2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Aukin lífsgleði

Allir vita að þegar þeim líður illa gengur flest á afturfótunum og menn finna litla löngun til að hreyfa sig eða gera eitthvað. Þegar gleði ríkir í huganum fyllast menn aftur á móti orku og telja sig færa í flestan sjó. Þess vegna leitast menn við að auka ánægjuna í lífi sínu og efla um leið eigin kraft og vilja.

Hreyfing er ein leið til að efla sig. Þegar menn stunda reglulega líkamsrækt eykst framleiðsla vellíðunarboðefna í líkamanum. Serótónín og endorfín flæða um skrokkinn við mikla áreynslu og nýleg bandarísk rannsókn sýndi fram á að taugaendarnir framleiða einnig ensím sem draga úr tilfinningasveiflum. Auk þess eykst blóðflæði til heilans þegar menn æfa og það örvar alla hugsun. Margt bendir til þess að öll hreyfing skipti máli og þótt menn hafi ekki þrek til að hlaupa maraþon geta þeir bætt andlega líðan og tilfinningalíf sitt með því að hreyfa sig nokkrum sinnum í stutta stund á hverjum degi.

Nýjar rannsóknir sýna einnig fram á að þegar fólk eldist er mjög mikilvægt að halda áfram að stunda líkamsrækt. Fólk sem er sterkt og í góðri þjálfun um miðjan aldur minnkar mjög líkurnar á að þjást af elliglöpum síðar á ævinni. Regluleg áreynsla bætir sömuleiðis minnið og hefur einkar góð áhrif á skammtímaminni.

Góður staður að byrja á

Æfingar sem krefjast mikillar einbeitingar hafa svipuð áhrif á hugsun og andlega krafta fólks eins og hugleiðsla. Einbeitingarhæfni eykst, menn eru fljótari að vinna úr upplýsingum, minnið batnar og tilfinningalegt jafnvægi næst. Tai Chi er góð leið til að vinna með þennan tiltekna ávinning líkamsræktar. Sömu sögu er að segja um bardagalistir og klifur. Að þurfa ávallt að hugsa hverja hreyfingu og vera tilbúin að mæta hinu óvænta krefst gífurlegrar hugsunar og framsýni. Hér er því um að ræða æfingu fyrir bæði huga og líkama.

AUGLÝSING


Félagsskapur og uppörvun

Æfingar í hópi geta verið mjög gefandi. Fólk kynnist á mjög jákvæðum nótum, deilir áhuga og eldmóði auk þess að ná oft og tíðum tengslum sem ekki fást öðruvísi. Haldi menn áfram fram á efri ár minnkar þetta líkur á einmanaleika og félagslegri einangrun. Því að ná árangri í íþróttum fylgir einnig uppörvun og sigurtilfinning og upplyfting andans. Hópurinn veitir einnig aðhald og hvatningu til að halda áfram að hreyfa sig.

Dansaðu úr þér óyndið

Þegar einhver er leiður eða dapur er besta ráðið að hreyfa sig hressilega og hraustlega í um það bil fimmtán til tuttugu mínútur. Sumir setja hressa tónlist í spilarann og dansa af hjartans lyst. Dugi það ekki til er gott að hringja í vin og biðja hann að ganga með sér einhvern spöl.

Laus við verki og stífleika

Verkir frá stoðkerfinu eru mjög algengir. Í sumum tilfellum byrjar fólk að finna fyrir þeim strax á þrítugsaldri og eykst tíðnin með hverjum áratug sem menn bæta við aldur sinn. Oft er fyrsta viðbragð manna við þeim að minnka eða hætta hreyfingu. Það er alrangt. Hreyfing dregur úr stirðleika í liðum, heldur vöðvunum mjúkum og sterkum og það er algjört lykilatriði ef menn vilja losna við óþægindin. Ein af orsökum þess hve algeng stoðkerfisvandmál eru orðin er kyrrseta. Líkaminn er ekki gerður fyrir langar setur. Þær eru mun óhollari en stöður. Nú verður sífellt algengara að fyrirtæki sjái starfsfólki sínu fyrir stillanlegum borðum til þess að menn geti staðið við vinnuna hluta úr degi. Annað ráð er að standa reglulega á fætur og hreyfa sig. Mjaðmaliðirnir eru fyrstir til að gefa sig í kyrrsetufólki og það veldur vandamálum bæði í hnjám og baki. Menn fara að ganga skakkir og reyna rangt á vöðvana. Hreyfing getur losað um og gefið styrkt veika vöðva.

Hin fullkomna æfing

Planki eða það að planka er eitt það hollasta sem menn geta gert. Í þessari ná menn að spenna einstaklega vel vöðvana í kvið og baki, ekki hvað síst innri vöðvana sem erfitt er að ná til með hefðbundnum magaæfingum. Að auki er staðan góð fyrir lærvöðva, bak, upphandleggi og kálfa. Þótt menn hreyfi sig ekki mikið ætti 30 sekúndna planki á ekki að vera neinum ofraun einu sinni til tvisvar á dag. Flestir planka þannig að þeir liggja á gólfinu með úlnliðina í gólfið og framhandleggina beina fram. Tærnar eru settar í gólfið og síðan reisa menn sig upp með bakið og mjaðmirnar beinar og halda stöðunni eins lengi og þeir geta. Ef menn bæta hliðarplanka við geta þeir aukið árangurinn til mikilla muna. En þá liggja þeir á annarri hliðinni með annan handlegginn í burðarstöðu en hinn fyrir framan og lófann í gólfið. Báðir fótleggirnir liggja fast saman til hliðar síðan lyfta menn sér upp og reyna að halda líkamanum beinum líkt og skáborði eða planka hafi verið stillt upp.

Sund er allra meina bót

Öll hreyfing í vatni er holl. Hún auðveldar þeim sem eiga erfitt með hreyfingar að reyna vel á og mýkir vöðva. Með því að synda hratt og af krafti er hægt að ná góðri þjálfun í sundlauginni og ná umtalsverðum árangri. Slökun í heita pottinum á eftir setur svo punktinn yfir i-ið og mörgum næg ástæða til að heimsækja sundlaugarnar.

Hreyfiteygjur

Kyrrsetufólk getur bætt líðan sína verulega með því gera hreyfiteygjur nokkrum sinnum yfir daginn. Þá standa menn og styðja sig við vegg eða gluggakistu, halda efri hluta líkamans alveg kyrrum en sveifla fótunum ýmist til hliðanna, afturábak eða áfram. Þetta liðkar og mýkir mjaðmaliðina og vinnur gegn hinum löngu setum.

Mikilvægi líkamsstöðu

Hvernig menn sitja eða standa getur skorið úr um hvort þeir glíma við stoðkerfisvandamál eða ekki. Margir hokra þegar þeir sitja og standa ævinlega álútir. Þetta fer illa með bakið, axlirnar og hálsinn og er einn helsti orsakavaldur vöðvabólgu. Með því að bæta líkamsstöðu geta menn dregið úr verkjum, lagað skekkju í mjöðmum og hrygg. Þeir sem sitja rétt fá sömuleiðis síður vöðvabólgu en hinir.

Svefninn bætir og kætir

Góður svefn er undirstaða andlegrar og líkamlegrar heilsu. Hvíldin eykur orku og hefur áhrif á bæði skap og viðbrögð fólks allan daginn. Kvíði eykst til mikilla muna sofi menn illa og rannsóknir hafa sýnt sterkt samband milli sumra gigtarsjúkdóma og svefnleysis. Margt má gera til að bæta og tryggja sér góðan nætursvefn. Meðal annars að taka aldrei tölvuna eða símann með sér í rúmið. Blátt ljós frá þessum tækjum hefur mjög truflandi áhrif á svefn. Gott loft í svefnherberginu og myrkur hefur sömuleiðis góð áhrif.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is