Ævi og örlög stórkvenna sögunnar

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Konur voru lengi nánast ósýnilegar í mannkynssögunni. Þær þurftu að hafa drýgt mikil afrek eða andstyggilega glæpi til að komast á blað. Örfáar hetjur stóðu upp úr og voru mörgum fyrirmynd og innblástur. Nú vill svo ánægjulega til að sjónvarpsframleiðendur sjá sér hag í því að rifja upp og gera skil ævi og örlögum nokkurra stórkvenna sögunnar.

 

Það er stórskemmtilegt að sjá hvernig hægt er að endurskapa fyrri tíma í sjónvarpi og kvikmyndum. Búningar, útlit, aðbúnaður og umhverfi fólks er iðulega endurskapað í smáatriðum. Þótt vissulega sé ekki hægt að skapa trúverðugar samræður, einfaldlega vegna þess að tungutak hefur breyst mjög mikið, er engu að síður hægt að bregða upp mynd af lífi fólks fyrr á tímum sem er ekki endilega mjög fjarri lagi.

Nokkrar stórkostlegar nýjar þáttaraðir um konur í sögunni hafa nú ratað á skjáinn og eiga það sameiginlegt að vera mjög vel unnar. Það er þess virði að kíkja á þessa.

Hin óttalausa

Þættirnir um Gentleman Jack eða hina óttalausu, samkynhneigðu Anne Lister voru sýndir á Stöð 2 fyrir ekki svo löngu. Hafi einhverjir misst af þeim hvetjum við þá eindregið til að finna leið til að horfa. Suranne Jones leikur aðalhlutverkið og dregur upp sannfærandi og flotta mynd af hugrakkri, greindri konu sem er langt á undan sínum samtíma.

Keisaraynjan óárennilega

Hin frábæra Helen Mirren leikur Katrínu miklu í samnefndum þáttum. Það er óumdeilt að kona hafi þurft að hafa sterkan persónuleika til að ná að halda völdum í Rússlandi á árunum frá 1762 til 1796. Valdabaráttan var óvægin og grimmdin mikil. Sjálf náði Katrín völdum með því að taka þátt í samsæri gegn eiginmanni sínum og steypa honum af stóli. Hún var viljasterk, sjálfstæð og hafði litlar hömlur í kynlífi. Sumir vilja raunar meina að stjórnkænsku hennar séu ekki gerð næg skil og skapsveiflurnar ýkjukenndar. Engu að síður eru þættirnir vel þess virði að kíkja á þá.

Lítil en kraftmikil

Þættirnir um Viktoríu Englandsdrottningu hafa verið sýndir á RÚV og varpa nýju ljósi á þennan þjóðhöfðingja sem ríkt hefur næstlengst yfir Bretlandi. Hún var lítil og fíngerð en handritshöfundar sýna að hún var sterk, ákveðin og vel meðvituð um völd sín. Stundum hefur hún verið sýnd í hálfhlægilegu ljósi og gefið til kynna að eiginmaður hennar hafi stjórnað bak við tjöldin. Ef marka má handrit þáttanna er það alls ekki raunin og ef menn minnast þess að hún ríkti í sextíu og þrjú ár með Albert við hlið sér í tuttugu og fjögur verður nokkuð augljóst að hún hefur skapað sinn stjórnarstíl sjálf.

Krúnan sjálf

Þá er komið að konunni sem ríkt hefur lengst allra þjóðhöfðingja. Elizabeth II er merkileg kona sem hefur gengið í gegnum miklar og margvíslegar breytingar í stjórnartíð sinni. Þrátt fyrir að ýmislegt hafi komið upp á hefur henni tekist að halda vinsældum meðal þegna sinna og það er afrek út af fyrir sig. Elizabeth er einnig þekkt fyrir að hafa átt farsælt samstarf við ótalmarga forsætisráðherra sem komið hafa og farið í stjórnartíð hennar. Handritin að þessum þáttum eru sérlega vel skrifuð og það tekst vel að gæða hana lífi og gefa innsýn í persónuleika þessarar mögnuðu konu.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira