2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Aldrei að gefast upp í hamingjuleitinni

  Sóley Dröfn Davíðsdóttir hjálpar fólki að takast á við félagskvíða.

  Maður er manns gaman segir í Hávamálum og víst er að öll sækjum við næringu í samskipti við skemmtilegt fólk. Fyrir flesta er vart til neitt ánægjulegra en að fara út hitta vini, kunningja og ókunnuga. Þeir eru þó til sem finna fyrir lamandi kvíða í stað tilhlökkunar en þeim helgaði Sóley Dröfn Davíðsdóttir bókina Náðu tökum á félagskvíða.

  „Það er ótrúlega hamlandi að vera kvíðinn meðal fólks og hafa stöðugar áhyggjur af áliti annarra þar sem við eigum nánast allt okkar undir öðru fólki,“ segir Sóley.

  Bókin er ákaflega aðgengileg og vel skrifuð sjálfshjálparbók. Þarna er vel farið yfir þær hugsanavillur og þann vítahring væntinga sem hugurinn fer í þegar óttinn verður skynseminni yfirsterkari en hver var kveikjan að því að þú ákvaðst að skrifa þessa bók? „Það eru nokkrar ástæður fyrir því,“ segir Sóley Dröfn. „Feimni og félagskvíði eru vandamál sem mjög margir glíma við og geta fylgt fólki svo árum og áratugum skiptir. Það er ótrúlega hamlandi að vera kvíðinn meðal fólks og hafa stöðugar áhyggjur af áliti annarra þar sem við eigum nánast allt okkar undir öðru fólki.

  Einföldustu hlutir geta orðið mjög erfiðir eins og að segja skoðun sína, tjá sig í hóp, tala við yfirmann, halda kynningu í vinnunni eða bara ávarpa ókunnuga. Þegar fólk er komið með félagsfælni sem hefur verið til staðar í nokkur ár er vandinn ólíklegur til að lagast af sjálfu sér. Fólk getur einangrast félagslega, misst af tækifærum í lífinu, flosnað upp úr skóla eða vinnu og orðið þunglynt og farið að misnota áfengi eða aðra vímugjafa. Eðli vandans samkvæmt á fólk sérlega erfitt með að leita sér aðstoðar sem er mikil synd því meðferðin ber svo góðan árangur, t.d. ná um 80% fólks með félagsfælni árangri í Kvíðameðferðarstöðinni. Svo eiga þess ekki allir kost að leita til sálfræðings sökum búsetu eða fjárhags. Þá er sérlega gott að geta tileinkað sér meðferðina í bókaformi en bókin kostar þriðjung sálfræðiviðtals. Bókin er byggð á hugrænni atferlismeðferð þar sem rík áhersla er lögð á að fræða fólk og kenna leiðir til sjálfshjálpar. Þetta má allt tileinka sér með lestri bókar og ætti bókin að vera á við nokkur sálfræðiviðtöl.“

  AUGLÝSING


  Hvernig takast kvíðnir á við makaleit?

  Í henni er vissulega mjög vel farið yfir allar hliðar félagskvíða og hvernig hann getur litað líf einstaklinga. Einnig eru gefin góð ráð til að vinna gegn honum. Er bókin ein og sér nægjanleg til að fólk geti sigrast á vandanum? „Ef fólk vinnur sig samviskusamlega í gegnum bókina og fer vandlega eftir því sem ráðlagt er ættu margir að geta náð tökum á félagskvíðanum. Einnig má nota bókina samhliða meðferð hjá sálfræðingi eða öðrum fagaðila eða fá ættingja eða vin í lið með sér. Sumir geta þurft faglega aðstoð til að ná tökum á vandanum en ættu alltaf að læra helling af svona bók.“

  „Það er … betra að leyfa kvíðanum að vera þegar hann kemur. Það má líkja þessu við veislu sem þú sækir og rekst á gest sem þú kannt illa við. Þú getur reynt að ýta gestinum út úr veislunni sem trúlega eyðileggur kvöldið fyrir þér og öðrum. Þú getur einnig leyft honum að vera og haldið þínu striki, rætt við þá sem þú hefur áhuga á að tala við.“

  Það kemur fram að sumir forðast jafnvel að nálgast aðra og kjósa að búa einir fremur en að leita að maka. Hér er gefið það ráð að kanna vel eftir hverju maður leitar hjá makanum, setja mörk, þekkja sjálfan sig og fara á sem flest stefnumót. Einhverjum kann að finnast þetta allt óyfirstíganlegt átt þú svar fyrir þá? „Í bókinni er sérstakur kafli um hvernig fólk geti unnið markvisst að því að eignast maka eða vini því þeir sem eru feimnir og óframfærnir geta átt erfitt með þetta,“ segir Sóley Dröfn. „Ef félagsfælnin er mikið að há fólki getur það þó þurft að vinna svolítið í henni áður en það tekst á við makaleitina, eins og kennt er í bókinni. Þegar félagskvíðinn er orðinn aðeins minni er um að gera að vinda sér í hana því fólk á aldrei að gefast upp á því að ná því fram sem það vill fá út úr lífinu! Ef fólk vill eignast maka á það að ryðja hindrunum úr vegi og vinna markvisst að því að komast í gott samband. Í kaflanum um makaleit í bókinni má finna leiðbeiningar um hvernig bera megi sig að en svo einnig fá aðstoð fagmanna í þessum málum.“

  Kvíðinn sést minna en menn halda

  Kvíði veldur oft yfirþyrmandi tilfinningaviðbrögðum og tilfinningar lúta ekki neinum rökum. Hvað geta menn gert til að berjast gegn þessu lamandi tilfinningaflóði? „Það er alveg hárrétt að kvíða fylgja mjög sterkar tilfinningar og oftast reynir fólk að berjast gegn kvíðanum. Það hefur hins vegar öfug áhrif og því er mun betra að leyfa kvíðanum að vera þegar hann kemur. Það má líkja þessu við veislu sem þú sækir og rekst á gest sem þú kannt illa við. Þú getur reynt að ýta gestinum út úr veislunni sem trúlega eyðileggur kvöldið fyrir þér og öðrum. Þú getur einnig leyft honum að vera og haldið þínu striki, rætt við þá sem þú hefur áhuga á að tala við. Þeir sem hafa mikinn félagskvíða hafa mestar áhyggjur af því að aðrir sjái að þeir séu kvíðnir. Minnt skal þó á að kvíði sést mun minna á manni en maður heldur, þótt fólk eigi erfitt með að trúa því. Ef þú hefur áhyggjur af því að kvíðinn standi eins og skrifaður á þér skaltu reyna að ná þér á myndbandsupptöku þegar þú ert kvíðinn og skoða hvort þú kemur ekki mun betur fyrir en þú heldur. Þá þarf þó að reyna að horfa hlutlaust á upptökuna og skoða hvaða kvíðaeinkenni sjáist raunveruleg og hvort þau séu eins sterk og þú ímyndaðir þér.“

  Í bókinn er farið yfir þær hugsanavillur og þann vítahring væntinga sem hugurinn fer í þegar óttinn verður skynseminni yfirsterkari

  Nú eru skólarnir nýbyrjaðir og inn í þá streyma ung börn, sum hver að byrja í nýjum skóla eða nýjum bekk og eru umkringd ókunnugum andlitum. Þau þjást líka af félagskvíða og foreldrum finnst þeir stundum afllausir gagnvart vandanum. Hvað telur þú mikilvægast fyrir þá að hafa í huga? „Eitt það fyrsta fyrir foreldra barna sem glíma við félagskvíða er að þekkja einkenni vandans en í bókinni má finna kafla um félagskvíða barna. Félagskvíðin börn eru oft einangruð eða leika helst alltaf við sömu krakkana. Þau sýna mikil tilfinningaviðbrögð ef fara á í vissar aðstæður og reyna að komast hjá þeim, t.d. afmælum eða upplestri fyrir bekkinn. Þau geta hangið í foreldrum sínum í vissum aðstæðum eða tekið skapofsaköst. Þau mynda oft lítið augnsamband og eiga erfitt með að svara spurningum annarra og þora sjaldnast að segja hvað þau vilja og tjá sig við ókunnuga.

  Mikilvægt er að átta sig á því að öll forðun viðheldur vandanum. Þannig viðhelst félagskvíðinn ef barninu er leyft að komast hjá því að gera það sem vekur kvíða. Því er mikilvægt að hvetja barnið alltaf til að takast á við aðstæður frekar en að sleppa þeim, t.d. mæta í skólann og afmæli og halda fyrirlestra og slíkt. Helst að gera sem mest af því sem vekur kvíða. Gott er að spyrja barnið alltaf hvað það óttist að gerist ef það tekst á við aðstæðurnar og setja aðstæðurnar upp sem tilraun. Oft óttast börn að öðrum líki ekki við þau og muni hlæja eða gera lítið úr þeim. T.d. ef barnið óttast að börnin hlæi að því ef það spyr spurninga í tíma þá væri samið við barnið um að prófa þessa hugmynd, spyrja í tíma og fylgjast með viðbrögðum krakkanna. Þannig ætti barnið smám saman að læra að það sé óhætt að spyrja. Mikilvægt er að ganga úr skugga um að barnið sé ekki raunverulega lagt í einelti því þá þarf að vinna fyrst að því að stöðva eineltið. Almennt eiga foreldrar að reyna að styrkja „hugrekkishegðun“, t.d. hrósa barninu fyrir að hringja sjálft og panta pítsu og forðast að gera hluti fyrir barnið, eins og að tala fyrir það. Gott er að umbuna barninu fyrir öll skref í átt að markinu, t.d. með því að fá að gera eitthvað sem það hefur gaman af á eftir. Ef það er of erfitt fyrir barnið að takast á við aðstæður má gera það í litlum skrefum. Þá hvet ég fólk eindregið til að fá faglega aðstoð fyrir börnin ef þessi ráð duga ekki til því það er mikilvægt að taka á vandanum sem fyrst, svo hann fari ekki að vinda upp á sig og koma niður á lífi barnsins á margvíslegan hátt.“

  Vís maður sagði einhverju sinni að allir hefðu gott af því að sjá sig með augum annarra. Líklega óttumst við flest þá tilhugsun en staðreyndin er sú að fólk er oft mun jákvæðara og umburðarlyndara en við héldum. Það er góð tilfinning að efla sjálfstraust sitt og muna að þín skoðun eða hugmyndir annarra um þitt ágæti eru bara það, viðhorf einnar manneskju sem má breyta.

  Texti / Steingerður Steinarsdóttir
  Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

  Lestu meira

  Engar færslur fundust.

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is