Árin sem breyttu tískunni varanlega

Deila

- Auglýsing -

Þriðji áratugur síðustu aldar var tími gífurlegra þjóðfélagsbreytinga. Tækniöld var gengin í garð, fastmótuð stéttaskipting hafði riðlast í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar og nýfengið frelsi kvenna varð til þess að tískan gerbreyttist.

Óhætt er að fullyrða að þá hafi orðið varanlegar breytingar á hvernig við framleiðum fatnað, klæðum okkur og kaupum föt.

Myndskreytingar eftir Gordon Conway. Hún var sjálf flapper-stelpa.

Í ritgerð sem F. Scott Fitzgerald skrifaði um þennan tíma og kallaði Echoes of the Jazz Age (Bergmál djassáratugarins) segir: „Þetta var tími kraftaverkanna. Þetta var tími lista, þetta var tími ofgnóttar.“ Í bókum sínum fangaði hann einmitt andrúmsloft þessara ára eftir heimsstyrjöldina fyrri. Gríðarlegur uppgangur var á öllum sviðum. Fólki fannst að allt væri mögulegt og engin hætta lúrði í leyni. Búið var að ljúka stríðinu sem háð var til að enda öll stríð, tækniframfarir juku hraðann á öllum sviðum lífsins og peningar flæddu í Bandaríkjunum, Bretlandi og víðar. Vel stæð borgarastétt stækkaði og nautnahyggja varð allsráðandi, ekki hvað síst meðal ungs fólks.

Korselettin fengu að fjúka, sömuleiðis síða hárið og ungar stúlkur dönsuð villtar og frjálsar í kjólum sem hvergi þrengdu að. Þær tóku einnig upp á að fara á ströndina, klæðast buxum og kjósa sér starfsvettvang. Á ljósmyndum og myndskreytinum frá þessum árum kemur vel fram þessi andi fjörs, gleði og óhlýðni. Flapper-stúlkurnar svokölluðu brostu breitt við myndavélinni, sjálfstraustið skein af þeim þegar þær sveifluðu kögrinu á kjólunum með fjaðurskraut í hárinu.

Drynjandi tíðarandi

Tískuáhugamenn segja að í fatnaði og fylgihlutum þessara ára endurspeglist taktur djassins, glamúr hinna nýju viðhorfa og skreytingagleði. Þarna er fastmótað þjóðfélag fyrri alda að brjóta af sér hlekkina og nútímasamfélög að fæðast. Í Bretlandi og Bandaríkjunum er talað um „the roaring 20’s“ en hvað var það sem drundi svo hátt? Jú, fyrst og fremst þær gífurlega hröðu breytingar sem þarna fóru í gang. Bílar, lestir og vélknúin skip gerðu fólki kleift að ferðast á milli staða sér til ánægju ekkert síður en af nauðsyn. Loftskeyti færðu fregnir á örskotshraða milli heimsálfa, vélar spunnu fyrsta flokks efni sem áður hafði tekið marga mánuði að búa til og velmegunin opnaði ótal hurðir sem áður höfðu verið lokaðar öðrum en þeim efnameiri.

„Þessu fylgdi ákveðin frelsistilfinning og nýfengið sjálfstraust meðal kvenna. Baráttunni fyrir kosningarétti var lokið með sigri víðast hvar og vegna þeirra milljóna ungra manna sem létust í stríðinu hafði skapast gat á vinnumarkaði.“

Vissulega sat þó depurð í loftinu. Heil kynslóð ungra manna í Evrópu hafði nánast verið þurrkuð út í stríðinu. Margir þeirra er sneru aftur voru skaddaðir á einn eða annan hátt. Þessi reynsla markaði alla. Vissan um að öllu væri mörkuð stund lá í loftinu og það varð eftirsóknarverðara en nokkru sinni fyrr að njóta stundarinnar og gefa dauðann og djöfulinn í morgundaginn. Djassinn passaði samfélagsandanum fullkomlega. Þessi taktvissa, hraða tónlist sem spratt að stórum hluta fram úr huga og höndum listamannanna á sviðinu meðan áheyrendur horfðu á. Auðvitað fannst öllum þeir þátttakendur í galdrinum, í sköpuninni, í gleðinni.

Frelsi og óþægð

Og einmitt þessi tíðarandi lagði grunninn að fatnaði og tísku nútímans. Konur höfðu hvorki löngun né tíma lengur til að klæðast flóknum undirfatnaði og kjólum sem þær þurftu hjálp við að komast í. Herbergisþernur voru hvort sem er deyjandi stétt. Enginn fékkst í það starf lengur. Kjólarnir fengu því að fjúka fyrir styttri kjóla, mittislausa og víða. Flóknar hárgreiðslur og hattar sem þurfti að koma rétt fyrir fóru sömu leið og við tóku einföld ennisbönd og alpahúfur ofan á stuttu hári sem varla þurfti meira en að renna greiðu í gegnum.

Kjólar eftir Lanvin og Chanel.

