• Orðrómur

Aukinn vegferð og sýnileiki kvenna í sjávarútvegi

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

„Í gegnum tíðina hefur sjávarútvegurinn verið mjög karllæg grein en konum
fer sífellt fjölgandi og ekki síst í frumkvöðlastarfseminni. Þær mættu vera
duglegri við að koma fram og láta að sér kveða á opinberum vettvangi,“ segir
Arnfríður Eide Hafþórsdóttir, varaformaður Félags kvenna í sjávarútvegi (KIS).

Félagið var stofnað 2013 af hópi kvenna sem fann fyrir þörf á aukinni tengingu, samstarfi og eflingu kvenna í greininni. Margar hæfileikaríkar konur starfa innan greinarinnar og koma þær úr ýmsum áttum.

„Tilgangur og markmið félagsins er að styðja og styrkja konur í að stíga fram og gera konur sýnilegri bæði innan greinarinnar og utan hennar. Einnig að fá fleiri konur til liðs við okkur í sjávarútveginum og styrkja þar með tengslanet okkar allra enn frekar,“ segir Heiða Jónsdóttir,  stjórnarkona félagsins. „Ég skráði mig í KIS þegar ég sá auglýsingu um haustferð norður í land. Ég var tiltölulega nýflutt vestur og alveg ný í bransanum. Sá tækifæri í að efla tengslanetið, eins fannst mér áhugavert að sjá hvað var að gerast í greininni annars staðar á landinu. Ferðin var virkilega vel heppnuð og gaf mér mikið. Segir kannski mikið að ég hef helst ekki látið mig vanta á viðburð síðan þá. Ég er í góðu sambandi við margar konur sem ég hef kynnst í KIS og hef leitað til þeirra með ýmsar starfstengdar ráðleggingar og bara almennt spjall,“ segir Heiða.

- Auglýsing -

„Ég kynntist starfsemi KIS 2016 þegar félagið var í sinni árlegu vorferð og kynnti félagsskapinn á Austurlandi. Ég sá það strax að þetta væri réttur vettvangur fyrir mig sveitastelpuna til að tengjast konum víðs vegar um landið í sjávarútvegi og haftengdum greinum. Ég sé svo sannarlega ekki eftir þeirri ákvörðun þar sem ég hef náð að byggja upp frábær tengsl við konur í fjölbreyttum störfum innan greinarinnar. Í dag á ég auðvelt með að taka upp síma og hringja í vinkonu til að taka gott spjall um málefni greinarinnar,“ segir Arnfríður.

Tengslanetið skiptir gríðarlegu máli

Báðar segja þær tengslanetið skipta gríðarlega miklu máli við ráðningu, en rannsókn gerð fyrir félagið 2016 leiddi þá niðurstöðu í ljós. „Það virðist vera sem konur séu ekki eins meðvitaðar um alla þá möguleika sem sjávarútvegurinn hefur upp á að bjóða og höfum við í félaginu því lagt okkur fram um að kynna þá með fræðsluviðburðum og fyrirtækjaheimsóknum. Við höfum haldið úti einum til tveimur fræðsluviðburðum í mánuði með aðstoð fjarfundabúnaðar í COVID og förum við strax af stað í heimsóknir þegar aðstæður í þjóðfélaginu leyfa,“ segir Arnfríður og bætir við að eitt af markmiðum félagsins sé að efla yngri kynslóðir í sjávarútvegi og fá yngri konur til að kynnast greininni snemma á starfsferlinum.

- Auglýsing -

„Það er nefnilega svo að þekkingarbilið hefur breikkað síðustu ár og skiptir því miklu máli að byrja að fræða unga fólkið okkar snemma um sjávarútveginn. Það er liðin sú tíð að börn byrji að vinna í fiski 12 ára, en þú þarft að hafa náð 18 ára aldri til þess að fá að starfa í flestum vinnslum í dag. Þegar ungt fólk hefur náð þeim aldri horfir það kannski frekar á aðrar atvinnugreinar því það þekkir sjávarútveginn ekki með öðrum hætti en sem veiðar og vinnslu. Við þurfum því að passa upp á að minnka þetta bil og fræða unga fólkið okkar strax í leikskóla upp á nýliðun í greininni að gera.“ Heiða bætir við að félagið hafi lagt upp með að kynna félagskonur fyrir því sem er að gerast í greininni. „Sjávarútvegurinn er grein sem er á fleygiferð í tækninýjungum og annarri nýsköpun. Eins hafa félagskonur verið öflugar að segja frá því sem er að gerast í þeirra nærumhverfi. Ég mæli eindregið með að konur sem starfa í sjávarútvegi skrái sig í félagið. Það er gaman að taka þátt í félagsskap með framsýnum konum sem eru sífellt að leita að tækifærum til þess að auka vegferð og sýnileika annarra kvenna í greininni.“

Kynning úr blaði FKA og Vikunnar. 

- Auglýsing -

 

Veistu meira um málið?

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Sigurjón og skyr slá í gegn í nýrri herferð

Sigurjón Kjartansson framleiðandi með meiru fer með aðalhlutverkið í nýrri auglýsingu bandaríska skyrframleiðandans Icelandic Provisions. Aug­lýs­ing­in er...

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -