2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Ástríðufullur bakari

  Hulda Viktorsdóttir hjúkrunarfræðingur á sér mörg áhugamál, meðal annars hönnun og förðun. Hún er líka ástríðufullur bakari og nýtur þess að skreyta kökur og bera þær fallega fram.

   

  „Ég byrjaði frekar ung að baka og fékk oft að baka þegar ég kom heim úr skólanum á daginn. Mömmu til lítillar ánægju þurfti hún þá að byrja á því að þrífa eldhúsið þegar hún kom heim úr vinnunni. Hennar mælikvarði á þrif í eldhúsinu var ekki sá sami og minn á þeim tíma en hún sýndi mér þó mikla þolinmæði,“ segir Hulda, spurð hvort hún hafi lengi haft áhuga á bakstri.

  Hvernig er jólaundirbúningnum annars háttað hjá þér? „Ég er vön að baka mikið fyrir jólin og fylli heimilið af kertum og jólaljósum þar sem mér finnst svo notalegt að lýsa upp skammdegið.“

  Hvað finnst þér skemmtilegast við jólin? „Mér finnst skemmtilegast að verja tímanum með fjölskyldu og vinum og borða góðan mat,“ segir Hulda. „Uppáhaldsjólakvöldin mín eru þegar við spilum spil langt fram eftir nóttu.“

  AUGLÝSING


  Er einhver ómissandi jólasiður á þínu heimili? „Við erum alls ekki föst í ákveðnum hefðum en síðastliðin sjö ár höfum við alltaf farið á tónleika með Baggalút í desember og gætum varla hugsað okkur að sleppa því,“ segir Hulda.

  Hér gefur hún uppskrift að súkkulaðiköku með smjörkremi og einnig uppskrift að smákökum með pekanhnetum og saltkaramellu.

  Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

  Súkkulaðikaka með smjörkremi

  Súkkulaðibotnar

  670 g sykur

  350 g smjör

  4 egg

  750 g hveiti

  2 tsk. matarsódi

  95 g kakó

  6 tsk. vanillusykur

  2 tsk. salt

  300 ml vatn

  400 ml súrmjólk

  Þeytið saman smjör og sykur. Bætið eggjum síðan saman við. Blandið þurrefnum saman í eina skál og sigtið. Blandið súrmjólk og vatni saman í aðra skál. Blandið til skiptis þurrefnum og súrmjólkurblöndunni við eggjablönduna. Mikilvægt er að blanda öllu varlega saman. Setjið deigið síðan í form. Best er að nota tvö 24 cm form, og bakið við 180°C á blæstri í u.þ.b. 50-60 mínútur. Þetta er stór uppskrift en auðvelt er að helminga hana og gera einn botn eða tvo þunna botna.

  Smjörkrem

  500 g smjör, við stofuhita

  1 pakki flórsykur

  2 tsk. vanillusykur

  hvítur matarlitur

  Þeytið smjör og flórsykur vel þar til kremið er orðið ljóst. Bætið svo vanillusykri og matarlit við.

  Súkkulaðibráð til skrauts
  100 g súkkulaðihjúpur
  1/4 bolli rjómi

  Bræðið súkkulaðihjúpinn og rjómann saman í skál í örbylgju á háum hita. Gott er að hræra í skálinni með 30 sekúndna millibili þar til súkkulaðið er alveg bráðið. Hægt er að bæta við meira súkkulaði eða rjóma til þess að fá rétta þykkt. Setjið súkkulaðið síðan í sprautupoka með litlum stút en einnig er hægt að klippa aðeins af horninu á pokanum. Skreytið kökuna eftir smekk.

   

  Pekanhnetu- og saltkaramellusmákökur

  ½ bolli ósaltað smjör

  ⅓ bolli sykur

  ⅓ bolli púðursykur

  1 stk. eggjarauða

  1 ½ tsk. vanilludropar

  2 msk. súrmjólk

  1 bolli hveiti

  ⅓ bolli kakó

  ½ tsk. salt

  150 g pekanhnetur

  15 stk. Walker’s Salted Caramel Toffees

  2 ½ msk. rjómi

  saltflögur, ef vill

  100 g suðusúkkulaði

  Þeytið saman smjör, sykur og púðursykur þar til blandan verður létt og ljós, í u.þ.b. 2 mín. á miðlungshraða. Bætið eggjarauðu við og geymið eggjahvítuna þar til síðar. Bætið vanilludropum og súrmjólk saman við. Sigtið þurrefnin og bætið þeim rólega saman við blönduna. Setjið deigið í plastfilmu og geymið í ísskáp í a.m.k. 45 mín.

  Saxið pekanhneturnar smátt eða setjið í matvinnsluvél. Þeytið eggjahvítuna aðeins í höndunum með þeytara þar til hún verður að froðu. Gerið þá 18 g kúlur úr deiginu, veltið þeim upp úr eggjahvítunum og síðan pekanhnetumulningnum og setjið á ofnplötuna. Gerið holu í miðju hverrar köku með fingri. Bakið kökurnar í 10-12 mín. við 175°C blástur.

  Gerið gatið í miðjunni örlítið stærra þegar kökurnar koma úr ofninum, til að búa til pláss fyrir karamelluna. Hægt að nota teskeið eða annað hentugt áhald.

  Setjið karamellur og rjóma saman í skál og inn í örbylgjuofn. Best er að stilla á háan hita og hræra svo í skálinni með 30 sekúndna millibili þar til allt er brætt saman. Hellið þá karamellunni ofan í götin á smákökunum og stráið örlitlu af saltflögum yfir, ef vill.

  Bræðið suðusúkkulaði í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði og dreifið því síðan yfir hverja köku fyrir sig.

  Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

   

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is