2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Allir eiga rétt á því að stunda líkamsrækt“

  „Ný íþróttaföt geta verið góð hvatning til þess að mæta í ræktina,“ segir Katrín Þóra Sigurbjörnsdóttir, einkaþjálfari hjá Reebok Fitness.

  „Það þarf samt ekki að eyða tugum þúsunda í æfingaföt áður en maður byrjar að æfa. Allir eiga rétt á því að stunda líkamsrækt, hvernig sem þeir vilja vera klæddir. Það á enginn að dæma fólk vegna klæðaburðar heldur dást að því fyrir að mæta. Mikilvægast er að koma sér af stað. Þegar maður ver meiri tíma í ræktinni og sér árangur kemur hvatning til að kaupa föt sem auka þægindin á æfingunni. Ekki af því að þú hefur áhyggjur af því hvað öðrum finnst, heldur af því að þú vilt það.“

  Þægindin mikilvæg

  Það sem skiptir Katrínu Þóru mestu máli þegar hún kaupir sér íþróttaföt segir hún að séu þægindin og að henni líði vel í þeim. „Ég vil ekki þurfa að hugsa um íþróttafötin á meðan ég er á æfingu. Ef þau eru of víð geta þau til dæmis hindrað ákveðnar hreyfingar og flækst fyrir. Þegar ég máta buxur geng ég úr skugga um að strengurinn nái nógu hátt svo þær skríði ekki niður þegar hasarinn byrjar. Íþróttatoppar eiga að veita góðan stuðning en ekki vera svo þröngir að þeir séu eins og spennitreyja. Þegar ég kaupi boli vel ég frekar efni sem anda vel og stuðla að hraðri uppgufun svitans. Bómullarbolir eiga það til að verða þungir og blautir á æfingu.“

  „Það á enginn að dæma fólk vegna klæðaburðar heldur dást að því fyrir að mæta.“

  Hún bætir við að mikilvægt sé að íþróttafötin hefti ekki framkvæmdir hreyfinganna. Í hjólatímum sé til dæmis lykilatriði að buxnaskálmarnar flækist ekki í hjólinu. „Í danstímum getur verið gaman að vera í víðari fatnaði sem gerir hreyfingarnar stærri og í jóga er best að vera í léttum og teygjanlegum fatnaði.“

  AUGLÝSING


  Allir voru byrjendur einhvern tíma

  Katrín Þóra segir að skór séu í raun eini búnaðurinn sem er þarft að leggja hugsun í, áður en farið er af stað. „Mestu máli skiptir að kaupa skó sem henta æfingunum og veita viðeigandi stuðning. Skór sem henta viðkomandi ekki geta haft slæm áhrif á líkamsstöðu og líkamsbeitingu á æfingu og valdið alls konar vandamálum. Starfsfólk í verslunum er yfirleitt boðið og búið að aðstoða við val á skóm.“

  Það þarf að vanda valið þegar kemur að skóm í ræktina að sögn Katrínar.

  Að lokum biðjum við um góð ráð fyrir þá sem vilja koma sér af stað í átt að bættri heilsu. Það stendur ekki á svari hjá einkaþjálfaranum: „Ekki vera hrædd/ur við að stíga fyrsta skrefið. Allir voru byrjendur einhvern tíma, líka massaðasti gaurinn í salnum. Finndu þér hreyfingu sem þér finnst skemmtileg hvort sem það er dans, hlaup, lyftingar eða eitthvað annað. Mikilvægast er að stunda hreyfinguna sem þú getur hugsað þér að verði hluti af þínum lífsstíl til frambúðar.“

  Myndir / Hallur Karlsson

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is