2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Alltaf að spá í hvað sé best fyrir börnin og umhverfið“

  Fyrir rétt rúmu ári hittust frænkurnar og vinkonurnar Harpa Ragnarsdóttir og Þurý Hannesdóttir á kaffihúsi til að ræða hvernig þær gætu fundið sér áhugavert verkefni að vinna að saman. Báðar eru miklar hugsjónakonur og langaði að leggja sitt af mörkum til að stuðla að aukinni sjálfbærni og umhverfisvitund. Eftir að hafa lagst í mikla rannsóknarvinnu varð úr að þær hófu að flytja inn leikföng sem uppfyllti allar þeirra kröfur um virðingu fyrir náttúrunni og mannfólki.

   

  PlanToys varð til í Taílandi árið 1981. Einn af stofnendum þess er arkitektinn Vitool Viraponsavan. „Við erum fyrstar, eftir því sem við best vitum, til að kynna þessi leikföng á Íslandi,“ segir Þurý.

  „En fyrirtækið er vel þekkt um allan heim. Þetta eru viðarleikföng gerð úr viði gúmmítrjáa og unnin í verksmiðju sem er 100% sjálfbær. Í Trang og héraðinu þar í kring, sem Vitool ólst upp í, er gúmmírækt algeng og þegar búið er að tappa allri kvoðu af trjánum eru þau ónothæf til frekari vinnslu og áður voru þau bara brennd til að rýma fyrir nýjum. Hans draumur var að finna leið til að vinna eitthvað úr viðnum í stað þess að menga umhverfið með brennslunni. Úr varð að hann stofnaði verksmiðju og hóf að framleiða leikföng. Með árunum hefur þetta þróast og meðal annars má nefna að í dag er öllum afgangsviðarbútum hent í ofn sem býr til rafmagn fyrir verksmiðjuna og nærliggjandi sveitir og bæi. Allt er því nýtt og endurnýtt eins frekast er kostur og byggist hugmyndafræðin þeirra á sjálfbærni, þ.e. sjálfbærum efnivið, sjálfbærri framleiðslu og sjálfbærri hugsun.“

  Fyrirtækið byggir einnig á þeirri heimspeki að leikföng séu ekki eingöngu fyrir börn heldur gott tól til að skapa samstöðu og samhug í fjölskyldum en þar sé einmitt lagður grunnur að því að kenna börnum og foreldrum að bera virðingu fyrir umhverfinu.

  AUGLÝSING


  „Þetta eru fyrst og fremst þroskaleikföng og nú eru búnar til þarna um það bil 400 vörutegundir,“ segir Þurý. „Meðal annars vatnsleikföng en þetta er eina fyrirtækið, sem við vitum til, í heiminum til að bjóða upp á slík leikföng úr við. Hægt er að finna eitthvað fyrir alla aldurshópa og sum eru sniðin beinlínis til að skapa virkan leik og auka hreyfigetu meðan öðrum er ætlað að örva ímyndunaraflið eða efla andlegan þroska. Þau læra stöðugt eitthvað nýtt.“

  Allt sótt í nærumhverfið

  „Fyrirtækið er einnig sérstakt að því leyti hversu nátengt það er samfélaginu,“ segir Harpa. „Þeir kjósa að nýta það sem er allt í kring um þá.“

  „Nefna má að nánast allt er þarf til framleiðslunnar er sótt í innan við 30 km radíus frá verksmiðjuhúsunum. Kolefnisporið er þess vegna merkilega lítið. Þeir sækja bæði starfsfólk sitt og efnivið í nærumhverfið,“ bætir Þurý við.

  En hvað varð til þess að tvær konur uppi á Íslandi heilluðust af þessu fyrirtæki nánast hinum megin á hnettinum?

  „Þetta eru rosalega vinsæl leikföng,“ segir Harpa. „Þótt þau væru ekki hérna á Íslandi og við hefðum ekki heyrt um þau þegar við fórum af stað, komumst við fljótt á snoðir um að fólk sem hafði búið erlendis þekkti þau vel. Bæði þeir sem höfðu verið í Bandaríkjunum og annars staðar á Norðurlöndunum.“

  „Við viljum sjá mun meira af umhverfisvænum leikföngum á íslenskum heimilum,“ segir Harpa.

