Miðvikudagur 24. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

Barnið breytti sambandinu við kærastann

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni

Ég og kærasti minn höfðum búið saman í tvö ár þegar ég varð ófrísk. Sambandið var gott og við vorum bæði ánægð með að barn væri á leiðinni. Ég átti hins vegar alls ekki von á þeirri breytingu sem varð á högum okkar eftir að barnið fæddist og fljótlega var svo komið að mig langaði oftar að berja kærastann en kyssa hann.

Þetta byrjaði nánast sömu nóttina og ég kom heim með drenginn okkar. Barnið var órólegt og vaknaði aftur og aftur um nóttina. Kærastinn minn reyndi ekkert að hjálpa til heldur sneri sér á hina hliðina og hélt áfram að sofa í hvert skipti sem barnið lét heyra í sér. Daginn eftir var laugardagur og ég var úrvinda af þreytu. Ég bað hann að taka barnið og sinna því meðan ég færi og legði mig. Ég náði rétt að gleyma mér áður en hann birtist við rúmstokkinn með drenginn og sagði: „Ég held að hann vilji drekka. Þú verður að sinna honum.“

Næstu daga gengu hlutirnir áfram svona fyrir sig. Þegar skipta þurfti á barninu horfði hann hjálparvana á mig og þóttist ekki skilja hvernig fara ætti að þessu þótt ég væri margbúin að sýna honum það. Á næturnar vaknaði ég og sinnti barninu og hann var meira að segja svo ósvífinn að fara fram á að ég færði mig yfir í næsta herbergi með barnið til að hann gæti sofið. Þá var mér nóg boðið og ég hvæsti á hann að barnið væri hans ekkert síður en mitt og hann gæti drullast til að sinna því til jafns við mig.

Brjóstagjöfin notuð sem afsökun

Hann tók þá við drengnum en fórst það svo óhönduglega að litla skinnið fór að háskæla og var bókstaflega óhuggandi í fangi pabba síns. Ég var handviss um að hann gerði þetta viljandi til að losna við að sinna barninu. Daginn eftir ákvað ég að tala alvarlega við hann og við settumst niður og ræddum málin. Hann virtist ekki skilja hvað ég var að fara þegar ég kvartaði og kvaðst alls ekki hafa vikist undan ábyrgð heldur þvert á móti axlað meiri ábyrgði en hægt væri að ætlast til að hann gerði. Barnið væri á brjósti og þyrfti einfaldlega á mér að halda.

- Auglýsing -

Þetta viðkvæði um brjóstagjöfina átti ég eftir að heyra aftur og aftur á næstu vikum og mánuðum. Um þetta leyti var kærastinn minn í fríi frá vinnu sinni svo það var ekki álag eða mikil ábyrgð annars staðar sem hindraði hann í að taka þátt í uppeldi barnsins. Hann átti inni sumarfrí og við höfðum ákveðið í sameiningu að gott væri að hann yrði í fríi heima fyrstu vikurnar eftir að ég kæmi heim en fæðingarorlof hans vildum við eiga til góða. Eins og flestir geta ímyndað sér þá breyttist ástandið sannarlega ekki til hins betra eftir að hann fór að vinna aftur.

„Eftir að drengurinn minn fæddist fannst mér að einhver hefði fleygt mér út í djúpa endann á lauginni og ég kynni ekki að synda.“

Í raun má kannski segja að það hafi versnað því hann breytti ekki á nokkurn hátt venjum sínum þótt lítið barn væri komið á heimilið. Hann fór í ræktina eftir vinnu og kom ekki heim fyrr en seint ef því var að skipta. Ef einhver vina hans hringdi þá var hann strax tilbúinn að hlaupa út úr dyrunum og hafði ekki einu sinni fyrir að spyrja mig hvort mér væri sama. Áður en barnið kom til hafði ég lítið fundið fyrir þessum sið hans því ég ýmist fór með honum eða notaði tækifærið til að hitta vinkonur mínar. Núna var allt annað uppi á teningnum. Ég var bundin yfir litlu barni og átti ekki völ á öðru en að sinna því eftir bestu getu.

Að synda eða sökkva

- Auglýsing -

Oft er sagt að þegar fólki er fleygt út í djúpu laugina hafi það um það að velja að synda eða sökkva. Eftir að drengurinn minn fæddist fannst mér að einhver hefði fleygt mér út í djúpa endann á lauginni og ég kynni ekki að synda. Í stað þess að taka sundtökin og bjarga mér að bakkanum var ég að sökkva. Ég réð ekki neitt við neitt. Ég var með lítið barn í höndunum sem ég kunni, að mínu mati, ekkert að sinna og ég var stöðugt þreytt. Við þetta bættist að ég stóð algerlega ein. Kærastinn minn hafði hvorki áhuga á barninu né tíma til að sinna því og mamma sagði bara: „Æ! Þetta er nú svo indæll drengur, ég skil ekki hvað þú ert að kvarta.“ Og stundum var óljóst hvort hún átti við litla barnið eða kærastann minn.

Mamma skildi alls ekki hvers vegna ég kvartaði undan vanlíðan, þreytu og depurð. Að hennar mati var ég lukkunnar pamfíll. Ég átti lítinn heilbrigðan dreng, kærasta sem var ástfanginn af mér og bjó í notalegri lítilli íbúð. Hún þreyttist aldrei á að minna mig á að þegar hún átti mig voru aðstæður hennar aðrar og verri. Hún var ein á báti því pabbi minn kærði sig hvorki um hana né mig og foreldrar hennar höfðu engar aðstæður til að styðja hana. Viðkvæðið hjá mömmu var jafnan: „Hlutskipti einstæðrar móður er ekki eftirsóknarvert.“ Þetta fór óskaplega í taugarnar á mér og það endaði með því að ég spurði hana einu sinni: „Á mér að líða betur vegna þess að aðrir hafa það verra en ég? Á ég að sætta mig við það að kærastinn minn vilji ekki sinna barninu okkar bara af því að hann er svo góður að yfirgefa okkur ekki?“ Mamma hafði engin svör við þessu svo hún lét sér nægja að skamma mig fyrir öfgar og tilætlunarsemi.

„Um eftirmiðdaginn var ég orðin svo slæm að ég lá í hnipri upp í rúmi og gat ekki hreyft mig.“

Ég viðurkenni fúslega að á meðgöngunni sá ég allt í rósrauðum bjarma. Brátt yrði komið lítið barn og fyrir hugskotssjónum mínum var það ævinlega brosandi og við foreldrarnir, hrein, glöð og hress að sinna því saman. Raunveruleikinn reyndist auðvitað allt annar. Fæðingin gekk fremur hægt og var mér erfið. Ég var því mjög þreytt og eftir mig fyrstu vikurnar og ofan á það bættist að þurfa að vakna til barnsins fjórum sinnum á nóttu. Ég var því alltaf úrvinda, svefnlaus og önug. Ég er viss um að kærastinn minn hafði ekki reiknað með því að stúlkan sem hafði verið glaðlyndur félagi hans í tvö ár breyttist í önuglynda nöldurskjóðu við það eitt að eignast barn en það var eins og hann gerði sér enga grein fyrir að hann gæti einhverju breytt.

Veiktist hastarlega

Álagið og togstreitan í sambandi okkar jókst stöðugt og brátt var svo komið að varla leið dagur án þess að við rifumst heiftarlega og deilurnar urðu sífellt harðari. Viðbrögð hans voru venjulega þau að rjúka út og skella á eftir sér hurðunum. Síðan hvarf hann í nokkra klukkutíma en kom heim þegar honum var runnin reiðin og þá átti ég að vera tilbúin að láta sem ekkert væri og að allt væri orðið gott aftur. Ég vildi hins vegar ræða út um hlutina, komast að einhverri niðurstöðu og finna málamiðlun sem báðir aðilar gætu sætt sig við. Ágreiningsefnið var nefnilega alltaf það sama, að hann yrði að hjálpa meira til og taka meiri ábyrgð á heimilishaldinu.

Stríðið á heimilinu hafði geisað af óvenjulega miklu offorsi í nokkra daga þegar ég vaknaði einn morguninn með mikla og sára verki í kviðarholinu. Ég hélt að þetta myndi lagast og tók verkjartöflu en í stað þess að minnka ágerðust verkirnir. Um eftirmiðdaginn var ég orðin svo slæm að ég lá í hnipri upp í rúmi og gat ekki hreyft mig. Ég hringdi í mömmu og bað um hjálp. Hún kom, leit á mig og hringdi umsvifalaust á sjúkrabíl. Í ljós kom að ég var með sýkingu í öðrum eggjastokknum og hann hafði sprungið. Ég lá á sjúkrahúsi í rúma viku og mér var uppálagt að taka það rólega eftir að ég kæmi heim.

„Síðan hvarf hann í nokkra klukkutíma en kom heim þegar honum var runnin reiðin og þá átti ég að vera tilbúin að láta sem ekkert væri.“

Og þá var eins og fólkið mitt hrykki loksins í gírinn. Þegar ég var orðin fárveik og algjörlega búin á því var eins og það áttaði sig á því að kannski þyrfti ég hjálp. Að það væri hugsanlegt að það væri of mikið að nýbökuð móðir sæi ein um alla hluti og fengi hvorki aðstoð né umhyggju frá sínum nánustu. Mér fannst hjálpin koma fullseint og var lengi bæði reið og pirruð út í allt og alla. En ég fékk tækifæri til að hvíla mig og eftir hvíldina leið mér mun betur.

Kærastinn minn þurfti að sinna syni okkar meðan ég var veik og hann er hættur að afsaka sig með því að hann kunni ekkert á smábörn. Hann mætti oft vera hjálplegri en ástandið hefur mikið breyst til batnaðar. Mamma hefur einnig áttað sig á því að það er ekki til að bæta neitt að telja manni trú um að vandamál manns séu ekki til. Hún hefur því staðið meira með mér en áður og það hjálpar. Ég er byrjuð að vinna úti aftur og það hefur líka orðið til þess að mér finnst ég ekki eins einangruð. Vonandi halda hlutirnir áfram að lagast og ég vil trúa því að bráðum geti ég sagt að ég sé sátt við líf mitt.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -