2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Alvotech getur hafið lyfjaframleiðslu

  Lyfjafyrirtækið Alvotech hefur fengið gæðavottun og framleiðsluleyfi fyrir hátæknisetur fyrirtækisins á Íslandi. Á aðeins fimm árum hefur Alvotech vaxið í að verða stærsta líftæknifyrirtæki landsins með yfir 200 vísindamenn í vinnu sem vinna að þróun og framleiðslu líftæknilyfja sem eru mikilvæg til meðhöndlunar á ýmsum algengum og erfiðum sjúkdómum eins og gigt og krabbameini.

  Framleiðsluleyfi Alvotech er veitt af Lyfjastofnun Íslands sem vann að úttekt á starfsemi fyrirtækisins í samstarfi við írsk lyfjayfirvöld á vormánuðum og nú liggur fyrir formlegt framleiðsluleyfi fyrirtækisins.

  Róbert Wessman stofnandi Alvotech segir það ánægjulegt að geta nú hafið framleiðslu líftæknilyfja og fljótlega hefjist klínískar lyfjarannsóknir á þeim lyfjum sem koma á markað á næstu árum.

  Uppbygging Alvotech hefur verið farsæl og framleiðsluleyfi Lyfjastofnunar er mikilvægur áfangi fyrir fyrirtækið sem getur nú haldið áfram undirbúningi að sölu og markaðssetningu líftæknilyfja um allan heim. Þróun og klínískar rannsóknir fyrir líftæknilyf er bæði flókið og tímafrekt ferli en það er gleðiefni að okkur hafi tekist að halda tímaáætlun sem er mikilvæg,

  segir Róbert í tilkynningu frá fyrirtækinu. Alvotech getur framleitt stærstu líftæknilyf heims – formlegri gæðaúttekt lokið og fyrirtækið hefur nú fengið formlegt framleiðsluleyfi. Alvotech hefur sex líftæknilyf í þróun sem seljast nú fyrir um 55 milljarða bandaríkjadala á ári á heimsvísu. Alvotech hyggst vera í hópi fyrstu fyrirtækja á markað með umrædd lyf.

  AUGLÝSING


  Gangi fyriráætlanir Alvotech eftir verða tekjur af starfsemi fyrirtækisins umtalsverðar og samkvæmt heimildum Mannlífs vel á annað hundrað milljarðar á ári þegar öll lyf fyrirtækisins eru komin á markað.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is