2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Áminning um þakklæti

Leiðari úr 26. tölublaði Vikunnar.

Lífið er núna. Setning sem maður heyrir svo oft og veit að það er hverju orði sannara að lífið er núna. Sumum finnst þetta klisja. Aðrir hafa hins vegar fengið að reyna það á eigin skinni að þráðurinn á milli lífs og dauða er viðkvæmur og getur slitnað á einu augabragði. Við fáum bara eitt tækifæri til að lifa þessu lífi og það er vissara að fara vel með það.

Anna Björk Eðvaldsdóttir varð snögglega veik dag einn í september árið 2002. Veikindin versnuðu hratt og eftir að eiginmaður hennar hafði hringt á sjúkrabíl var hún flutt á sjúkrahús þar sem hún var svæfð, og haldið sofandi í tíu daga, vegna þess hversu óbærilegar kvalirnar voru. Af ástæðum sem læknunum voru huldar. Þeir vissu að það væri einhvers konar sýking í gangi en hvernig sýking og hvað hægt væri að gera var þeim hulin ráðgáta. Anna var komin með punktablæðingar um allan líkamann, líffærin flest hætt að starfa og öll lífsmörk að hverfa. Eiginmaður hennar var kallaður á fund með læknunum og honum tjáð að það væri góður möguleiki á að kona hans væri að deyja.

Hún lýsir því í forsíðuviðtali við Vikuna hvernig henni fannst hún sjá sterka og bjarta liti þar sem henni var haldið sofandi og það væri eins og einhver segði henni að koma en hún hafi þá heyrt að það væri ekki tímabært, hún ætti að fara til baka. Hún segist handviss um að hún hafi verið við það að kveðja þessa jarðvist en verið kölluð til baka. Og hún hafi vaknað við gjörbreyttan veruleika. Við tók langt og strangt bataferli þar sem hún þurfti að læra allt upp á nýtt, en Anna Björk var ákveðin í að ná heilsu á ný. Uppgjöf var ekki í boði.

AUGLÝSING


Í dag gerir Anna Björk allt sem henni þykir skemmtilegt, ögrandi og gefandi. Hún lætur óttann ekki stoppa sig og ef henni finnst hún stöðnuð á einhvern hátt reynir hún að fara út fyrir rammann og ýta aðeins á sjálfa sig.

Það er ágætt að vera minntur á það hvað maður er heppinn að geta gert alla þessa hluti sem manni finnst svo sjálfsagt að geta gert. Hversdagslega hluti eins og að bursta tennurnar, ryksuga og knúsa þá sem manni þykir vænt um. Það er líka gott að vera minntur á þakklætið. Við höfum svo margt sem við getum þakkað fyrir. Kannski er líf okkar þessa stundina ekki akkúrat eins og við myndum kjósa að hafa það, en við höfum tækifæri til að breyta því. Og við fengum að vakna í morgun og fara á fætur. Það voru ekki allir svo heppnir.

Þessi fallegu orð úr texta Braga Valdimars Skúlasonar við lag hans Líttu sérhvert sólarlag lýsa þessu vel:

En þó að augnablikið aldrei fylli stund
skaltu eiga við það mikilvægan fund
því að tár sem þerrað burt
aldrei nær að græða grund.

Líttu sérhvert sólarlag,
sem þitt hinsta væri það.
Því morgni eftir orðinn dag
enginn gengur vísum að.

Þú veist að tímans köldu fjötra enginn flýr
enginn frá hans löngu glímu aftur snýr.
Því skaltu fanga þessa stund
því fegurðin í henni býr.

Sjá einnig: Stutt á milli lífs og dauða

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is