Áhugaverðustu pör bókmenntanna

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Ástin í öllum sínum margbreytilegu myndum er vinsælt umfjöllunarefni rithöfunda – og kvikmyndagerðarmanna.

Stundum verður farsæll endir og parið sameinast í enda sögunnar en þess á milli skilja ill örlög elskendurna. Sorgin nístir lesandann þegar þannig fer og hann reynir að skálda í eyðurnar nýja atburðarás, framhald þar sem þetta ástfangna fólk nær að leysa málin. Rifjum upp nokkur slík pör og svo skemmtilega vill til að þau eru einnig vinsælt viðfangsefni kvikmyndagerðarmanna.

Allt frá því Ron og Hermione hittast fyrst er togstreita á milli þeirra.

Peeta og Katniss –  Hungurleikarnir

Katniss Everdeen (sjá mynd að ofan) stendur frammi fyrir því að þurfa að velja á milli tveggja jafngóðra manna. Hún kýs á endanum Peeta, rólega, trausta manninn sem hefur enga ánægju af bardögum og metorðaklifri. Hann, líkt og hún, er brenndur af þátttökunni í Hungurleikunum, sýndarveruleika þar sem unglingar úr öllum hverfum Panem eru neydd til að berjast til dauða. Lífsvilji beggja er sterkur en heiðarleiki þeirra og manngæska verður hins vegar hinum illa Snow forseta að falli. Gale Hawthorne er æskuvinur Katniss og veiðifélagi og lengi veit hún ekki hvorn þessara efnispilta hún á að velja. Úrslitin í ástum hennar ráðast í stríðinu þegar Prim, systir hennar, deyr og bæði hún og Gale skynja að návist hans muni ávallt vekja slæmar minningar hjá Katniss.

Ron og Hermione – Harry Potter

Allt frá því Ron og Hermione hittast fyrst er togstreita á milli þeirra. Hún reynir að bæta hann, leiðbeina honum og viðleitni hennar fer í taugarnar á honum. Þessi týpíska togstreita milli tveggja einstaklinga sem dragast hvor að öðrum en vita ekki alveg hvernig þeir eiga að bregðast við tilfinningum sínum. Þau eru gerólík en er ekki sagt að andstæður laðist hver að annarri? Ron dáist að þrautseigju Hermione og gáfum. Hún á hinn bóginn er heilluð af ástríðu hans og hvatvísi. Að auki eru þau svo unglingar í síðustu bókunum og þá er ekki von á góðu. Óöryggi, tilfinningasveiflur, ótti við höfnun og lítil þekking á eigin tilfinningalífi bætist ofan á allt annað og lengi vel eru lesendur sannfærðir um að þau muni aldrei ná saman. En sameiginlegur óvinur er oft besta sameiningarverkfæri sem hugsast getur og þegar kemur að því að sigra hinn illa Voldemort standa þau saman eins og einn maður og smella saman í ofanálag.

Rómeó og Júlía

Sennilega eru ógæfusömustu elskendur allra tíma einnig þeir þekktustu. Rómeó og Júlía eru svo óheppin að það virðist allt hjálpast að til að eins illa fari fyrir þeim og mögulegt. Þótt feður þeirra falli í faðma yfir líkum barna sinna og ákveði að sættast er það engan veginn nóg til að breiða yfir raunaleg örlög unglinganna.

Shakespeare vissi að líklega kryddar ekkert unglingaástir jafnvel og forboð foreldranna svo hatrið milli Montague- og Capulet-fjölskyldnanna var einmitt olían sem þurfti til að kynda eld ástar hins, fram að því, fjöllynda Rómeós. Júlía aftur er ímynd sakleysisins og kannski gat þetta ekki farið öðruvísi því ef þau hefðu nú lifað og náð saman er ekki líklegt að Rómeó hefði þreyst á sakleysi hennar og reynsluleysi og snúið sér aftur að innantómu dufli og djammi. En hin undurfallegu orð hans þegar hann horfir á Júlíu eru með því rómantískasta sem skrifað hefur verið: „Hún leggur vangann hægt að hendi sér! Ó, gæti ég verið glófi sem hún ber og snert við þessum vanga!“

Hroki og hleypidómar eftir Jane Austin virðist höfða til allra á öllum tímum.

Elizabeth Bennett og Mr. Darcy – Hroki og hleypidómar

Þessi dásamlega ástarsaga Jane Austin virðist höfða til allra á öllum tímum. Nýir lesendur uppgötva hana á hverjum degi sennilega vegna þess að hún hefur allt sem við sækjumst eftir, húmor, hlýju, skemmtilegar persónur og góðan endi. Hin sjálfstæða, orðheppna og greinda Elizabeth Bennett á bágt með að fyrirgefa hinum hrokafulla Fitzwilliam Darcy gagnrýni hans á fjölskyldu hennar. Hún þarf hins vegar áður en yfir lýkur að kyngja eigin fordómum en hann að láta af drambseminni. Þau ná saman eftir ýmsar raunir en bókin hefur eina af frábærustu byrjunarlínum sem skrifaðar hafa verið: „Það er kunnara en frá þurfi að segja að piparsvein í góðum efnum hlýtur að vanta eiginkonu.“

Jane Eyre Mr. Rochester – Jane Eyre

Charlotte Brontë skrifaði skáldsögu um elskendur sem gengu í gegnum miklar raunir. Jane Eyre giftist Rochester sínum þó í lok bókarinnar. Þessi unga sterka kona er alin upp við harðræði og þarf að þola miklar píslir í heimvistarskólanum þar sem hún menntaðist. Hún útskrifast, gerist barnfóstra og verður ástfangin af vinnuveitanda sínum og föður skjólstæðings síns. Hann reynist geyma hræðilegt leyndarmál í turnherbergi í höll sinni, geðsjúka eiginkonu sína. Jane leggur á flótta eftir að allt kemst upp en snýr aftur og finnur ástmög sinn. Hann hefur þá misst allt, þar á meðal eiginkonuna ógæfusömu og sjónina, í eldsvoða. Þau ná saman og hann fær aftur sjón á öðru auga. Lokaorð bókarinnar lýsa einstakri hjónabandssælu þeirra og samlyndi.

Texti / Steingerður Steinarsdóttir

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira