Ávaxtasalötin dýru

Deila

- Auglýsing -

Nýlega var selt á netuppboði hjá Sotheby‘s-uppboðshúsinu í New York armband úr svokallaðri Tutti Frutti-línu Cartier-skartgripahússins. Þessir litríku gripir urðu til eftir að Jaques Cartier hafði heimsótt Indland og maharjana þar en auðugustu eðalsteinanámur heims eru á þeim slóðum og þessir prinsar eða furstar óhemjuríkir.

Armbandið hjá Sotheby‘s er frá árinu 1930 og er samansett úr demöntum, emeröldum og rúbínum. Það seldist á 2,1 milljón bandaríkjadala og sló þar með met. Enginn skartgripur hafði áður selst fyrir viðlíka upphæð á netuppboði. Lengi hefur raunar ríkt ákveðin tortryggni meðal safnara gagnvart netuppboðum, þeir verið tregir til að bjóða í dýra gripi. Nú virðist hins vegar farið að draga úr henni eða kannski hefur kórónavírusinn eitthvað með þetta að gera. En hver sem ástæðan er þá er þessi skemmtilega vörulína kennd við ávaxtasalöt á mikilli siglingu upp á við hvað varðar verðgildi. Gripirnir sem í eina tíð þóttu of stórir, áberandi og litríkir eru aftur að öðlast vinsældir.

 „Tutti Frutti-línan er einnig mjög sérstæð, sérfræðingar segja að í raun sé það svo að ekki fari milli mála hvort gripur tilheyri henni eða ekki.“

Uppruna samsetningarinnar tutti frutti má rekja til Ítalíu. Þetta þýðir eingöngu ávextir og var haft yfir vinsælan eftirrétt, salöt úr sykruðum ávöxtum. Þegar Cartier-bræður hófu að hanna skartgripi úr þeim margvíslegu og fallegu steinum sem þeir fluttu til Evrópu frá Indlandi fengu þeir fljótlega þetta nafn, enda minntu gripirnir um margt á ávaxtasalat. Sumir steinarnir voru meira að segja skornir til að minna á jarðarber, vínber, epli eða aðra ávexti. Í byrjun tuttugustu aldar voru þeir bræður, Pierre, Louis og Jaques vinsælustu skartgriphönnuðir í heimi og Cartier stærsta verslunin með skart.

Mjög sérstæð lína

Til þeirra kom ríkasta fólk í heimi og bað þá að búa til afmælis- og jólagjafir, trúlofunargjafir, giftingarhringa, kórónur og fleira. Tutti Frutti-línan er ekki eingöngu þekkt fyrir að hver gripur sé ríkulega skreyttur dýrum steinum heldur þykir hönnunin listilega vel gerð. Steinarnir eru fléttaðir saman með hvítagulli eða gulli og allt handgert. Suma gripina er einnig hægt að losa sundur og tengja saman aftur ef menn nýta þá á annan hátt.

Tutti Frutti-línan er einnig mjög sérstæð, sérfræðingar segja að í raun sé það svo að ekki fari milli mála hvort gripur tilheyri henni eða ekki. Hún er einnig lýsandi fyrir Art Deco-stílinn og þykir meðal fegurstu og glæsilegustu hönnunar síðustu aldar. Þegar það bætist síðan við að ekki voru framleiddir mjög margir gripir í þessari línu verður hún auðvitað enn eftirsóknarverðari fyrir vikið.

 „Nefna má að Edwina Mountbatten greifynja átti kórónu í Tutti Frutti-stíl og þegar hún var seld árið 2004 bannaði breska stjórnin að hún yrði flutt úr landi því um menningarverðmæti væri að ræða og hluta af breskri skartgripasögu.“

Cartier-bræður sóttu fyrst innblástur í indverskt skart árið 1901. Þá leitaði Alexandra drottning, kona Játvarðar VII, til þeirra og bað þá að búa til fyrir sig skart sem myndi sóma sér vel við indverska kjóla. Mary Curzon, eiginkona landstjóra Breta á Indlandi, hafði fært drottningunni þrjá saría að gjöf og vantaði eitthvað til að skreyta sig með sem passaði við svo glæsilegan fatnað.

Lærði að skera út steina

Tíu árum síðar hélt Jacques, sá yngsti, í ferðalag til Indlands í þeim tilgangi að hitta hina forríku maharaja og reyna að fá þá til beina viðskiptum sínum til fyrirtækis þeirra. Í leiðinni ætlaði hann svo að kaupa inn emeralda og aðra gimsteina, útskorna í líki laufa, blóma og ávaxta en í mörgum maharja-ríkjanna voru auðugar námur og þekkt sú venja að skera steinana á þennan hátt. Jaques lærði aðferðirnar og kenndi bræðrum sínum eftir að heim kom. Á ferðalaginu kom hann meðal annars við í Patiala og Kapurthala og prinsarnir sem þar réðu ríkjum urðu brátt meðal tryggustu og verðmætustu viðskiptavina Cartier-skartgripaverslunarinnar.

Þegar Jaques kom heim hófu þeir bræður að hanna hæfilegar umgjarðir utan um steinana sem hann hafði keypt og Tutti Frutti-línan varð til. Raunar kölluðu þeir bræður þessa gripi hindúa-gripina eða hindúanámulínuna. Það var ekki fyrr en um 1970 að menn fóru að kalla þá Tutti Frutti. Í byrjun þriðja áratugar síðustu aldar komust Austurlönd mjög í tísku og allt sem var innblásið af þeim heimshluta naut því mikilla vinsælda. Þessir fallega útskornu steinar í rauðum, bláum og grænum litum seldust þess vegna eins og heitar lummur. Einhver sagði að í þeim sameinuðust austur og vestur í fullkomnu hjónabandi.

 „Þessir fallega útskornu steinar í rauðum, bláum og grænum litum seldust þess vegna eins og heitar lummur. Einhver sagði að í þeim sameinuðust austur og vestur í fullkomnu hjónabandi.“

Þótt armbönd í þessum stíl séu meðal þekktustu gripanna, auk hálsmensins sem þeir gerðu fyrir Daisy Fellows, eru til eyrnalokkar, nælur, hárspennur, púðurdósir, bindisnælur og margvíslegir aðrir litlir hlutir unnir af þeim bræðrum. Nefna má að Edwina Mountbatten greifynja átti kórónu í Tutti Frutti-stíl og þegar hún var seld árið 2004 bannaði breska stjórnin að hún yrði flutt úr landi því um menningarverðmæti væri að ræða og hluta af breskri skartgripasögu.

Allar helstu tískudrottningar og áhrifavaldar þessa tíma kepptust við að skreyta sig með þessum gripum. Þeirra á meðal var Daisy Fellowes, erfingi Singer-saumavélafyrirtækisins og ein auðugasta kona heims á þeim árum. Árið 1936 bað ritstjóri tískutímarits þá að gera fyrir sig hálsmen úr steinum sem hún átti sjálf. Meninu mátti breyta í nælu og þessi skargripur seldist árið 1991 á uppboði hjá Sotheby‘s í Genf fyrir tæpar 2,7 milljónir dala. Ótrúlegt verð en það var Cartier-fyrirtækið sem keypti og gripurinn er nú hluti af sýningu á verkum þeirra bræðra sem ferðast um heiminn.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

- Advertisement -

Athugasemdir