• Orðrómur

Allir hafa styrkleika

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

„Kjarninn hjá mér er að vinna út frá styrkleikum þínum. Og hvernig við getum notað styrkleikana til að styrkja minni styrkleikana þína, ég tala nefnilega aldrei um galla. Við erum ekki gallaðar manneskjur, við eigum að vera alls konar, við erum margbreytileg og það sem gerir mannlífið svo fallegt er að við erum öll eins og við erum,“ segir Kristín Snorradóttir markþjálfi með meiru, sem rekur sitt eigið fyrirtæki, Fagvitund ehf.

Eftir að hafa langað að læra markþjálfun í meira en áratug tók Kristín loksins upp símann, skráði sig og sótti námsbækurnar og hóf námið daginn eftir. „Loksins þegar ég tók upp tólið var ekki aftur snúið. Markþjálfun er algjörlega tær snilld með öllu hinu sem ég hef lært, sem gerir mig að enn betri markþjálfa fyrir vikið af því ég get mætt svo breiðum hóp,“ segir Kristín.

„Þessi ástríða mín sem ég bý enn að hófst þegar ég kynntist fötluðu fólki og komst að því að fatlað fólk er einstaklingar.“

Vegferð Kristínar í að vinna með fólki hófst 1999 þegar hún fór að vinna á Skálatúnsheimilinu, eða eins og hún segir, réð sig í einhverja vinnu til að fá laun. Starfið átti þó eftir að hafa mikil áhrif á Kristínu og verða fyrsta skrefið í að koma henni á þann stað þar sem hún er í dag.

- Auglýsing -

„Þessi ástríða mín sem ég bý enn að hófst þegar ég kynntist fötluðu fólki og komst að því að fatlað fólk er einstaklingar. Ég var í alvörunni með fatlaða einstaklinga í kassa og taldi þá alla eins. Í framhaldinu lærði ég félagsliðann og síðan þroskaþjálfann og í því námi fékk ég hugljómun um að þroskaþjálfinn ætti erindi við ungmenni, sem leiðst hafa út í vímuefnaneyslu og áhættuhegðun sem og fjölskyldur þeirra. Í náminu þurfti ég svolítið að berjast fyrir þessari sýn minni, en var svo lánsöm að sumir kennara minna sáu hana líka,“ segir Kristín sem í lokaritgerð sinni skoðaði sjálfsmynd barna og unglinga með ADHD-röskun og tengdi hana við áhættuhegðun, þar með talið vímuefnaneyslu og skoðaði hvernig þroskaþjálfi ætti erindi við þennan hóp sem og til að leiðbeina öðrum fagstéttum varðandi nálgun. Eftir útskrift 2009 hélt hún áfram á sömu braut, fór að handleiða ungmenni og starfsfólk á vistheimili fyrir ungmenni sem er rekið af Barnaverndarstofu, vann í fjölda ára hjá Vímulausri æsku bæði með ungmennum og foreldrum og rak og stofnaði Fjölskylduhús þar sem unnið var með aðstandendur. „Heildræna vinnan gleymist oft, það er ekki nóg að laga unglinginn, það þarf að vinna með fjölskylduna líka.“

Kristín Snorradóttir
Mynd / Hákon Davíð Björnsson

„Ég er búin að prófa allar aðferðir sem ég kann og hef lært á eigin skinni nema þroskaþjálfann“

Kynntist dáleiðslu eftir áfallahrinu

- Auglýsing -

„Ég er búin að prófa allar aðferðir sem ég kann og hef lært á eigin skinni nema þroskaþjálfann,“Árið 2014 lenti ég í áfallahrinu, brann algjörlega út og ákvað að þiggja alla þá hjálp sem mér bauðst, fékk vefjagigtargreiningu og aðstoð frá Virk, þar sem ég kynntist dáleiðslu. Og ég segi án þess að blikna að það var sú nálgun sem kom mér aftur á réttan kjöl,“ segir Kristín, sem lærði dáleiðslu í kjölfarið og hefur unnið með hana síðan. „Ég er alfarið á móti því að lofa að dáleiðsla lækni fólk, ég er ekki læknir. Ég get hjálpað þér að slaka á, en ef þú þarft lækni þá ferðu til læknis, ef þú þarft sálfræðing þá ferðu til hans, enda stendur skýrt í siðareglum dáleiðara að við lofum ekki lækningu. Í því djúpslökunarástandi sem dáleiðsla er slakar líkaminn þannig á að það gerast ákveðnir töfrar og líkaminn getur gert svo ótrúlega margt sjálfur. Einnig er ég menntaður I AM YOGA NIDRA-kennari og það er ótrúlega magnað hvað svona djúpt hugleiðsluástand gerir fyrir líkama og huga. Hugsjón mín er að draga úr streitu og kulnun enda er ég búin að reyna hvorutveggja á eigin skinni. Og ég fann hvað djúpslökun gerði þá fyrir mig. Þeir sem koma til mín í dáleiðslu koma mikið í þessa djúpslökun og við erum að losa um streitu og byggja upp sjálfið, töluvert af vefjagigtarsjúklingum koma til að ná þessari djúpu slökun sem hefur líka dregið úr verkjum hjá mörgum. Ég er búin að prófa allar aðferðir sem ég kann og hef lært á eigin skinni nema þroskaþjálfann,“ segir Kristín og bætir við að Yoga Nidra hafi hjálpað sér í gegnum áfallið þegar maðurinn hennar greindist með krabbamein í fjórða  sinn.

„Ég fór að stunda Yoga Nidra reglubundið og það hjálpaði mér mjög mikið þegar maðurinn minn endurgreindist fyrir fjórum árum með fjórða stigs krabbamein. Hugleiðsla styrkir mann innan frá og maður nær að vera í núinu og tækla verkefnin betur. Það er ótrúlega magnað hvað það að vera núna auðveldar manni að tækla erfið verkefni í lífinu en við fáum öll alls konar verkefni yfir lífsleiðina. Maður er ekki bara að keyra á einhverjum streituforða sem er uppétinn.“

Kristín Snorradóttir
Mynd / Hákon Davíð Björnsson

„Ég er algjörlega á réttri hillu í lífinu, ég elska vinnuna mína og finnst ég alger forréttindahæna. Það er ekkert betra í allri veröldinni en að fá að taka þátt í því að fólk vaxi og ég tala algjörlega frá hjartanu“

- Auglýsing -

„Það er pláss fyrir alla hjá mér“

„Ég er algjörlega á réttri hillu í lífinu, ég elska vinnuna mína og finnst ég alger forréttindahæna. Það er ekkert betra í allri veröldinni en að fá að taka þátt í því að fólk vaxi og ég tala algjörlega frá hjartanu. Ef ég þyrfti ekki laun til að geta rekið mig, myndi ég gera þetta frítt, svo mikið elska ég vinnuna mína,“ segir Kristín með áherslu.

En hvað felur markþjálfun í sér? „Stutta svarið er að einstaklingur í markþjálfun er alltaf að vinna í því að fara inn á við og sækja sína styrkleika í samvinnu hans og markþjálfans. Mér er sama hvernig þú ert, hvaðan þú kemur, hvort þú ert með greiningu eða án, í stólnum hjá mér ertu alltaf fyrst og síðast manneskja,“ segir Kristín og segist ekki setja einstaklinga í nein box og kenna nemendum sínum á þroskaþjálfabraut Háskóla Íslands mikilvægt atriði. „Ég segi alltaf við þau: „þið eruð að fara út að vinna með fólki.“

Hún er eftir því sem hún best veit eini markþjálfinn hér á landi sem getur boðið upp á HAM- markþjálfun, þar sem hún er einnig með réttindanám í hugrænni atferlismeðferð. „Að vera þroskaþjálfi og læra markþjálfun líka er alveg einstakt kombó. Þegar ég lærði þroskaþjálfann þá var lífeðlisfræði skyldufag, þannig ég hef þekkingu á því sem gerist í líkamanum og heilanum þegar áföll eða raskanir eiga sér stað. Ég bý sem dæmi yfir þekkingu til að mæta einstaklingum sem eru með ADHD eða einhverfu. Það er gott fyrir mig að þekkja og vita líffræðilega og lífeðlisfræðilega hluti sem eru á bak við hverja einustu manneskju, en hjá mér er pláss fyrir alla, alveg óháð kynferði, getu, menntun og öðru. Þeir sem koma til mín í markþjálfun þurfa ekki að vera með skilgreint vandamál eða markmið. Ég er lífsþjálfi og það sem ég hef umfram að vera bara markþjálfi, er að ég hef aðra undirstöðuþekkingu þannig að ég get mætt stærri hóp,“ segir Kristín og bætir við að margir sem koma í markþjálfun taki einnig með NBI-hugsníðargreiningu, sem hjálpar fólki að sjá styrkleika sína. „Markþjálfi verður alltaf að hafa það í huga að það sé einstaklingnum gróði að vinna með honum. Þú þarft alltaf að vera meðvituð um að byggja upp sjálfsmynd einstaklings, en ekki brjóta hana niður. Öll markmið og öll vinna þarf að miða að getu hvers og eins, það má ekki vera of lítið markmið, þá þroskum við ekki fólk. Það má ekki vera of mikið, þá brjótum við sjálfið. Það verður að krefja einstaklinginn um nákvæmlega hans getu og örlítið umfram getu.“

„Ástríða mín hefur orðið heitari og sterkari og ég hef meiri trú á sjálfri mér og veit fyrir hvað ég stend. Ég veit ég er svakalega góð í mínu fagi.“

Hlutverk markþjálfa að vekja innri hvata

Kristín segir mikilvægt að einstaklingi sem ætlar í markþjálfun líki við markþjálfa sinn, enda sé ferlið samvinna beggja aðila. „Farsælast í markþjálfun er þegar þér líkar við markþjálfann og gerir markþjálfunarsamning sem miðar að því að þið ætlið að vinna ákveðna vinnu, skuldbinda ykkur í ákveðinn tíma, finna út úr því hvert þú ert að fara og hvernig þú kemst þangað. Mitt hlutverk sem markþjálfi er að spyrja þig spurninga á þann veg að þú farir að hugsa um hlutina og sjá nýjar leiðir eða nýtir gamlar leiðir sem hafa ekki nýst áður. Mitt hlutverk er ekki að ráðeggja þér, heldur vekja þig og þína innri hvata og visku. Markþjálfi leitast fyrst og síðast eftir því að hjálpa þér að finna þinn innri eld. Í 90% tilfella erum við að stefna á framtíðina og vinna áfram og þurfum ekki að fara til baka, en það kemur fyrir að við þurfum að skoða eitthvað í fortíð þinni til að komast áfram. Hvers þarfnastu til að fá þetta hugrekki til að framkvæma?“ segir Kristín og nefnir sem dæmi að sjálf fékk hún hugrekki til að opna eigið fyrirtæki. „Sem ég var búin að hugsa um í mörg ár. Ég vinn mikið með stjórnendur í leiðtogamarkþjálfun sem vilja verða betri leiðtogar. Ég leitast eftir að kveikja innra með þeim þennan leiðtogaeld, að þeir finni svörin við „hvernig leiðtogi vil ég vera og hvað þarf ég að gera til að komast þangað?“ Ég vinn fyrir félagsþjónustur, fyrirtæki og er að markþjálfa fyrir Virk starfsendurhæfingu. Einnig er ég með ýmis námskeið, sem miða að því að draga úr kulnunareinkennum og streitu sem og persónulegri og faglegri stefnumótun. Ég er svo lánsöm að vinna með nokkrum afburðaíþróttakonum sem stefna á EM og þar nýti ég saman markþjálfun og djúpslökun með aðferðum dáleiðslu, sem er hrikalega flott samsetning.

Ástríða mín hefur orðið heitari og sterkari og ég hef meiri trú á sjálfri mér og veit fyrir hvað ég stend. Ég veit ég er svakalega góð í mínu fagi.“

Allar upplýsingar um Kristínu og þjónustu hennar má finna á heimasíðu hennar og á Facebook.

Kynning úr blaði FKA og Vikunnar. 

Veistu meira um málið?

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -