Anna Þorvaldsdóttir tilnefnd til Grammy-verðlauna

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Tónskáldið Anna Þorvaldsdóttir er tilnefnd til Grammy-verðlauna í flokknum Best Engineered Album, Classical. Tilnefningarnanr voru kynntar í gær. Anna prýddi fosíðu Vikunnar í febrúar árið 2018. Í tilefni tilnefningarinnar er tilvalið að rifja upp viðtalið við þessa hæfileikaríku konu.

 

Forsíðuviðtalið úr 8. tölublaði Vikunnar 2018 má lesa í heild sinni hér fyrir neðan:

Trúir á einlægni

Anna Þorvaldsdóttir er með virtari tónskáldum okkar tíma. Hún hefur unnið til margra verðlauna, bæði innlendra og alþjóðlegra. Nýverið var hún útnefnd staðartónskáld Sinfóníuhljómsveitar Íslands, en það samstarf felur meðal annars í sér að Anna mun vinna að nýjum tónverkum fyrir hljómsveitina. Hún er bljúg gangvart velgengni sinni, hæversk, er köllun sinni og innri rödd trú og þakklát fyrir að geta og fá að starfa við tónlistina.

Anna lærði í Listaháskóla Íslands og lauk þaðan BA-gráðu í tónsmíðum. Hún lauk síðan doktorsgráðu í tónsmíðum frá University of California í San Diego. Verk Önnu eru reglulega flutt um allan heim af virtum hljómsveitum eins og New York Philharmonic og Los Angeles Philharmonic og segja má að ferill hennar sé einstakur fyrir samtímatónskáld. Í dag skiptir Anna tíma sínum á milli Íslands og Englands og hún gaf sér tíma á dögunum til að ræða um listina og lífið.

„Tónlistin mín snýst um áferð“

Anna ólst upp í Borgarnesi til 16 ára aldurs, þar sem fjöllin og sjórinn umleika bæinn. Hún var alin upp við tónlist, lærði á selló frá unglingsaldri og bjó til lög í huganum alveg frá því hún var lítil. Þar sat tónlistin og fyrir henni var það eðlilegt að vera sísemjandi.

„Það er mikilvægt að kynna nútímatónlist fyrir börnum og ungmennum með fram því að spila eldri tónlist.“

Anna ætlaði sér að verða sellóleikari og nam m.a. hjá Sigurði Halldórssyni og þá fóru hlutirnir að taka ákveðna stefnu. ,,Hjá Sigurði kynntist ég nútímatónlist frá sjónarhóli hljóðfæraleikarans og í kjölfarið kynntist ég nýlegri tónlist betur og betur og það opnaðist fyrir mér nýr heimur. Það er mikilvægt að kynna nútímatónlist fyrir börnum og ungmennum með fram því að spila eldri tónlist. Börn eru svo opin og forvitin og ekki með mótaðan smekk og því er svo mikilvægt að gefa þeim tækifæri til að kynnast sem flestu. Ég tel að ný og gömul tónlist styðji hvor aðra,“ segir Anna með áherslu. Fólk eigi ekki að vera hrætt við nútímatónlist, hún sé mjög fjölbreytt.

„Ég var alltaf frá því að ég man eftir mér að semja lög og lærði á ýmis hljóðfæri, en það var ást við fyrstu sýn þegar ég byrjaði að læra á selló, ég tók það mjög alvarlega og ætlaði að verða sellóleikari. Ég byrjaði síðan að skrifa tónlist þegar ég var um tvítugt en var mjög feimin við að sýna það sem ég var að gera. Tónsmíðarnar tóku síðan  narem hlj ÞAÐ SEM smátt og smátt yfir allan minn tíma og þá varð ekki aftur snúið.“

En hvernig er þá hennar eigin tónlist og hvaðan kemur hún?

Hún segir að tónlist sín komi innan frá, að hún láti sig dreyma um tónlistina og að það sé grunnurinn að tónsmíðunum.

„Ég tek mér alltaf mikinn tíma í að láta mig dreyma um tónlistina, finna hljóðin, hljómana, laglínur og alla áferð sem á heima í tónlistinni hverju sinni. Og ég ver miklum tíma í þetta því þarna verður tónlistin fyrst til. Síðan þróast hún og þegar ég er komin með skýra mynd af verkinu hverju sinni byrja ég að skrifa það út fyrir hljóðfærin. Það er auðvitað mjög tímafrekt að skrifa alla tónlistina niður í nótur og þar sem það getur verið erfitt að muna öll smáatriðin í marga mánuði, sérstaklega þegar maður er að vinna að nokkrum verkum á sama tíma, geri ég skissur eða teikningar sem hjálpa mér að muna tónlistina sem ég er að vinna að. Þegar ég horfi á þær get ég munað í smáatriðum hvað ég var að hugsa.

Mér finnst mjög áhugavert að vinna með alls konar áferð sem hljóðfærin geta framkallað, þau hafa svo margskonar mismunandi áferð og það finnst mér spennandi að vinna með, bæði á lagrænan hátt og einnig til dæmis með alls konar hljóð, lofthljóð eða höktandi hljóð. Þetta getur passað mjög vel með hefðbundnari tónum og hljómum. Ég er með ákveðnar nótur sem lýsa því hvernig á að spila hverju sinni og þeirri áferð sem við á, og síðan venjulegar nótur þegar á að spila hefðbundið. Mér finnst mjög gaman að blanda þessu saman,“ segir hún með ánægjusvip. „Þetta er til dæmis ein aðalástæðan fyrir því að það höfðar sérstaklega mikið til mín að vinna hljómsveitarverk því þar eru svo mörg hljóðfæri þar sem hægt er að vinna með allskonar mismunandi áferð og hljóma.“

Mynd / Hákon Davíð

Það er nóg að gera hjá Önnu og hún er mjög vinnusöm, eins og ætla má. Hún segist vera morgunmanneskja og finnst gott að vinnna skapandi vinnu frá morgni og fram eftir degi en þurfi auðvitað líka að svara tölvupóstum og vera í sambandi við marga í tengslum við tónlistina, eins og flytjendur og skipuleggjendur, það er stór hluti af hennar starfi líka.

Ein af áhrifamestu kventónskáldum vorra tíma

Anna hefur unnið stóra sigra í tónlistinni og fáir Íslendingar hafa náð jafnlangt á sínu sviði, en Íslensku tónlistarverðlaunin hefur hún hlotið fjórum sinnum auk mjög virtra viðurkenninga á alþjóðavísu, eins og Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2012, New York Philharmonic Kravis Emerging Composer Award 2015, viðurkenningu frá Lincoln Center-listamiðstöðinni í New York og einnig verið útnefnd ein af 30 áhrifamestu konum í tónsmíðum á þessari og síðustu öld af bandaríska dagblaðinu Washington Post.

Hún hefur gefið út plötur með tónlist sinni hjá þekktum útgáfufyrirtækjum sem allar hafa hlotið afar góða dóma og komist á lista yfir bestu plötur ársins, eins og platan Rhizoma sem kom út árið 2011 og var á lista yfir bestu 10 bestu klassísku plötur ársins í Bandaríkjunum. Deutsche Grammophon gaf út plötu með tónlist Önnu 2014, en það er afar sjaldgæft að það fornfræga fyrirtæki gefi út plötu með samtímatónlist eftir einn höfund og má því segja að með þessu hafi hún brotið blað og þetta sýnir hversu virt hún er um allan heim. Þegar við ræddum við hana var hún nýkomin úr tónleikaferð til New York þar sem frumflutningur á verki hennar með New York Philharmonic verður í vor undir stjórn hins virta finnska stjórnanda Esa-Pekka Salonen, en verkið er hluti af verðlaununum sem henni hlotnuðust.

Mynd / Hákon Davíð

En hvað ætli liggi að baki slíkri velgengni og hvaða þýðingu hefur slíkt fyrir hana og ungar konur í tónlist?

„Ég hef alltaf trúað mikið á það að vera atorkusamur, að vinna mikið og af einlægni,“ segir hún og leggur áherslu á síðasta orðið. „Ég trúi á einlægni og ef maður vinnur með það sem maður hefur fram að færa eru líkurnar að minnsta kosti meiri á því að maður finni sinn farveg, hver svo sem hann er. Ég hef alltaf verið trú þessari rödd. Ég varð snemma meðvituð um að ég vildi læra mikið en jafnframt um það hvað maður velur að tileinka sér og hvað maður skilur eftir. Það er mikilvægt að læra allt mögulegt en maður tileinkar sér ekki endilega allt sem maður lærir. Ég leitaði því leiða til að koma frá mér þeirri tónlist sem býr innra með mér, sem er auðvitað samt innblásin af reynslu manns og umhverfi. Það eru margar leiðir að því að búa til tónlist og hægt að notast við ýmiskonar tónsmíðatækni og aðferðir en ég læt slíkt aldrei stýra útkomunni sjálfri. Ef mér finnst það ætla að beina tónlistinni í „ranga“ átt þá finn ég aðra leið. Þetta er nokkuð sem ég trúi á.“ Og svo er heldur betur. Anna hefur náð að skapa sér einstaka rödd í heimi tónlistar með verkum sínum þar sem hún lætur oft landslagið og náttúruna, það smáa og það stóra, endurspeglast í tónlistinni á einstakan hátt.

Passaði ekki inn í steríótýpuna 

Anna segist taka hlutverk sitt sem konu í tónlistarheiminum alvarlega, að vera sýnileg og að ungar konur geti speglað sig í þessu fagi. „Auðvitað er auðveldara í dag að vera sýnilegur en til dæmis þegar ég var að alast upp, þá voru kventónskáld mun minna sýnileg en það er mjög mikilvægt að ungar konur geti speglað sig í þessu fagi. Mér fannst til dæmis aldrei sem unglingur að ég gæti orðið tónskáld, það var svo sterk ímynd af því að það væru aðallega eldri karlmenn sem væru tónskáld. Ég reyni að styðja og vera hvetjandi fyrir ung tónskáld, og ekki síst fyrir ungar stúlkur, til dæmis þegar ég ferðast og held fyrirlestra. Konur í tónlist hafa ekki átt auðvelt uppdráttar og sjálf lenti ég í því þegar ég var yngri að vera bókstaflega klappað á kollinn á ráðstefnum, þegar ég var að feta þessa braut og byrjaði að tala. Fólk vissi ekki hver ég var og mér var strax boðið vatn eða matur, mig hlyti að vanta eitthvað fyrst ég opnaði munninn. Ég passaði ekki inn í steríótýpuna. Virðulegur kollegi sagði einu sinni við mig að ég gæti aðeins dundað við að semja tónlist núna, síðan myndi ég bara eignast börn og þá yrði það nú búið. Þetta var sama ár og ég hlaut Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs, svo þarna var ég nú ekki beinlínis að byrja í faginu. Ég veit að karlkynskollegar mínir hafa ekki orðið fyrir slíku á sama hátt,“ útskýrir hún.

Það virðist líka mega gera athugasemdir um líkamlegt útlit kvenna en Anna er sannfærð um að það muni breytast, #metoo-byltingin muni hafa þar áhrif. ,,Ég er ekki í nokkrum vafa að #metoo-byltingin komi til með að skila konum góðu,“ segir hún og leggur áherslu á orð sín. Hún segir að það séu því miður mörg dæmi um mjög erfiða reynslu meðal kvenna í tónlist. Anna nefnir líka dæmi um önnur tengd vandamál. „Nú á þetta ekki við um mig, því fólk veit að það er ég sem skrifa tónlistina mína, en ég veit að konur í öðrum geirum tónlistar hafa oft ekki fengið fullan heiður af sinni vinnu, til dæmis hvað varðar lagasmíðar, hljóðblöndun og annað. Það virðist oft bara vera gert ráð fyrir því að karlmaðurinn geri allt. Þetta er auðvitað kannski mestmegnis ómeðvitað og sem betur fer eru mjög margir flottir karlmenn sem vilja hafa hlutina sanngjarna og viðhorfið er að breytast,“ segir Anna.

Náttúran og frelsið endurspeglast í tónlistinni

Anna segist oft vera spurð um Ísland og hvort landið og náttúran sé í tónlistinni hennar. „Ég er oft spurð hvort Ísland sé ekki mikið í tónlistinni minni og áhuginn á íslenskri tónlist virðist vera gríðarlega mikill, ég hélt að hann hefði kannski náð hámarki fyrir nokkru en hann virðist enn í sókn. Ísland er auðvitað að ákveðnu leyti mikið í tónlistinni minni enda eru ræturnar sterkar. Ég elska að vera við sjóinn og að vera umvafin fjöllum og opinni náttúru, maður áttar sig ekki á því hvað náttúran og birtan er sérstök hér heima fyrr en maður ver miklum tíma í stórum borgum. Það er svo mikið af ósnertri náttúru hér heima og mikið pláss, þetta rými endurspeglast á ákveðinn hátt í tónlistinni minni til dæmis.“

Anna segir að það blómlega tónlistarlíf sem einkenni Ísland byggi að einhverju leyti á því frelsi sem hér sé. Það sé til dæmis frekar algengt að tónlistarfólk fari á milli tónlistarstefna eða -geira, það er að segja að klassískir tónlistarmenn spila til dæmis margir popp og rokk og svo framvegis. „Mér finnst þetta opna samtal á milli geira vera mjög af hinu góða. Það var svolítill hroki milli tónlistargeira áður fyrr en það er að breytast.“ Önnu finnst þetta góð þróun sem sé líklega einn af fylgifiskum þess að búa í fámenni og hún segir að hér séu frjálsir andar og mjög blómleg listasena.

Gríðarlegur áhugi erlendis á íslenskri samtímatónlist

Aðspurð um niðurskurð til tónlistarnáms og um umfjöllun um tónlist svarar Anna að tónlistarmenntun sé að mikilvægu leyti rótin að þróun tónlistarinnar. „Það er að miklu leyti tónlistarskólunum að þakka að tónlistarfólk hefur getað lært og sinnt tónlist og náð árangri í því, það er ekki þannig að þetta spretti úr engu. Það er svo áríðandi og nauðsynlegt að hlúa að tónlistarskólunum,“ segir Anna alvarleg. Og þegar umfjöllun um tónlist og listir almennt er nefnd bendir hún á ójafnvægi sem bæta mætti úr. „Ég hugsa í hvert skipti sem ég horfi á séríþróttaþátt eftir fréttir um allt það sem hægt væri að segja á hverjum degi um listir og menningu á Íslandi, um alla þá sem eru að vinna alls konar sigra hér og þar. Auðvitað er alveg frábært að hafa menningarhornið í Kastljósinu en það er bara svo lítið brot sem kemst þar að.“

„Ég hugsa í hvert skipti sem ég horfi á séríþróttaþátt eftir fréttir um allt það sem hægt væri að segja á hverjum degi um listir og menningu á Íslandi…“

Anna segir að áhugi á íslenskri klassískri samtímtónlist sé gríðarlegur. ,,Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur til dæmis gert samning um þrjár plötur með íslenskum hljómsveitarverkum við bandaríska plötufyrirtækið Sono Luminus sem ég hef gefið út hjá og verið viðloðandi í mörg ár. Fyrsta platan er komin út og fékk mjög góðar viðtökur, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Á hverri plötu er blandað saman verkum eftir nokkur íslensk tónskáld. Næstu tvær plöturnar eru í undirbúningi þessa dagana.“ Hún segir samstarfið við plötufyrirtækið mjög mikilvægt, þarna sé búið að skapa mjög þýðingarmikla verkefnasamvinnu við Sinfóníuhljómsveit Íslands og að íslensk hljómsveitartónlist fái með þessu einstakt tækifæri til þess að hljóma víðar en bara hér.

