veistu meira um málið?

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -