2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Að vera morðingi eða vera ekki morðingi

  Þeir sem þekkja mig vita að ég hrífst af flestu því sem sænskt er. Af hverju veit ég ekki. Kannski var ég sænsk í fyrra lífi? Hjarta mitt tók því örlítinn kipp þegar ég rak augun í glænýja, sænska þáttaröð á Netflix. Það var heppilegt að vera í fríi því strax frá fyrstu mínútu sat ég límd við skjáinn.

  Sænska spennuþáttaröðin Quicksand byggir á skáldsögunni Störst av allt eftir Malin Persson Giolito. Þættirnir eru sex talsins og segja sögu hinnar átján ára Maju Norberg. Stúlku sem er ósköp venjuleg; henni gengur vel í skólanum og líf hennar er í jafnvægi, þar til hún af tilviljun rekst á ungan mann að nafni Sebastian Fagermann. Sem er ekki alveg jafnvenjulegur og hún. Faðir hans er einn ríkasti maður Svíþjóðar og Sebastian lifir hátt. Fljótlega er Maja föst í ofbeldissambandi sem hún losnar ekki úr.

  Hún er morðinginn! Eða hvað?

  Sagan hefst í skólastofu þar sem skotárás hefur átt sér stað. Maja er handtekin, alblóðug með haglabyssu í höndunum, inni í skólastofunni. Manni finnst því strax nokkuð ljóst að Maja sé morðingi. Eða hvað? Með hverjum þættinum þar sem verið er að rifja upp atburði sem gerðust fram að skotárásinni kemur sífellt meira í ljós og maður áttar sig smátt og smátt á því að ekki er allt sem sýnist.

  Rauði þráðurinn í gegnum alla söguna er spurningin hvort Maja hafi framið þennan hroðalega glæp sem hún er sökuð um, eða hvort hún hafi verið dregin inn í atburðarásina af stjórnsömum, og stjórnlausum, kærastanum Sebastian. Enginn virðist vera til vitnis um það sem gerðist nema Maja og þar sem hún má dúsa í einangrun í fangelsi fer hún að rifja upp atburðarásina með aðstoð lögmanns síns í þeirri veiku von að komast að því hvað raunverulega gerðist í skólastofunni þennan dag og geta um frjálst höfuð strokið á ný. Það virðist þó langsóttur draumur.

  Það sem skiptir máli

  Sagan er sögð út frá sjónarhorni Maju sem sýnir áhorfandanum hvernig hún dregst inn í líf sem einkennist af skemmtunum, eiturlyfjum og algjöru kæruleysi. Móðir Sebastians er ekki inni í myndinni og faðir hans sýnir honum lítinn áhuga, enda lítur hann greinilega á Sebastian sem svarta sauðinn og er ófeiminn við að láta þá skoðun sína í ljós. Þegar foreldrar Maju kynnast Sebastian og föður hans er greinilegt að þau sjá bara þennan geggjaða lífsstíl þeirra feðga og allan auðinn. Foreldrunum finnst til dæmis lítið mál að leyfa Maju, þá sautján ára, að fara einni í skútusiglingu með feðgunum, þrátt fyrir að þekkja þá sama og ekki neitt, og skemmta sér í veislum þar sem greinilega er verið að neyta eiturlyfja.

  AUGLÝSING


  Samband Maju og Sebastians þróast út í ofbeldissamband sem hún nær ekki að losa sig úr. Henni finnst hún líklega tilneydd að vera til staðar fyrir hann þar sem enginn annar er það. Segja má að hún losni ekki úr því fyrr en þennan örlagaríka dag í skólastofunni. Mér fannst líka samband Sebastians og föður hans og samband Maju við foreldra sína, eða ef til vill mætti frekar kalla það sambandsleysi, sýna vel hvað áhugi, eða áhugaleysi, foreldra á börnum sínum, hefur mikil áhrif á þau. Það er til dæmis greinilegt að Maju langar að segja móður sinni frá ofbeldinu en þar sem mamma hennar virðist heldur spennt yfir ríka tengdasyninum, spyr Maja: „Hvers vegna geturðu aldrei spurt mig að einhverju sem skiptir máli, mamma?“

  Ég ætla ekki að uppljóstra um endinn en ég mæli eindregið með þessum þáttum. Það er hægt að hafa enskan texta ef maður skilur ekki sænskuna. En svo má líka bara njóta þess að horfa. Þetta er jú sænskt.

  Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is