Berðu þig vel?

Deila

- Auglýsing -

Þegar fólk heyrir orðið líkamstaða réttir það ósjálfrátt úr bakinu því öll vitum við jú að það er ekki hollt að vera bogin í baki og herðum og með hangandi haus. Öndun verður auðveldari, mönnum líður betur og þeir eiga betra með að hreyfa sig ef þeir bera sig vel.

En hvað felst í því að bera sig vel? Jú, það er að halda hryggnum uppréttum, mjöðmum í réttri stöðu, hvorki vera fattur né ýta þeim um of fram, slaka á í herðum og halda höfðinu beinu. Ökklar, hné, mjaðmir, háls og höfuð eiga að vera í beinni línu. Þess vegna geta jóga og pílatesæfingar skipt mjög miklu fyrir þá sem þjást af verkjum frá stoðkerfi því þær bæta limaburð, auka styrk og laga afstöðu beinagrindarinnar. Með því að gera nokkrar einfaldar æfingar yfir daginn og vera meðvitaður um líkamsstöðu sína er hægt að draga úr bakverkjum, vöðvabólgu í öxlum, höfuðverkjum og liðverkjum.

Þegar setið er

Þegar setið er við tölvu eða aðra vinnu er gott að hafa í huga að sitja ævinlega beinn í baki með rassinn alveg upp við bakið á stólnum. Ekki láta axlirnar hanga og höfuðið detta fram á við. Það er mikil áreynsla fyrir líkamann að sitja kyrr í langan tíma í sömu stellingu. Þess vegna er mikilvægt að standa upp af og til og ganga um og hreyfa sig í stólnum. Halla setunni kannski ofurlítið fram eða bakinu aftur. Vöðvarnir og liðböndin verða stirð eftir langar setur og það er gott að teygja vel á af og til. Reynið líka að hreyfa höfuðið og hálsinn. Þegar hakan hangir niður í bringu allan daginn fer það ákaflega illa með vöðvana í hálsinum. Einfaldar æfingar sem þessar létta strax á og geta komið í veg fyrir spennu og þreytuverki í vöðvum.

Standandi

Sérfræðingar þreytast ekki á að segja okkur að líkaminn er beinlínis hannaður til að hreyfa hann. Þess vegna er mjög mikilvægt að gæta þess að hreyfa sig oft og mikið yfir daginn. Ef þú ert svo heppinn að geta staðið við vinnuna þína gerðu það þá. Í dag er vinsælt að nota skrifborð sem hægt er að hækka og lækka og margir kjósa að standa hluta úr degi en setjast niður þegar þeir finna fyrir þreytu í fótum. Þegar fólk stendur er mikilvægt að setja þungan í hælana og færa hann svo reglulega yfir á miðjan fót. Þetta dreifir þunganum jafnt á vöðvana og kemur í veg fyrir verki. Það er ekki gott að sumir kjósa líka að tala inn á hljóðskrár og senda í stað þess að skrifa tölvupósta eða senda skilaboð.

Það er líka góð venja að ganga um gólf meðan talað er í síma. Farsímar eru beinlínis gerðir til að fólk geti verið á ferðinni og það má ná heilmiklum tíma standandi ef þeir venja sig á að svara símanum aldrei sitjandi við skrifborðið.

Til að minna sig á að bera sig vel og nýta þessi góðu ráð er hægt að ná sér í app í símann. Eitt heitir til að mynda Upright. Því fylgir lítið tæki sem fest er við bakið og titrar í hvert sinn sem of mikill slaki er kominn á hrygginn. En ef menn hafa ekki áhuga á að nýta tæknina á þennan hátt er gott að ganga reglulega að næsta vegg og standa þráðbeinn upp við hann í nokkrar mínútur. Settu hælana alveg að gólflistanum og reyndu að láta hnésbætur, mjaðmir, axlir og höfuð snerta vegginn. Kræktu einnig saman fingrunum fyrir aftan bak og teygðu svo handleggina frá líkamanum. Þetta opnar brjóstvöðvana, losar um spennu í handleggjunum og eykur blóðflæði um bakið. Það getur líka verið gott að skipta um skó yfir daginn. Ef þú ert á hælaskóm í vinnunni getur verið mjög gott að skipta yfir á flatbotna reglulega.

Þegar þú liggur

Hvernig fólk sefur hefur áhrif á líkamsstöðu þess yfir daginn. Mikilvægt er að koma sér fyrir í þeirri stellingu sem þér líður best í og hjálpar þér að slaka á en flestir kjósa að sofa á hliðinni. En ef þú vaknar stirður og aumur í skrokknum á morgnana er ástæða til að skoða hvað kann að valda. Allar dýnur missa eiginleika sína með tímanum og hætta að styðja við líkamann eins og þær eiga að gera. Viðmiðið er átta til tíu ár. Það getur líka hjálpað að setja kodda undir fæturna eða á milli hnjánna til að tryggja betri stöðu mjaðmanna.

 

- Advertisement -

Athugasemdir