Silkináttföt urðu vinsæll klæðnaður heima við og margar konur tóku á móti gestum þannig klæddar. Egypsk áhrif urðu sýnileg í mynstrum, sniðum og skartgripum eftir að grafhýsi King Tut var opnað 1922 og glæsilegu munirnir er þar fundust fóru á sýningar víða um Evrópu og Bandaríkin. Austurlönd urðu feikilega vinsæl eftir að auðveldara varð að ferðast þangað og kínverskur stíll sást fljótlega á fatnaði í Evrópu. Coco Chanel var drottning þessarar nýju tísku. Hún var fyrst kvenna til að klæðast buxum og fleiri fylgdu fordæmi hennar furðufljótt.

Þessu fylgdi ákveðin frelsistilfinning og nýfengið sjálfstraust meðal kvenna. Baráttunni fyrir kosningarétti var lokið með sigri víðast hvar og vegna þeirra milljóna ungra manna sem létust í stríðinu hafði skapast gat á vinnumarkaði. Konur streymdu út og tóku við stöðum sem þeir hefðu annars fyllt. Fjárhagslegt sjálfstæði var mögulegt.

Fjaðurskúfar, kögur og borðar

Á sama tíma eru kvikmyndirnar að ryðja sér braut og með þeim nýir tískustraumar. Nú þurftu menn ekki að bíða eftir því að póstur bærist frá París til New York eða öfugt. Kvikmyndahús spruttu upp og Gloria Swanson, Clara Bow og Mary Pickford sýndu ungum stúlkum hvernig hin nýja ímynd glamúrs og fegurðar liti út. Franski hönnuðurinn Lanvin var hrifinn af fellingum, kögri, borðum, plíseringum og fjaðraskúfum og stíll hans átti sérlega vel við kvikmyndirnar. Tíska hans breiddist út um Bandaríkin eins og eldur í sinu.

Gordon Conway vann sem myndskreytir. Hún var flapper-stúlka og vann fyrir sér en myndir hennar þykja fanga ótrúlega vel tónlistina, fegurðina og tilfinningu þessa tímabils. Öll föt voru hönnuð með það í huga að þægilegt væri að hreyfa sig í þeim, dansa í þeim og herðaslár og möttlar voru vinsælar yfirhafnir. Á sama tíma jókst einnig áhugi og þátttaka kvenna í íþróttum. Tennis var gríðarvinsæll en konur svifu ekki lengur hægt fram og aftur um tennisvöllinn í síðum pilsum heldur stukku um ákveðnar að hitta boltann í hvert sinn og skora stig. Þær stigu einnig á skíði, fóru að synda af krafti og stunda fimleika. Íþróttafatnaður fyrir konur var framleiddur í massavís. Það þótti ekki lengur fallegt að konur væru mjúkar og þéttvaxnar, nærri vöðvalausar. Þær áttu að vera sterkar og sjálfbjarga.

„Nú þurftu menn ekki að bíða eftir því að póstur bærist frá París til New York eða öfugt. Kvikmyndahús spruttu upp og Gloria Swanson, Clara Bow og Mary Pickford sýndu ungum stúlkum hvernig hin nýja ímynd glamúrs og fegurðar liti út.“

Suzanne Lenglen spilaði tennis fyrir Frakkland og hraður, ákveðinn leikur hennar breytti gersamlega hvernig konur litu á íþróttina. Þær máttu og áttu að vera harðar af sér og spila til sigurs. Hún hafði einnig sínar eigin hugmyndir um hvernig var best að klæðast og kom ævinlega í pels til leiks hvernig sem veðrið var en undir honum var hún í flapper-fatnaði, kálfasíðum silkikjól, og spilaði í honum. Litir hennar voru rauður og appelsínugulur. Margir töluðu um hversu ókvenleg hún væri, „unladylike“, en Suzanne lét það eins og vind um eyru þjóta. Hún reykti og drakk koníak í leikhléum og sagði það hjálpa sér að róa taugarnar. Þótt hún hneykslaði eldri kynslóðirnar var hún dýrkuð meðal hinna yngri og fékk viðurnefnið gyðjan.

Mótið brotið

Smátt og smátt var mótið, eða formið sem ráðið hafði allri tísku fram að þessu, brotið í smátt. Konur kusu í æ ríkari mæli svipaðan klæðnað og karlar. Jakkaföt fyrir konur urðu til, bolero-jakkar, leðurjakkar, sjómannapeysur, matrósaföt og tvídbuxur. Lesbíur hættu að fara í felur og sprönguðu óhræddar um á kaffihúsum og knæpum í París, London og New York. Þeirra á meðal voru listmálarinn Romaine Brooks og kona hennar rithöfundurinn Natalie Barney. Þessar konur slógu tóninn fyrir næstu áratugi. Þær sýndu fram á að konur gátu verið flottar, kvenlegar og smart í karlmannlegum fatnaði. Síðan þá hefur það þema endurtekið sig reglulega hjá öllum hönnuðum.
Þessi glitrandi skemmtilegi áratugur endaði með skelli árið 1929 með kauphallarhruninu í New York. Áhrifa hans gætir þó enn.

Höfundur / Steingerður Steinarsdóttir

Aðalmynd: Flapper-stelpur vildu þægileg föt sem hægt væri að dansa í.

 

- Advertisement -

Athugasemdir