Ástríðufullur arftaki

Deila

- Auglýsing -

Árum saman var Valentino þekktur sem hönnuðurinn sem elskar konur. Hann naut þess að draga fram fegurð og kosti kvenlíkamans í hönnun sinni og metnaður hans var alla tíð sá að leyfa bæði konum og körlum að njóta sín í fallegum fötum. Valentino dró sig í hlé fyrr á árinu og við keflinu í tískuhúsi hans tók Pierpaolo Piccioli.

Pierpaolo fæddist í Róm og ólst upp í Nettuno. Hann og Valentino eiga það sameiginlegt að kunna að meta gamlar ítalskar kvikmyndir og sækja þangað innblástur. Pierpaolo segir hins vegar að nú snúist tískan ekki hvað síst um samfélög og samfélagslega ábyrgð. Hann vill höfða til ungs fólks og bendir á að lífsstíll hans sé langt frá glæsi- og glamúrlífinu sem Valentino sjálfur lifir. Hann heldur einkalífi sínu vandlega frá augliti fjölmiðla. Líkt og Valentino heillaðist hann af tísku strax í barnæsku en gerði aldrei ráð fyrir að geta gert hana að aðalstarfi svo hann fór í bókmenntafræði í háskólanum í Róm. Simona Caggia æskuástin hans og kærasta var þar í laganámi.

Mynd / EPA

Þegar hann uppgötvaði að Istituto Europeo di Design byði upp á kennslu í tilraunakenndri hönnun skráði hann sig í það nám líka og lauk prófi í báðum greinum. Pierpaolo fékk lærlingsstarf hjá Brunello Cucinelli að námi loknu og krafðist þess að fá borgað. Það var nokkuð sem aldrei hafði gerst í tískuheiminum áður því ungir hönnuðir eru venjulega óskaplega þakklátir fyrir að fá tækifæri. En þessi ungi maður vissi hvers virði hann var. Cucinelli var ekki stórt nafn þá en Pierpaolo fékk sitt fram. Eftir útskrift vann hann fyrir Fendi í mjög svo samkeppnismiðuðu og kröfuhörðu umhverfi. Engu að síður segir hann að innandyra hafi allir verið eins og ein stór fjölskylda. Hann var hjá Fendi í átta ár en þá bauðst honum að taka við fylgihlutadeild Valentinos.

Hann vakti strax athygli því hann þorði að gagnrýna verk Valentinos sjálfs og um þetta sagði hann í viðtali við breska Vogue: „Herra Valentino er svo öruggur með sig að þegar hann sá að mín tillaga var betri en hans breytti hann umsvifalaust.“ Þeir hönnuðu saman fylgihlutalínu vorsins 2008. Sama ár dró Valentino sig í hlé og Alessandra Facchinetti tók við. Hún hætti nokkrum mánuðum síðar og þá voru Pierpaolo og vinkona hans, Maria Grazia Chiuri, skipuð aðalhönnuðir. Verk þeirra hafa vakið mikla athygli og þetta magnaða tískuhús er jafnleiðandi og í tíð Valentinos.

Pierpaolo giftist æskuástinni sinni Simonu og þau eiga saman þrjú börn, Benedettu, tuttugu og eins árs, Pietro, nítján ára, og Stellu, tólf ára. Þau búa í fallegu einbýlishúsi í Nettuno en bærinn er hluti af Róm.

Sjá einnig: Vinsæll meðal stjarnanna

- Advertisement -

Athugasemdir