2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Á flakki með pabba

  Breski grínistinn Jack Whitehall sló í gegn í uppistandi þegar hann var rétt skriðinn úr háskóla. Margir Bretar nýta sér það sem kallað er „gap year“ en það mætti þýða sem bilár. Þá ferðast þeir gjarnan og leita upplifana og reynslu áður en vinnumarkaðurinn tekur við. Jack fékk aldrei tækifæri til þess en á árinu 2017 var smágat í annars pakkaðri dagskránni svo hann ákvað að leggjast í ferðlög og taka pabba sinn með sér með bókstaflega hrikalega fyndnum afleiðingum.

  Með í för var auðvitað kvikmyndatökufólk og útkoman eru þættirnir Travels with My Father sem eru sýndir á Netflix. Þættirnir fengu strax gríðarlega mikið áhorf og áhugamenn um ferðlög og skemmtun ættu endilega að kynna sér þá. Jack er glaðlyndur, afslappaður og á auðvelt með að umgangast fólk. Pabbi hans, Michael er á hinn bóginn hinn týpíski stífi Breti. Hann er kvikmynda- og sjónvarpsþáttaframleiðandi og umboðsmaður hæfileikafólks. Meðal þeirra sem hann hefur haft á sínum snærum eru Judi Dench og Colin Firth. Það er mjög erfitt að ímynda sér hann hafi nokkru sinni klæðst öðru en jakkafötum með bindi.

  Það er hreint út sagt óborganlegt að sjá hann bakka skelfingu lostinn út úr hostelinu sem sonur hans hefur bókað fyrir þá í Taílandi og kvarta yfir ýmsum skrýtnum farartækjum sem honum er boðið upp á. En engu að síður er ekki hægt annað en að dást að honum fyrir að vilja taka þátt í þessu. Hann segir sjálfur í fyrsta þættinum að hann sjái þetta sem tækifæri til að bindast syni sínum nánari böndum. Jack var sendur í heimavistarskóla eins og svo margir breskir krakkar úr efri stéttum og það óneitanlega hafði áhrif á samband hans við foreldra sína.

  AUGLÝSING


  Kynslóðabilið í reynd

  Michael fæddist árið 1940 og seinni heimsstyrjöldin setti þess vegna mark sitt á allan hans uppvöxt og viðhorf. Bretland fór illa út úr átökunum þótt þjóðin hafi vissulega staðið uppi sem sigurvegari. Jack er fæddur árið 1988 svo það er í raun heil kynslóð á milli þeirra feðga. Oft kemur þessi mikli kynslóðamunur mjög vel fram. Faðirinn er varkár og hugsandi og fyrir honum er lífið alvarlegt og dýrmætt en sonurinn sem hefur alist upp við öryggi og allsnægtir, er viss um að ekkert sé að óttast og þess vegna sé einfaldlega gaman að upplifa sem flest og leggja stundum allt að veði.

  En svo koma augnablik þegar skilningur kviknar og þeir ná að mætast. Eitt slíkt er til dæmis þegar þeir fara og skoða brúna yfir Kwai-ána. Hún var byggð og sprengd í loft upp af breskum stríðsföngum og Sir Alec Guiness sem lék aðalhlutverkið í kvikmynd um þetta tiltekna atvik var vinur Michaels. Það er eiginlega ekki fyrr en Jack skoðar hið verkfræðilega meistaraverk sem brúin er og faðir hans hefur útskýrt fyrir honum hinn mannlega harmleik að hann nær raunverulega að skynja hvers vegna hún skiptir máli. Einnig koma verulega viðkvæm augnablik og áhorfandinn kemst ekki hjá því að vera snortinn. Eitt slíkt er þegar Jack talar um hvernig hann upplifi að eiga svo aldraðan föður.

  Það er líka alltaf streituvaldandi að vera á ferðalagi. Ókunnuglegur matur, siðir, erfiðar aðstæður og tímamismunur valda álagi og þá koma oft fram verstu hliðar fólks. Stundum veltir maður óneitanlega fyrir sér hvort Michael taki heilshugar þátt í leiknum því pirringur hans og önuglyndi er svo einstaklega fyndið. Margar athugasemdir hans bera einnig vott um einstaka og mjög svo breska kímnigáfu. En hvort sem þetta er allt saman fullkomlega óleikstýrt og raunverulegt eða ekki þá eru þættirnir vel unnir og draga upp góða mynd af áfangastöðunum og sambandi feðga. Þeir upplifa ýmislegt einstakt og er hvarvetna tekið af mikilli ljúfmennsku. Heimamenn leggja sig alla fram um að sýna þeim land sitt og draga upp fallega myndir af menningu sinni. Sumt er okkur óskiljanlegt en samt svo hollt að kynnast.

  Feðgarnir tala reglulega einlæglega til áhorfenda og leggja út frá upplifunum sínum og því sem hent hefur á ferðalaginu. Það eru oft áhugaverðustu augnablik þáttanna. Fyrir svo utan náttúrufegurðina og allt hið einstaka fólk sem þeir rekast á hér og þar.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is