  „Í desember fyrir rétt rúmu ári sátum við á Kaffi Laugalæk og vorum að velta upp hugmyndum um hvað við gætum gert saman,“ heldur Þurý áfram. „Við erum systkinabörn og nánast aldar upp saman. Okkur hafði alltaf langað að gera eitthvað tengt börnum sem væri gott fyrir umhverfið líka. Í okkar rannsóknarvinnu rákumst við á að hér var lítið um eiturefnalaus leikföng.“

  „Okkur hafði alltaf langað að gera eitthvað tengt börnum sem væri gott fyrir umhverfið líka.“

  „Við veltum fyrir okkur hvar væri gat á markaðnum tengt börnum, hvort eitthvað vantaði,“ bætir Harpa við. „Og það var helst að finna í leikföngum. Hér var ekki mikið úrval af vörum sem sameinaði sjálfbærni, virðingu fyrir nærumhverfinu, vöruvöndun og fjölbreytni. En allt þetta fundum við í þessu fyrirtæki. Það tikkaði í öll boxin og uppfyllti öll skilyrðin sem við höfðum sett okkur.“

  Fór fram úr þeirra væntingum

  Þær eru eiginlega á því að jafnvel megi segja að farið hafi verið fram úr þeirra væntingum og vonum. Auk þess voru þær óskaplega ánægðar með að geta unnið saman og lagt um leið sitt að mörkum til auka umhverfisvitund fólks.

  „Eiturefnalaus leikföng hafa auðvitað alltaf verið til og margir meðvitaðir um að í málningu og ýmsu öðru í leikfangagerð leyndust hættuleg efni en þekkingin hefur verið að aukast og fleiri sem láta sig þetta varða,“ segir Harpa.

  „Við verðum að velja og vera vandlát á hvað við höfum í kringum börnin okkar. Einu höfum við líka tekið eftir. Víða eru barnaherbergi full af dóti og krakkarnir ná ekki að einbeita sér að neinu. Maður veit það sjálfur að þegar áreitið er mikið nær maður ekki að festa athyglina við neitt. Þau ná ekki að njóta sín og nýta það sem er fyrir framan þau. Þegar maður sest með lítinn barnahóp og einbeitir sér að einhverju einu sést fljótt hvað þau ná að fara djúpt inn í leikinn. Þá er ekkert annað sem truflar. Sonur minn er tíu ára og vaxinn upp úr mörgum af sínum leikföngum en þar er ekkert sem mér finnst eigulegt. Nánast allt var úr plasti, brotnaði og upplitaðist. Þessi viðarleikföng geta gengið frá einu barni til annars og til næstu kynslóðar.“

  Margir foreldrar kannast líka við að uppáhaldsleikfang úr æsku þeirra endar uppi á hillu, skreytir híbýlin og vekur góðar minningar í hvert sinn sem menn reka augun í það. Þá áttu flestir líka færri en vandaðri hluti. Harpa og Þurý eru báðar mæður, Harpa á einn dreng og Þurý þriggja ára stúlku auk þess sem annað barn er væntanlegt. „Þegar ég átti hana vöknuðu ýmsar pælingar í kringum þetta,“ segir Þurý. „Mér fannst ég ekki sjá mikið úrval.“

  Nýsköpun og endurnýting

  „Tréleikföng eru auðvitað ekki öll umhverfisvæn,“ segir Harpa. „Það þarf að skoða hvað er í þeim, litarefnin og hvernig þau eru unnin. Er til dæmis verið að höggva trén gagngert til að framleiða úr þeim leikföng. Það var þessi endurnýting og sjálfbærni sem skipti mig svo miklu þegar ég kynntist Plan Toys. Mér fannst svo skemmtilegt að sjá að trén, sem annars hefði verið eytt, verða að þessum fallegu leikföngum. Svo stendur að baki þeim teymi frumkvöðla, ákveðið í að skapa meira og betra. Vörurnar fara í gegnum alls konar ferli til að tryggja að þær standist allar gæðakröfur.“

  Kannski er ekki algengt að foreldrar velti svona nákvæmlega fyrir sér leik barna sinna. Eruð þið með menntun í uppeldis- eða kennslufræðum sem skýrir þennan áhuga ykkar? „Já, ég hef unnið á leikskóla lengi og er lærður leikskólaliði,“ segir Harpa. „Síðan fór ég í viðbótarnám sem  leikskólaliði og núna er ég að læra þroskaþjálfafræði við Háskóla Íslands. Eitt af því sem mér finnst svo flott við þessi leikföng er hve gagnleg þau eru í sérkennslu. Ég hef verið að nota þau og sé að þau örva ótrúlega vel margvíslega þroskaþætti. Mér finnst þess vegna mjög gaman að skoða þetta og auðvitað er maður alltaf að spá í hvað sé best fyrir börnin.“

  „Ég er viðskiptafræðimenntuð og sé meira um rekstrarhliðina,“ segir Þurý. „En aftur móti pæli ég mjög mikið í þessu út frá mömmuhlutverkinu.“

  Áhugaverð hugmyndafræði

  Nú er verkefnið komið af stað og farið að ganga. Hvernig sjáið þið framtíðina fyrir ykkur? „Við viljum sjá mun meira af umhverfisvænum leikföngum á íslenskum heimilum,“ segir Harpa. „Að fólk verði meðvitaðra um hvað það velur fyrir börnin sín.“

  „Já, eða bara almennt inn á heimilin,“ skýtur Þurý inn í. „Að fólk sé mínimalískara og hugi að sóuninni. Velja frekar færri og vandaðri leikföng. Markmiðið er líka að koma þessu á sem flesta staði á landinu þannig að þetta verði aðgengilegt fleirum. Við dreifum vörunum í verslanir í Reykjavík, á Ísafirði og Selfossi en komumst vonandi víðar að.“

  „Móttökurnar hafa verið góðar og það er eftirspurn,“ segir Harpa. „Við gætum ekki verið ánægðari með það. Stofnandi fyrirtækisins, Vitool, rekur að auki skóla sem nær yfir öll skólastig frá forskóla og upp í háskóla. Hann vinnur út frá uppeldis- og kennslufræði sem snýst um að börnin noti og þroski sína hæfileika. Þeim er ekki skipt upp eftir aldri þannig að þau eldri leiðbeina hinum yngri og miðla til þeirra. Þau eru í nánum tengslum við náttúruna og læra í gegnum leik og á annan hátt en það sem gengur og gerist í akademísku skólunum sem við þekkjum.

  Foreldrar eru líka mikið teknir með og þeir fara á námskeið áður en börnin fá skólavist og læra að framfylgja stefnunni heima við líka. Þau eru einnig sett í sömu aðstæður og börn þeirra verða í og þau þurfa að bregðast við þeim. Upplifa aftur hvernig það er að vera barn og takast á við hlutina frá sjónarhóli þeirra. Börn byrja ung í skóla úti í Taílandi og þar er almennt lögð mikil áhersla á bóknám. Þar er erfitt að komast að í háskóla en það er gaman að segja frá því að þrátt fyrir þessar óhefðbundnu aðferðir hafa nemendur úr skóla hans átt greiðan aðgang að háskólum. Þetta er mjög stórt skref að stíga.“

  Börnunum mætt af skilningi

  „Þeim er kennt að skilja hegðun barnanna,“ bætir Þurý við. „Börn, sérstaklega þau yngri, fimm til sex ára, bregðast við út frá tilfinningum og það verður að mæta þeim þar. Taka tillit til tilfinninga þeirra og virða ímyndunarafl þeirra. Mér finnst þetta mögnuð hugmyndafræði og held að allir foreldrar hefðu gott af því að sækja svona námskeið. Já, í okkar huga er Vitool frumkvöðull, fyrirmynd og stórkostlegur maður. Fyrirtækið var stofnað 1981 og er því orðið 38 ára gamalt, rótgróið og reynslumikið á sínu sviði. Eins og hann sagði við okkur, þá voru ekki einu sinni til orð yfir það sem hann var að gera þegar hann byrjaði. Sjálfbærni var ekki þekkt hugtak og orð sem fáir tóku sér í munn.“

  „Börn, sérstaklega þau yngri, fimm til sex ára, bregðast við út frá tilfinningum og það verður að mæta þeim þar. Taka tillit til tilfinninga þeirra og virða ímyndunarafl þeirra.“

  „Vitool hefur komið til Íslands og elskar landið. Því miður vorum við ekki búnar að kynnast honum þegar hann kom en hann er enn á ferð og flugi um allan heim til að kynna hugmyndafræði sína og fylgja vörunum eftir. Hann er eldri maður og við höfum hitt hann bæði í París og Þýskalandi. Hann vill vera hluti af þessu og taka þátt. Þetta er hans ástríða og allir dreifingaraðilar Plan Toys um allan heim og starfsmenn hans í Taílandi eru eins og ein stór fjölskylda. Við vorum boðnar velkomnar í fjölskylduna og kynntar fyrir öllum þegar við byrjuðum. Okkur finnst við óskaplega heppnar að hafa kynnst þessu fólki,“ segir Harpa og það verða lokaorð þeirra að þessu sinni en augljóst að ástríða þeirra fyrir leikföngunum og frumkvöðlaeðli er ekki síðra en hjá skapara þeirra Vitool.

  Mynd / Hákon Davíð Björnsson

   

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is