Berðu aldurinn vel

Deila

- Auglýsing -

Þótt það sé gaman að eldast og flestar konur telji árin eftir fimmtugt þau gjöfulustu í lífi sínu gerir sú sátt sem þær hafa náð við sjálfar sig það oft að verkum að þær festast í einhverju tilteknu útliti eða stíl. En einmitt þessi innri fullvissa um eigið ágæti og ánægja með lífið ætti að endurspeglast í útlitinu. Hér á eftir eru nokkrir punktar sem gaman gæti verið að velta fyrir sér.

Eitt af því sem margar konur flaska á er að halda of lengi í þann lit á hárinu sem þær hafa lengst haft. En það gæti hins vegar verið spennandi að fara nýja leið. Undanfarið hefur færst í vöxt að konur leyfi gráu hárunum að njóta sín með hjálp hárgreiðslukonunnar sem þá undirstrikar litinn með silfur eða bláum litatónum. Strípur og góð klipping gera svo gæfumuninn.

Það skiptir líka máli að bera sig vel. Ganga uppréttur og fjaðra svolítið þegar maður gengur.

Mörgum konum á besta aldri finnst tísku- og snyrtivöruheimurinn lítinn áhuga sýna þeirra aldurshópi og kjósa því að hunsa hann. Vissulega er það rétt að glitrandi fjólubláir og grænir augnskuggar gera lítið fyrir þroskuð augu en það er margt fleira þarna og þetta snýst eins og alltaf um að velja og hafna. Svokallaðir farðagrunnar eða make up base eru hrein snilld. Þeir jafna húðlitinn og gefa einstakan ljóma með hjálp lítilla glitagna sem blandað er í kremið. Sagði einhver að glimmer væri alvont?

Það er ekkert að því að vera fimmtugur, sextugur og sjötugur og líta út fyrir að vera það. Þótt vissulega sé gaman að vera unglegur er heldur ekkert að því að heyra að þú lítir mjög vel út akkúrat núna þótt það leyni sér ekki að þú hafir byrjað síðari hluta ævinnar.

Taktu Iris Apfel þér til fyrirmyndar. Ef smekkur þinn leyfir ekki alveg sömu litagleði njóttu þess þá alla vega að velja stóra litríka skartgripi, töskur í djörfum litum og skó sem lýsa eins og sólin.

Tilveran snýst um tilraunastarfsemi. Ekkert hefst nema að reyna það og það er allt í lagi að mistakast. Þau eru til að læra af þeim.

Það kemur að því hjá öllum að þeir þurfi gleraugu. Veldu þín vel. Ekkert setur meiri svip á andlitið en falleg gleraugu. Starfsfólk gleraugnabúða er vant því að aðstoða fólk í þeim erindagjörðum að kaupa sín fyrstu og vita hvaða umgjarðir klæða þig vel. Það er mjög gaman að hitta fólk sem sýnir hugrekki og frumleika í vali á umgjörð. Flestir eiga sinn uppáhaldslit sem gersamlega lyftir húðlit þeirra og gerir eitthvað fyrir þá. Prófaðu gleraugnaumgjörð í þeim lit og veldu þér augnskugga í stíl, nú og silkislæðu um hálsinn líka.

Njóttu þess að kaupa þér falleg blúndunærföt, pínulitlar nærbuxur og sexí brjósthaldara.

Hælaskór geta verið óþægilegir og já, það verður erfiðara að ganga á þeim eftir því sem maður eldist. En takið eftir, strigaskór eru í tísku, líka við kjóla, pils og dragtir.

Hlýr rauður varalitur hentar þroskuðu andliti mjög vel, sömuleiðis bleikur og sumar þola vel af fara aðeins út í mildan fjólubláan tón.

- Advertisement -

Athugasemdir