Að vera vinur í raun

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Þegar alvarleg veikindi koma upp hjá fjölskyldu eða vinum langar aðra til að sýna stuðning í verki. Oft finnst þeim þeir vanmáttugir og vita ekki alveg hvernig á að snúa sér í að gera gott. Þetta er auðveldara en menn grunar. Hafðu bara í huga að allir þurfa að finna hlýju og að þeir skipti máli.

 

Ekki vera hrædd við að ræða veikindin

Stundum er fólk hrætt við að spyrja hvað sé að eða á hversu alvarlegt stig sjúkdómurinn er kominn. Ekki vera feimin/n við að brydda upp á þessu umræðuefni. Oftast vilja menn segja frá hvað er nýtt að frétta og hvernig staðan er. Ef ekki eiga flestir auðvelt með að segja þér hreint út að þeir kæri sig ekki um að tala um veikindin.

Margir kjósa að senda SMS eða skilaboð gegnum Facebook um að þeir vilji og séu lausir ef þörf sé á aðstoð. Kosturinn við það er að þá getur viðkomandi svarað þegar honum hentar. Þú þarft þá ekki að óttast að hringja í miðju samtali við lækni eða þegar illa stendur á. Stundum þarf að vera nákvæmur og tiltaka hvað þú ert tilbúinn að gera. Það getur til dæmis verið hjálplegt að senda skilaboð og segja: Ef þú þarfnast einhvers er ég laus í dag milli fimm og sjö til að sækja það fyrir þig. Þú getur líka boðið fram fjárhagsaðstoð eða barnapössun.

Það er ósköp fallegt að vilja færa sjúklingi eitthvað til að gleðja sig við en ef þú kýst að taka með þér mat eða blóm vertu þá viss um að hann þoli gjöfina. Stundum má fólk ekki borða tilteknar matartegundir og ilmur af blómum eða frjókorn geta farið illa í sjúklinga undir ákveðnum kringumstæðum. Það getur líka verið gott að færa fólki mjúkar þægilegar náttbuxur eða hlýja inniskó.

Sýndu ávallt tilitssemi

Að vera inni á sjúkrahúsi er aldrei gaman og fólk er einmana og því leiðist. Þrátt fyrir það er ekki heppilegt að koma hvenær sem er. Vertu viss um að ekki standi illa á þegar þú ætlar að koma í heimsókn. Ekki er heldur víst að sjúklingurinn þoli að margir komi í einu. Hugsanlega þarf hann ró og nóg að fá einn eða tvo í einu. Það er mjög gott að heyra í nánustu aðstandendum og athuga hvenær þeir verða á ferðinni upp á að heimsóknir dreifist yfir daginn. Þeir vita oft líka hvenær best stendur á og stundum tekur einhver að sér að sjá um að skipuleggja hreinlega hvenær hver og einn kemur. Matmálstímar á sjúkrahúsum eru oftast í kringum sex á daginn fremur en sjö eða átta eins og venja er á flestum heimilum. Þá er ekki gott að koma. Ef þú þekkir foreldra sem eru með veikt barn á sjúkrahúsi getur verið góð hugmynd að færa þeim gott kaffi eða mat. Það er eflaust leiðigjarnt til lengdar að borða sjúkrahúsmatinn. Það getur líka verið góð tilbreyting í daginn að fá pítsu, heimagert ljúfmeti eða eitthvað verulega næringarríkt og gott. Bjóddu þeim einnig að leysa þau af svo þau geti skotist heim í bað, í sund eða á kaffihús.

Í sumum tilfellum er vilji sjúklingsins til að taka á móti gestum meiri en getan. Það getur þá verið gott að ræða við hjúkrunarfólk og athuga hvort eitthvað mæli gegn því að fólk komi. Eins getur verið mjög varasamt að koma með börn í sjúkrahúsheimsóknir. Þau eru smitberar og ekki víst að gott sé fyrir einhvern veikan að smitast af einhverri flensu, kvefi eða vírus. Ef þú ert nýstiginn upp úr veikidnum ekki fara nema vera viss um að þú smitir ekki lengur. Þótt sá sem þú ert að heimsækja sé ekki mikið veikur getur legið með honum á stofu einhver sem alls ekki þolir að sýkjast. Þá er betra að hringja og skýra út fyrir vini þínum hvers vegna þú kemur ekki. Flestir hafa orðið með sér snjallsíma og tölvur þegar þeir leggjast inn á sjúkrahús og þá er hægt að hringja facetime eða í gegnum Skype. Þá getið þið horfst í augu og notið samtalsins rétt eins og þú værir hjá honum. Þú getur líka sent honum eitthvað fallegt með einhverjum sem þú veist að er að fara í heimsókn. Það eru margar leiðir til að sýna fólki að verið sé að hugsa til þess.

Hvernig verður lífið þegar sjúkrahúsvistinni lýkur?

Fólk fer inn á sjúkrahús af margvíslegum ástæðum. Stundum kemur batinn fljótt og stundum gengur hann hægar. Veltu fyrir þér hvað tekur við þegar sjúkrahúsdvölinni sleppir. Getur viðkomandi farið heim? Er hann kannski á hækjum og húsið hans á tveimur hæðum? Þarf viðkomandi hvíld en er með fullt hús af börnum? Kemur hann til með að þurfa að venjast nýjum lífsstíl, t.d. öðru mataræði? Er eitthvað sem þú getur gert til að létta viðkomandi lífið þegar þar að kemur? Getur þú til dæmis boðið honum að búa hjá þér af því þú ert á einni hæð? Getur þú tekið börnin í nokkra daga? Ertu hugmyndaríkur og góður kokkur og áttu þess vegna auðvelt með að hjálpa honum að laga sig að breyttum matarvenjum?

Margt fleira getur fólk gert til að auðvelda vinum að aðlagast breyttum aðstæðum. Kannski þarf að skutla þeim í endurhæfingu, sjúkraþjálfun eða endurkomur. Hugsanlega getur hjálpað að fara með vini sínum út að ganga. Eftir að hafa gengist undir aðgerð getur tekið langan tíma að fá fulla orku aftur. Þá munar um að að einhver færi manni mat, þrífi fyrir mann, þvoi þvottinn eða hjálpi til við annað sem snýr að því að halda heimilinu í lagi. Það getur líka skapað ríka öryggistilfinningu að vita að einhver líti inn á hverjum degi.

Vertu til staðar tilfinningalega

Það reynir á þolinmæðina að vera veikur. Enginn er upp á sitt besta þegar hann finnur til eða líður illa. Sumir eiga líka erfitt með að höndla að vera upp á aðra komnir. Sýndu því skilning og umburðarlyndi. Hlustaðu ævinlega vel á það sem sjúklingurinn segir og ekki skrifa allar kvartanir á almenna vanlíðan. Kvörtunin á rétt á sér og stundum þarf aðeins að laga eitthvert smáatriði til að viðkomandi líði mun betur. Sýndu hlýju og þolinmæði.

Mundu að aðstandendur eiga oft bágt líka. Þeir eru undir miklu álagi og þurfa ekki síður stuðning, skilning og öxl til að gráta á. Það getur gert kraftaverk að fá frí frá erfiðleikunum þótt ekki sé nema örstutta stund. Bjóddu aðstandendum í dekur eða að þú getir leyst þá af svo þeir geti notið þess að gera eitthvað sem þeir hafa gaman af áhyggjulausir.

Ef fólk á gæludýr getur munað miklu að einhver bjóðist til að hugsa um það, fara í hesthúsið, ganga með hundinn eða koma og sinna kettinum. Það gæti létt miklum áhyggjum af fólki að vita af loðnum vini sínum í góðum höndum.

Eru aflögufær?

Langvarandi veikindi eru dýr. Þeim fylgir tekjutap, dýrar meðferðir og lyf. Ef þú ert aflögufær getur þú virkilega létt vini þínum lífið með því að styðja hann á þann hátt.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Sex sekúndur sem geta breytt sambandinu

Höfundur / Sara Dögg Eiríksdóttir, félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur hjá Samskiptastöðinni.Gefðu ást og umhyggju á aðventu.Við könnumst...

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -