Átakasögur og augnabliksmyndir

Deila

- Auglýsing -

Sá veruleiki er birtist í skáldsögum er ekki alltaf þægilegur. Oft fær lesandinn innsýn í ömurlegar aðstæður manneskju og hvernig þær brjóta hana niður. Sumir eru að takast á við ofureflið, yfirvald er kúgar og níðist á, aðrir að takast á við sjálfan sig og þar er baráttan oft jafnvonlaus.

Óvægin en áhugaverð

Soralegi Havanaþríleikurinn eftir Pedro Juan Gutiérrez er áhugaverð bók en óvægin. Hún lýsir ástandinu meðal lægri stétta Kúbumanna eftir fall Sovétríkjanna þegar Kúba missti sinn helsta bandamann. Viðskiptabann Bandaríkjanna herðir enn tökin á landinu og fólk gerir einfaldlega hvað sem er til að komast af. Söguhetjan er ístöðulaus landeyða og lifir á konum, þær á hinn bóginn á túristum. Hér er ekki verið að klæða neitt í betri búning en efni standa til og bæði málfar, stíll og atvik í sögunni eru óþægileg, stundum svo mjög að þau verða óvægin. Engu að síður er þetta snilldarlýsing á vonleysi í samfélagi þar sem fá aðgengileg bjargráð er að finna. Útg. Sæmundur.

Galdra-Manga eftir Finnann Tapio Koivukari.

Í galdrafári á Ströndum

Galdra-Manga eftir Finnann Tapio Koivukari er spennandi og skemmtileg bók er gerist í miðju galdrafárinu á Ströndum. Það er alltaf áhugavert þegar erlendir höfundar kjósa Ísland að sögusviði. Tapio tekst prýðisvel upp rétt eins og Hönnuh Kent í Náðarstund. Manga er heimasæta í Munaðarnesi og fjölskylda hennar kemst vel af meðan aðrir baksa. Það er nóg til að vekja tortryggni og fólkið hennar er grunað um galdra. Manga leggur á flótta til að bjarga lífi sínu en hvor má sín meira, fátæk alþýðustúlka eða yfirvaldið Þorleifur Kortsson. Það er einstaklega fallegt mál á þessari bók og það má þakka þýðandanum Sigurði Karlssyni. Útg. Sæmundur.

Áhugaverðar myndir

Ég hef séð svona áður eftir Friðgeir Einarsson.

Íslenskir rithöfundar hafa ekki sýnt smásagnaforminu mikinn áhuga að undanförnu en í jólabókaflóðinu leyndust nokkur smásagnasöfn. Ég hef séð svona áður eftir Friðgeir Einarsson er vel skrifuð og fín bók. Sögurnar eru mjög fjölbreyttar, sumar fyndnar, aðrar sorglegar og allt þar á milli. Einmanaleiki og tengslaleysi gengur þó eins og rauður þráður í gegnum bókina. Engin persónanna virðast ná almennilega að tengjast og njóta sín innan um samferðafólk sitt. Engu að síður er þetta áhugaverðar augnabliksmyndir af lífi og í sumum tilfellum örlagastundum tilverunnar. Útg. Benedikt.

Grænlenskur veruleiki

Homo sapína eftir Niviaq Korneliussen.

Homo sapína eftir Niviaq Korneliussen hlaut tilnefningu til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2015. Niviaq er vaxandi höfundur og þessi fyrsta bók hennar hefur vakið mikla athygli víða um heim. Hún er skrifuð í vitundarstreymi frá sjónarhornum fimm persóna. Þetta er ungt fólk í leit að sjálfu sér og það drekkur, sendir SMS, talar saman á Facebook og sefur hjá. Fia er í sambandi við Peter en finnur litla fullnægju í samskiptum þeirra. Þar er allt þurrt. Þegar hún kynnist Söru breytist allt og Fia finnur fyrir sterkari og dýpri tilfinningum en nokkru sinni fyrr. Útg. Sæmundur.

 

- Advertisement -

Athugasemdir