2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Anna í Grænuhlíð allsendis ólík sjálfri sér

  Þáttaröðin Anne with an E er lauslega byggð á bókum Lucy Maud Montgomery um Önnu í Grænuhlíð. Það er alltaf umdeilt þegar svo vinsælar og þekktar bækur er teknar og breytt í kvikmynd eða sjónvarpsþáttaraðir. Sumum finnst söguþræðinum misþyrmt og persónurnar eyðilagðar meðan aðrir fagna því að unnið sé með þemun og nýttar sniðugar fléttur.

  Þetta eru ekki fyrstu sjónvarpsþættirnir sem gerðir eru eftir bókunum um Önnu en árið 1985 gerði Kevin Sullivan slíka þætti og þeir röktu söguþráðinn nokkuð nákvæmlega. Þetta varð til að endurvekja áhuga fólks á bókunum sem komu fyrst út árið 1908 og þær fóru að seljast aftur. Hann tók einnig alla þættina upp á Prince Edwards-eyju og leyfði umhverfinu þar að njóta sín til fulls, enda var náttúrufegurðin þar Önnu stöðug uppspretta skáldlegrar ánægju. Megan Follows lék Önnu, Richard Farnsworth lék Matthew Cuthbert og Colleen Dewhurst Marillu systur hans.

  Í nýju þáttunum eru Geraldine James og R.H. Thomson í sömu hlutverkum. Önnu leikur hins vegar nýliði, Amybeth McNully. Hún var aðeins þrettán ára þegar byrjað var að taka upp þættina en í þeim er Anna á þeim aldri þegar hún kemur í Grænuhlíð en í bókunum var hún ellefu ára. Hvorki bækurnar né þættir Kevin Sullivans dvelja mikið við hversu erfitt var að vera munaðarleysingi á síðari hluti nítjándu aldar. Í Anne with an E er áhorfendum hins vegar reglulega gefin innsýn í erfitt líf Önnu áður en Cuthbert-systkinin taka hana að sér. Vissulega er sagt frá því í bókunum að Anna hafi verið í vist á barnmörgu heimili og það skýrir hvers vegna hún veit ýmislegt um börn og nær að bjarga systur bestu vinkonu sinnar Díönu en það verður til þess að móðir Díönu fyrirgefur henni að hafa gefið dóttur sinni þræláfengt vín í stað ávaxtasafa.

  Ofvirk með athyglisbrest?

  Þættirnir eru afburðavel leiknir og fyrsta serían áhrifamikil en þetta er ekki að öllu leyti hin elskulega líflega Anna í Grænahlíð. Þessi stúlka mætir fordómum og brotnar. Í stað þess að töfra flesta krakkana með lifandi ímyndunarafli, gáfum og dugnaði við námið er hún hvatvís og stundum hugsunarlaus gagnvart líðan annarra. Húmorinn sem var svo áberandi í bókunum er einnig víðs fjarri og afar fáar senur eru hlægilegar. En oft snerta þær áhorfandann engu að síður. Anna okkar sem lásum um hana í æsku var allt önnur.

  AUGLÝSING


  Anna í Grænuhlíð var bókaormur, sögusmiður og alltof dreymin til að hægt væri að treysta henni til að vakta karamellu á eldavélarhellu eða kökur í ofni. Þessi fyrirrennari Línu Langsokks hefur örugglega verið ofvirk með athyglisbrest og jafnmikið á skjön við samfélag sitt og sænska ofurstelpan. Í íhaldssömu, trúuðu samfélagi Prince Edwards-eyju, stingur hún jafnmikið í stúf og Lína í smáborgaralegu úthverfi í Svíþjóð. En líkt og slík börn eru oft, er hún skapandi. Anna hafði líka einhvern óskiljanlegan styrk og sjálfsþekkingu sem gerði henni kleift að brjóta krítartöfluna sína á hausnum á Gilbert Blythe þegar hann stríddi henni á rauða hárinu og hún var stolt, hlý, tillitssöm og góð við aðra. Þrátt fyrir að hún hafi verið ákaflega óörugg með sig vegna útlitsins, sannfærð um að hún væri ljót með þetta rauða hár, freknur og horuðu útlimi. Hvatvísin leiddi hana oft í vandræði en það kom ævinlega verst niður á henni sjálfri. Í þessum þáttum særir hún aðra iðulega óafvitandi.

   „Þessi fyrirrennari Línu Langsokks hefur örugglega verið ofvirk með athyglisbrest og jafnmikið á skjön við samfélag sitt og sænska ofurstelpan.“

  Ýmsir töfrar hennar eru víðs fjarri í nýju seríunni. Moira Walley-Beckett skrifar handritið en hún er höfundur hinna gríðarlega vinsælu Breaking Bad. Hún segist hafa viljað skoða betur þau þemu sem liggi undir niðri í textanum, eins og félagslega fordóma gagnvart munaðarleysingjum, hvernig skyldan batt fólk oft í fjötra umhverfis síns og uppruna og svo auðvitað skort kvenna á tækifærum og raunverulegu vali í lífinu. Og þetta eru vissulega undirliggjandi þemu í bókunum.

  Þau er auðvelt að lesa milli línanna. Marilla og Matthew hafa hvorugt menntast og aldrei farið burtu af eynni. Þau hafa heldur aldrei gifst og það er auðvelt að ímynda sér hvers vegna. Grænahlíð er afskekkt og þótt þau systkinin komist af eru þau ekki rík og þegar bankinn þeirra hrynur eru þau við það að missa allt.

  Femínismi í frumbernsku

  Kvenréttindabaráttan er á þeim tíma sem bækurnar gerast að fá sína fyrstu vængi. Anna er ekki efni í húsmóður, það vitum við frá fyrstu tíð. Hún þráir að læra og síðar gerir hún það. Bækurnar um hana urðu alls átta en Lucy Maud Montgomery skrifaði síðar bækur um ýmsa aðra íbúa Avonlea en sá bær er ekki til. Í þeim er Anna aukapersóna. Og þótt Moiru takist með sinni túlkun að opna augu okkar fyrir mörgu af því sem liggur undir yfirborðinu minna þessir þættir stundum meira á Jane Eyre en Önnu í Grænuhlíð, enda er stöðugt vitnað í þá bók.

  Það hefði vissulega verið góð hugmynd að kanna betur þessar dökku hliðar Önnu okkar en margt gengur of langt. Það er tilfinningin í bókunum sem vantar. Gott dæmi er senan þegar næla Marillu týnist. Hún heldur að Anna hafi stolið henni og í bókinni þarf Anna að sitja heima meðan systkinin fara í lautarferð hjá kirkjunni í þorpinu. Í þáttunum sendir Marilla hana til baka og þegar mistökin uppgötvast rýkur Matthew af stað á hesti sínum og lendir í alls konar hremmingum áður en hann finnur loks Önnu, á lestarstöð að þylja upp úr sér ljóð fyrir ferðafólk og taka fyrir það peninga.

   „Hún segist hafa viljað skoða betur þau þemu sem liggi undir niðri í textanum, eins félagslega fordóma gagnvart munaðarleysingjum, hvernig skyldan batt fólk oft í fjötra umhverfis síns og uppruna og svo auðvitað skort kvenna á tækifærum og raunverulegu vali í lífinu.“

  Þetta er eiginlega að gera úlfalda úr mýflugu vegna þess að við lestur bókanna skildi maður svo vel hversu brothætt traustið milli fósturbarnsins og fósturforeldrisins var. Sársauki Önnu er því skiljanlegur en einnig ósveigjanleiki Marillu. Vantraustið og ósanngirnin í að vera höfð fyrir rangri sök hlýtur að hafa sært Önnu djúpt. En Marilla er barn síns tíma og umhverfis og Anna er, þegar þetta á sér stað, enn aðkomukrakki sem hún veit lítið um. Dramað í senunni er nægt því Anna hafði hlakkað ósegjanlega til að fara í ferðina, hún hafði aldrei tekið þátt í neinu slíku og spennan mikil. Og hjá barni eins og Önnu eru vonbrigðin sár. Marilla þurfti einnig að læra sína lexíu, að gera ekki ráð fyrir hinu versta og treysta því sem Anna sagði því þótt hún væri sífellt tilbúin að spinna sögur var hún ekki lygin.

  Ekki alslæmt

  En þetta þýðir ekki að þáttaröðin sé leiðinleg, að hún hafi ekki sína kosti. Margt er mjög vel gert. Geraldine James leikur afburðavel jarðbundna bóndakonu sem þekkir ekki annað en vinnusemi, hagkvæmni, nýtni og skynsemi. Það er auðvelt að tárast þegar hún smátt og smátt opnar hjarta sitt gagnvart þessu skrýtna barni og ekki er R.H. Thomson síðri í hlutverk Matthews. Hin unga Amybeth McNully er oft frábær og ef ekki væru þessi tengsl við bækur Lucy Maud Montgomery væri hugsanlega hægt að njóta þess að horfa á þá án nokkurra fordóma. Þessi Anna er vissulega mun raunsærri. Nútímamenn eiga erfitt með að ímynda sér að munaðarleysingjar sem vaxa upp við vanrækslu og illa meðferð geti orðið að hjartahlýju, hluttekningarríku og heillandi fólki en samt eru Anna í Grænuhlíð, Harry Potter og Lína Langsokkur fullkomlega ásættanleg hvert á sínum stað. Nú er búið að framleiða þrjár þáttaraðir um Önnu með e-i og þær má sjá á Netflix.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is