Á hlaupum um landið í sumar

Deila

- Auglýsing -

Íslendingar eiga gríðarlega öfluga utanvegahlaupara sem hafa vakið athygli í fjölmiðlum fyrir afrek sín. Hins vegar þarf engin ofurmenni til að njóta þess að hlaupa í guðs grænni náttúrunni. Eybjörg Drífa Flosadóttir er ein þeirra sem nýtur þess að hreyfa sig á þennan hátt og veit að hver og einn verður að finna sinn hraða og leið til að njóta á sinn hátt.

Hvenær byrjaðir þú að hlaupa? „Ég byrjaði að hlaupa af einhverju ráði 2018 en þá fór ég á byrjendanámskeið hjá Hlaupahópi FH. Mig langaði að geta hlaupið með manninum mínum en hann er mjög öflugur utanvegahlaupari,“ segir hún.

Flestum finnst sjálfsagt einfaldast að fara út á vel greiðfæra göngustíga eða gangstéttir til að hlaupa. Skógarbotninn er stundum þýfður og ójafn og hið sama má víst segja um nánast allt landslag á Íslandi. Af hverju kýstu að hlaupa frekar utanvega en eftir göngustígum borgarinnar?

„Utanvegahlaup eru svo spennandi og skemmtileg. Þau eru líka góð fyrir líkamann, mýkra undirlag og svo er maður alltaf að uppgötva nýja sýn á umhverfið sem er kannski bara rétt hjá og hefur aldrei tekið eftir. Það eru til að mynda óteljandi leiðir í kringum Hvaleyrarvatn eða í Vífilstaðahlíð. Svona ævintýri á hverri æfingu.“

„Frábær félagsskapur og manni líður alltaf betur á eftir.“

Alltaf fínasta veður

Útivist er holl og góð en þegar staðið er við gluggann og horft á regnið streyma niður eða hlustað á íslenskt rokið þegar það hvín í þakskegginu langar sennilega fæsta út. Hvað er það sem dregur fólk út að hlaupa í öllum veðrum?

„Frábær félagsskapur og manni líður alltaf betur á eftir. Vonda veðrið er bara í forstofunni, svo þegar út er komið er bara fínasta veður, oftast nær,“ segir Eybjörg Drífa og brosir.

Á Íslandi erum við svo heppin að alls staðar er stutt í óspillta náttúru. Hvar hleypur þú helst?  „Við Hvaleyrarvatn, Vífilstaðavatn, í Vífilstaðahlíð, Esjunni og Mosfellsbæ,“ segir hún. „Vafalaust er hægt að finna marga fleiri staði sem eru aðgengilegir og þægilegir. Í Heiðmörk eru til að mynda frábærar göngu- og hlaupaleiðir. Þær hafa líka þann kost að vera ekki í brattlendi og því hentugar fyrir þá sem kjósa það frekar en að hlaupa upp í móti. En fæstir láta sér orðið nægja að stunda sportið sitt hér heima á Íslandi. Það færist í vöxt að fólk fari utan til að spila golf, ganga á fjöll, hlaupa og feta fornar pílagrímaleiðir.“

Hefur þú ferðast utan til að hlaupa? „Já tvisvar,“ segir hún. „Ég fór í hlaupaferð með hlaupahóp sem kallast Hlaupahornin, en hann samanstendur af vinum mínum úr menntaskóla, til Sviss. Við tókum þátt í Matterhorn Ultraks-hlaupi í ágúst í fyrra og svo fór ég með Hlaupahópi FH til Ítalíu í Ultra Trail Lago d´Orta í október sama ár. Bæði hlaupin mjög skemmtileg en ólík.“

Ertu búin að skipuleggja sumarið, þ.e. ætlar þú að taka þátt í einhverjum skipulögðum hlaupum?  „Já, ég vona að af þeim verði. Ég er skráð í Mýrdalshlaupið en þar ætla ég að hlaupa 10 km, í Hengil Ultra en þar er vegalengdin mín 25 km og í Súlur Vertical en þar er leiðin sem ég fer 18 km. Svo ætla ég að fara Laugaveginn á tveimur dögum með Hlaupahornunum mínum þeim sömu fóru með mér til Sviss í fyrra.“

- Advertisement -

Athugasemdir