Átakanleg saga Lilly

Deila

- Auglýsing -

Risastórar dyr flugskýlis opnast og inn um dyrnar streyma afrískar konur, íklæddar litríkum fötum, margar með börn í fangi og við hlið sér. Ein sker sig úr. Ekki í klæðaburði heldur er hún áberandi hvít í þessum hópi. Lilly Abdal er á flótta frá Eþíópíu eftir fall einræðisherrans Haile Selaisse og sú mynd sem hér hefur verið dregin upp er opnunaratriði í nýrri áhrifamikilli kvikmynd byggðri á skáldsögu Camillu Gibb, Sweetness in the Belly.

Bókin fékk metsölu þegar hún kom út, enda ótrúlega sterk og átakanleg. „Mitt hvíta andlit og hvíti einkennisbúningurinn láta mig líta út fyrir að hafa vald í þessari nýju veröld þótt reynsla mín eigi sterkar rætur í hinu gamla, eins og nágrannar mínir uppgötva fljótt. Ég er hvít, múslimakona, uppalin í Afríku og starfa nú hjá National Health Service,“ segir Lilly um sjálfa sig í byrjun sögunnar. Hún býr í einum af mörgum einsleitum blokkarhverfum Lundúna árið 1970 og nágrannar hennar eru flestir, líkt og hún, flóttafólk frá hinum ýmsu ríkjum heimsveldis Breta sem er hrynja.

En Lilly á sér sárari fortíð en flestir. Foreldrar hennar voru hippar, annað enskt en hitt írskt. Þau þvældust um veröldina með barnið sitt. Ástin var jú nóg og svarið við öllu. Þau senda hana út til að leika sér við hin börnin á götunni í Tangíer meðan þau liggja þrælskökk inni á gömlu hóteli. Þaðan halda þau til helgistaðar sufímúslima í Bilal al Habash í útjaðri Sahara-eyðimerkurinnar. Þau skilja hana eftir en koma aldrei aftur til að sækja hana því þau eru myrt í hliðargötu, líklega vegna einhvers konar ágreinings við dópsala.

Alin upp af helgum manni

Enginn náinn ættingi gefur sig fram svo að enskur múslimi, Bruce, tekur að sér forsjá hennar og sér til þess að hún er alin upp í Bilal al Habash undir handleiðslu andlegs leiðtoga þess, Abdal hins mikla. Lilly er aðeins átta ára þegar þetta gerist og menntun hennar upp frá þessu snýst um að stúdera Kóraninn og lítið annað. Sextán ára leggur hún upp í pílagrímsferð frá Marokkó til Eþíópíu. Hún fær inni hjá fátækri fjölskyldu þar í landi og vinnur fyrir sér með því að kenna börnunum í nágrenninu Kóraninn. Hún er utangarðs, þótt hún sé heittrúuð setur hörundslitur hennar, hana í skrýtna stöðu og hún tilheyrir í raun engum.

 „Enn og aftur passar Lilly hvergi fyllilega inn, hún þráir Aziz og sorgin fylgir henni eins og skuggi. Camillu Gibb tekst af ótrúlegri næmni og með frábærum stílbrögðum að draga upp myndir af litríku, ilmandi lífi Afríku og gráum, þungum raunveruleika bæjarblokkanna í London.“

Hún reynir að finna sér samastað í tilverunni, vinna sér inn viðurkenningu annarra. Hún kynnist og verður ástfangin af Aziz Abdul Nasser, eþíópískum lækni og uppreisnarmanni gegn einræðisherranum Haile Selassie. Þegar uppreisnin er gerð til velta einræðisherranum úr sessi neyðist Lilly til að flýja. Hún veit ekkert hvað varð um Aziz. Hún kemst þó fljótar en aðrir inn í breskt samfélag vegna uppruna síns og kemst að sem hjúkrunarnemi á sjúkrahúsi. Hún kynnist Aminu, tveggja barna móður og þær deila íbúð.

Enn og aftur passar Lilly hvergi fyllilega inn, hún þráir Aziz og sorgin fylgir henni eins og skuggi. Camillu Gibb tekst af ótrúlegri næmni og frábærum stílbrögðum að draga upp myndir af litríku, ilmandi lífi Afríku og gráum, þungum raunveruleika bæjarblokkanna í London. En þar er anganin af kaffibaunum að ristast í tinpönnum, reykelsi að brenna við kolaeldavélarnar og kardimommum. Afríka fylgir flóttamönnunum. Þessi áhrifamikla og einstak bók er nú orðin kvikmynd. Dakota Fanning leikur Lilly og er stórkostleg í hlutverkinu. Hún kemur ótrúlega vel til skila einmanaleika þessarar ungu konu. Sorg hennar og ótta við að treysta án þess nokkurn tíma að ofleika. Þetta er að minnsta kosti þriggja vasaklúta mynd.

En auk þess að opna sýn inn í neyð flóttafólks og hvernig fortíðin fylgir því eins og skugginn þrátt fyrir að þeir hafi náð öruggri höfn. Hér er komið inn á margvísleg alvarleg mál, spillingu í Afríku, undirokun kvenna, umskurð stúlkubarna, stríð, pólitískan hráskinnaleik og mikilvægi þess að tilheyra.

- Advertisement -

Athugasemdir