2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Átta leiðir til að halda kvíðanum í skefjum

  Kvíði og kvíðatengd vandamál hafa aukist mjög á undanförnum árum. Að einhverju leyti er um að kenna hraðanum í nútímasamfélagi en mörgum reynist erfitt að fylgja taktinum. Sumir sækja einfaldlega styrk í kvíðann og nota hann til að fleyta sér áfram. Hér eru nokkur ráð er kunna að hjálpa mönnum að gea það.

  Skipulag

  Því betur sem menn skipuleggja tíma sinn þess auðveldara er að láta allt ganga upp. Að vakna alltaf á sama tíma, borða á ákveðnum matmálstímum og fara í rúmið á sínum háttatíma skapar góðan ramma um daginn og þá er einfalt að raða öllu öðru inn í dagskrána.

  Samvinna

  Að vinna með öðrum og varpa einhverju af ábyrgðinni á herðar þeirra, léttir á og skapar svigrúm. Ekki reyna að gera allt sjálf/ur. Fáðu öðrum hluta af verkefnunum og treystu því að þeir ljúki þeim. Ef viðkomandi bregst er það ekki þitt að ganga inn í og redda, heldur hans.

  AUGLÝSING


  Umhverfið

  Ef óreiða ríkir allt í kringum þig ýtir það undir kvíða og kvíðatengd vandamál. Taktu þess vegna ævinlega frá tíma til að þrífa og laga til í kringum þig og farðu reglulega í gegnum skápana til að minnka kraðakið þar. Að hver hlutur eigi sinn stað þar sem ganga má að honum vísum er til þess fallið að minnka streitu í lífinu.

  Sjálfsrækt

  Í flugvélinni er foreldrum sagt að setja súrefnisgrímuna fyrst á sig svo á börnin. Þetta er góð almenn regla á öllum sviðum lífsins. Ef mönnum líður illa geta þeir ekki gefið af sér. Klukkutími á dag, eingöngu helgaður þér er ekki mikið. Hann má nota til að hreyfa sig, fara í notalegt bað, nudd, meðferð á snyrtistofu eða eitthvað annað slakandi og gott.

  Uppörvandi orð og samtöl

  Oft er talað um innri streitu og þá átt við vanlíðan er manneskjan byggir upp hjá sjálfri sér með neikvæðni í eigin garð. Það er auðvelt að breyta þessu. Segðu eitthvað uppörvandi við sjálfa/n þig á hverjum degi, byrjaðu jafnvel fyrir framan spegilinn á morgnana. Sömuleiðis er gott að velja í kringum sig jákvætt fólk sem fyllir þig orku en losa sig við hina er draga menn niður. Jákvæðar samræður við góða vini eru endurnærandi og til þess fallnar að auka sjálfstraustið.

  Jákvæðar samræður við góða vini eru endurnærandi og til þess fallnar að auka sjálfstraustið.

  Skilgreindu óttann

  Sumir eru kvíðnir og taugatrekktir án þess að vita nákvæmlega hvað er að. Í þeim tilfellum getur hjálpað að setjast niður, finna út hvað veldur ótta og kvíða og nefna það upphátt. Hefur þú áhyggjur af frammistöðu þinni í vinnunni, skólanum eða annars staðar? Hvílir eitthvað á þér í einkalífinu? Áttu eitthvað ósagt við þína nánustu sem þú þorir ekki að ræða?  Fyrsta skrefið að lausninni er ævinlega að finna út hver orsökin er, eftir það er auðvelt að taka ákvörðun um að gera eitthvað eða láta kyrrt liggja.

  Vertu í sambandi

  Áhyggjur draga athyglina frá núinu. Kvíðin manneskja dvelur annaðhvort í fortíðinni eða er með hugann við framtíðina. Vertu til staðar í núinu og tengdu þig við aðra. Ef eitthvað tiltekið hvílir á þér, til dæmis hvernig barninu líður á leikskólanum, veikindi nákomins ættingja eða fjárhagsleg afkoma, skoðaðu þá stöðuna á hverjum tíma til að fullvissa þig um að allt sé í lagi. Biddu leikskólakennarann að senda þér mynd af barninu af og til, hringdu í sjúklinginn og fáðu hjálp við að koma fjármálunum í góðan farveg.

  Kvíði er ekki óeðlilegt ástand

  Kvíði er hluti af lífinu. Allir finna fyrir honum og allir þurfa einhvern tíma að takast á við alvarlegan ótta og áhyggjur. Hins vegar er mismunandi hversu íþyngjandi hann er í daglegu lífi. Vertu ekki hrædd/ur við að tala um líðan þína, aðrir geta auðveldlega tengt við hana og svo er alltaf léttir að segja hlutina upphátt.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is