Bækur sem bragð er að

Deila

- Auglýsing -

Bækur höfða til allra skilningarvitanna og stundum er að lestri loknum eins og maður hafi borðað góða næringarríka máltíð. Hér eru nokkrar slíkar.

 

Bragð sem þarf að venjast

Stella Blómkvist er ekki allra, hvorki í raunheimi sagnanna um hana né meðal lesenda sakamálasagna. Þessi ósvífni lögmaður er í raun einmana riddari réttlætis og vill eingöngu komast að sannleikanum. Hún ber enga sérstaka virðingu fyrir valdastofnunum og valdamönnum en er tilbúin að leggja margt í sölurnar fyrir þá sem hafa verið órétti beittir.

Morðið í Snorralaug.

Nýjasta sagan um Stellu er Morðið í Snorralaug. Bráðsnjöll og nokkuð góð flétta, sumt raunar ansi fyrirsjáanlegt en samt bráðskemmtilegt. Stella er í fyrsta sinn hamingjusöm í einkalífinu en Adam var ekki lengi í Paradís. Hér er virkilega fín bók á ferð og óhætt að mæla með þessari afþreyingu. Útg. Mál og menning

Úthugsuð og spennandi

Hefndarenglar eftir Eirík P. Jörundsson hlaut Svartfuglinn í ár og höfundur er vel að verðlaununum kominn. Bókin er vel uppbyggð, spennandi og áhugaverð. Hún gerist á nokkrum tímaskeiðum og ýmist í höfuðborginni eða fyrir vestan. Öllum þráðum er fylgt þar til greitt hefur verið úr flækjunum en lesandinn situr samt uppi með ákveðna óvissu í lokin.

Hefndarenglar eftir Eirík P. Jörundsson.

Frásögnin hefst þegar lítil stúlka hverfur sporlaust á Súðavík árið 1970. Fjörutíu og fimm árum síðar kemur Sölvi Þórðarson blaðamaður vestur til að taka viðtöl við þá sem áfram bjuggu á staðnum eftir snjóflóðin. Hann bjó sjálfur í þorpinu þegar hann var barn og ekki er laust við að ýmislegt taki að rifjast upp fyrir honum. Þegar fyrrverandi kaupfélagsstjóri staðarins finnst myrtur fer Sölvi að róta í málum en á sama tíma tekur samstarfskona hans viðtöl við ungar konur í Reykjavík sem segjast hafa verið misnotaðar af valdamiklum manni.  Útg. Veröld

Gamlinginn þvælist inn í heimsmálin

Gamlinginn sem hugsaði með sér að hann væri farinn að hugsa of mikið er framhald af Gamlingjanum sem skreið út um gluggann og hvarf. Jonas Jonasson skrifar þessar sögur af ákveðnum léttleika og kímni en undir niðri kraumar alvaran. Allan Karlsson hefur einstakt lag á þvælast inn í heimsviðburði, stundum til góðs og stundum til einskis gagns.

Gamlinginn eftir Jonas Jonasso.

Hvernig sem sá öxull veltur hefur hann einstakt lag á að draga upp fyrir augum lesandans mynd af þeirri hættulegu forheimsku sem stundum rekur mennina áfram. Nú lendir hann úti á miðju Indlandshafi í loftbelgskörfu og er óvænt bjargað um borð í norðurkóreskt skip. Það væri hið besta mál ef ekki vildi þannig til að þar væri flutt auðgað úran. Líklega nægði þetta til að mörgum félli allur ketill í eld en þegar Allan og Julius, vinur hans, eru annars vegar er þetta uppskrift að heilmiklu ævintýri. Nanna B. Þórsdóttir þýddi þessa stórskemmtilegu bók. Útg. JPV

Létt og falleg saga

Meðleigjandinn eftir Beth O’Leary í þýðingu Höllu Sverrisdóttur er ósköp sæt og notaleg ástarsaga. Þráðurinn er frumlegur og sagan vel skrifuð. Tiffy þarf á meðleigjanda að halda og finnur hann í Leon. Hann vinnur á næturnar en hún á daginn og til að byrja með finnst henni þetta hið fullkomna sambúðarform. Þau þurfa aldrei að hittast. En fljótlega fara þau að skrifast á og skilja eftir lítil skilaboð á post it-miðum hér og þar í íbúðinni. Þau eru mjög ólíkar persónur en er ekki sagt að andstæður laðist hvor að annarri. Og loks gerist hið óhjákvæmilega þau hittast. Útg. JPV

Meðleigjandinn eftir Beth O’Leary

- Advertisement -

Athugasemdir