Hleður batteríin á Íslandi

Hvaða önnur áhugamál hefur Anna og hvernig hleður hún batteríin? ,,Ég er mjög mikið náttúrubarn,“ segir Anna með áherslu, „og vil helst vera í náttúrunni þar sem er opið svæði. Ég ver líka mjög miklum tíma með Hrafni mínum, hann er svo yndislegur og frábær, hann hjálpar mér líka mikið við utanumhald í tengslum við músíkina mína og við ræðum mikið saman um tónlist og lífið og heimspeki, en hann er menntaður heimspekingur. Við höfum verið saman í 20 ár. Hann fer líka oft með mér í vinnuferðir sem er ómetanlegt því annars væri það of mikið að ferðast svona mikið. Það er svo gott að geta haft fjölskylduna hjá sér. Svo á ég á systur sem á tvo stráka, sjálf er ég barnlaus, svo það er líka dásamlegt að verja tíma með þeim. Önnu finnst líka yndislegt að vera á fjöllum og svo er hún í jóga og hugleiðslu. Listviðburðir næra auðvitað líka og hún segist fæ orku af því. „Stundum þarf ég samt líka annars konar hvíld, mér finnst líka gaman að horfa á bíómyndir.“

Uppáhaldshljóðfærið er hljómsveit

Anna segir það mikilvægt að kynna tónlist frá öllum tímum fyrir börnum og ungmennum. Ungir krakkar séu ekki með mótaðan smekk og þeim finnist oft ótrúlega gaman að taka þátt í tónsmiðjum og vera með í að skapa og vinna með alls konar tónlist. ,,Það þarf að kynna allskonar tónlist fyrir börnum, ekki síst nýja tónlist, það er mikilvægt að þau fái tækifæri til að spila hana í bland við eldri verk. Fólk heldur oft að ef það sérhæfir sig í flutningi eldri tónlistar geti það ekki spilað eða sungið nýja tónlist en af minni reynslu er það alls ekki þannig.“ Samtímatónlist sé fjölbreytt og líka oft lagræn.

Anna segir að tónlistin spegli líka samfélagið og hafi samfélagslega þýðingu, margir tónlistarmenn vinni með sinn nútíma, eins og aðrir listamenn, bendi á og rýni í hluti og þannig hafi það verið í gegnum söguna. Fyrir marga listamenn sé það mjög mikilvægur þáttur í þeirra starfi. Hún segir að fólk haldi gjarnan að samtímatónlist sé einsleitari en hún er og að hún láti illa að eyrum. Auðvitað sé það alltaf spurning um smekk en nútímatónlist geti komið á óvart og sé mjög fjölbreytileg.

En hvert ætli sé hennar uppáhaldshljóðfæri? ,,Uppáhaldshljóðfærið mitt er hljómsveit, það eru svo margir möguleikar, streymi á hljóðatextúrum, áferð og hvert hljóðfæri hefur mörg litbrigði sem gaman er að vinna með í bland við lagrænt efni.“

Órætt að vera innblásin af náttúru

Framtíðin er björt hjá Önnu og næg stór verkefni fram undan þar sem hennar innri rödd fær að hljóma í gegnum tónlistina. ,,Ég ætla að halda áfram að vinna mikið, ég þarf bara að passa að skapa mér tíma til að búa til tónlist, það eru mörg stór verkefni í pípunum.“

Einn gagnrýnandi sagði að verk Önnu væru draumar um náttúruna. ,,Það getur verið mjög órætt að vera innblásinn af náttúru, fyrir mér snýst innblásturinn um að rýna í smáatriði og tengja þau við heildarmyndina í tónlistinni. Þannig nýti ég oft hlutföll og flæði sem innblástur frá náttúrunni og hvernig hægt er að fara á milli smáatriðanna og út í stóra rýmið eða heildarmyndina. Sambandið milli náttúruafla heillar mig og það er til dæmis mikill innblástur í því að hugsa um hlutföll milli hreyfingar og orku.“ Í tónlistinni leiðir Anna okkur í óræðan heim þar sem náttúran, frá hinu smæsta til hins stærsta, endurspeglast í hljóðum og tónum og eyrun fá að nema nýjar lendur í einstökum, umlykjandi draumheimi.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira