2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Billie Eilish vill að tónlistin tali sínu máli

  Billie Eilish Pirate Baird O’Connell er rísandi stjarna í bandarísku tónlistarlífi. Það vekur athygli að ólíkt öðrum ungstirnum gerir hún lítið til að undirstrika kynþokkann, reynir þvert á móti að vera náttúruleg og tilgerðarlaus.

   

  Billie Eilish vill að tónlistin tali sínu máli. Þetta er óneitanlega fersk og áhugaverð nálgun. Það vakti einnig mikla athygli þegar hún opnaði sig um fataval sitt í tilefni þess að hún sat fyrir í auglýsingaherferð Calvin Klein.

  Úr herferð Calvin Klein.

  Billie sagði að hún veldi stór og víð föt til tryggja að fólk legði ekki mat á sig sem persónu út frá fatavali. Hún talar um að líkaminn sé hennar einkamál og hún kjósi að halda sumu fyrir sig. Margir hafa lagt orð í belg hvað þetta varðar og talað um að þetta sé merkileg upplifun ungrar konu í sviðsljósinu, að hún þurfi að fela sig í víðum fatnaði. En Billie er alls ekki að fela sig, þvert á móti hún vill einfaldlega ekki þurfa að heyra dóma fólks, sem er fyrst og fremst upptekið af útliti kvenna, um sig. Að auki hefur hún engan áhuga á að vera kyntákn eða gera út á líkamann.

  AUGLÝSING


  Billie er aðeins sautján ára. Hún fæddist 1. desember 2001 í Los Angeles. Foreldrar hennar eru Maggie Baird og Patrick O’Connell en þau eru bæði viðriðin skemmtanaiðnaðinn. Maggie er leikkona og tónlistarmaður og Patrick leikari. Billie samdi sitt fyrsta lag ellefu ára. Textinn fjallaði um zombie því hún var að horfa á The Walking Dead og var heilluð af þáttunum. Hún hellti öllum tilfinningum sínum í lagið og reyndi að koma til skila því sára hlutskipti að vera utangarðs líkt og zombie en þrá að vera eins og hinir.

  Vinnur með bróður sínum

  Hún og Finneas, eldri bróðir hennar, vinna mjög mikið saman en hann hefur einnig verið í hljómsveitum og að vinna tónlist frá unga aldri. Fyrsta lagið sem vakti athygli á þeim var Ocean Eyes. Finneas samdi það fyrir hljómsveit sína og lét systur sína hafa það þegar danskennari hennar bað nemendur sína að koma með lag til að semja dans við í tíma. Billie söng lagið og þær dönsuðu við það.

  Finneas O’Connell, bróðir Billie, er 21 árs.

  Einhver lak myndbandinu á Netið og það sló í gegn. Saman unnu systkinin svo að tólf laga plötu, Don’t Smile at Me og voru í ár að semja öll lögin. Þau fengu að njóta mikils frelsis við gerð hennar og nutu þess að flytja lögin eins og þau vildu og raða þeim í þá röð sem þeim fannst hentugust.

  Platan sló í gegn. Rödd hennar þykir mjúk, blíðleg en áleitin. Maura Johnston, gagnrýnandi Rolling Stones, sagði hana hvískrandi á meðan Avery Stone hjá Noisey taldi hana ójarðneska. Mest um vert þykir þó að Billie sker sig úr öðrum ungum söngkonum. Hún kýs að vera hún sjálf, mjög náttúruleg og einföld í öllum sviðsetningum og myndböndum.

  Textarnir hennar geta verið mjög grimmir. Hún taldi sig ekki þurfa að herma eftir Britney Spears og Miley Cyrus þótt hún væri að feta í fótspor þeirra að sumu leyti. Þrátt fyrir að þau systkinin hafi aldrei gengið í skóla þegar þau voru ung heldur kennt heima þykja þau í hópi þeirra sem semja og flytja tónlist sem höfðar til menntafólks. Þau reyna að segja sögur, koma til skila tilfinningum og skilaboðum um stöðu mannsins í veröldinni. Foreldrar þeirra tóku þá ákvörðun að kenna þeim heima því þau töldu að í hefðbundnu skólakerfi væri ekki lögð nægilega mikil áhersla á sköpunarferli og að hjálpa börnum að finna köllun sína í lífinu.

  Billie Eilish vill að tónlistin tali sínu máli.

  Áhugi Billie Eilish á tónlist kviknaði þegar hún var átta ára og fór í barnakór. Hún ætlaði sér samt aldrei að verða atvinnumanneskja á því svið en pabbi hennar er mikill áhugamaður um tónlist og sá til þess að hún fengi kennslu í músík. Hann kenndi börnum sínum að meta margvíslega tónlist í uppvextinum, meðal annars Bítlana og Avril Lavigne, og hvatti þau til að gera tilraunir með að skapa eigin tónlist. Patrick segir að hann viti hversu mikilvægt það er að leyfa listamönnum að hafa nægan tíma til skapa. Hann heillaðist sjálfur af leiklist ungur að árum í Norwalk í Connecticut og flutti til Los Angeles til að fá tækifæri til að sinna henni. Hann hefur leikið mikið á sviði og sést í myndum eins og Iron Man og þáttum á borð við The West Wing.

  Maggie, mamma þeirra, er einnig mjög skapandi manneskja. Hún hvatti alla tíð börn sín til að vinna listrænt og nota hæfileika sína. Hún er sjálf söngkona og talsetningarleikkona. Hún var annar handritshöfunda teiknimyndarinnar Inside Out. Þótt hún sé sátt við eigin starfsferil segist hún vera hreyknust af fjölskyldu sinni. Þau hafa ekki gengist inn á hinn dæmigerða Hollywood-lífsstíl. Auðvitað eru þau öll mjög upptekin í eigin verkefnum en þegar þau eiga frístund setjast þau niður og njóta þess að borða saman. En Billie býr enn heima hjá þeim í litlu tveggja herbergja einbýlishúsi í hæðunum fyrir ofan Hollywood. Tónlistarspekúlantar spá Billie mikilli áframhaldandi velgengni og það verður áhugavert að fylgjast með henni á næstu árum.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is