2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Birtir yfir heimilinu

  Ein leið til að létta sér myrkrið er að hleypa birtu inn á heimilið.

  Að raða saman ólíkum hlutum getur gefið einstaklega skemmtilega útkomu.

  Skammdegið er óvenjulega langt á Íslandi og þess vegna hafa íbúar þessa lands ávallt fundið leiðir til að létta sér myrkrið. Ein þeirra er að veita birtu inn á heimilið. Bakkabræður reyndu að bera hana inn í húfum sínum en margt má gera léttara og árangursríkara en það.

  Hið óvænta Að raða saman ólíkum hlutum getur gefið einstaklega skemmtilega útkomu. Margir hafa gaman af að fara á nytjamarkaði og í antíkverslanir og velja þar ólíka smáhluti sem þó kallast á þegar þeir koma saman. Það er gaman að koma þeim fyrir á borði, í glugga eða í hillu og skapa þannig óvænt samhengi sem fangar augað. Þetta geta verið vasar í mismunandi litum og lögun, ólíkar styttur af konum, fuglum eða börnum, mismunandi krúsir, kertastjakar eða hvað annað sem heillar. Svona munir eru sömuleiðis frábærar borðskreytingar í veislum.

  Gluggatjöld Á mörgum heimilum er skipt um gluggatjöld í eldhúsinu fyrir jólin. Það er ekkert að því að gera hið sama í svefnherbergjum og setja upp líflegri og ljósari gluggatjöld á veturna. Á sumrin er hvort sem er þörf á að loka birtuna úti yfir nóttina en á veturna er minni hætta á að sólargeislarnir haldi fyrir fólki vöku.

  AUGLÝSING


  Gólf- og loftlistar Í gömlum húsum eru oft fallegir listar við gólf og í loftum. Stundum eru líka rósettur í kringum loftljósin. Sumum finnst þetta ekki eiga við í nýrra húsnæði en það fer alveg eftir húsbúnaði og stíl íbúðarinnar. Að setja rósettur í loft getur sett mikinn svip á herbergi og skapað skemmtilegan miðjupunkt sem fangar augað. Loftlistar gefa einnig hlýlegt yfirbragð en þeir minnka rýmið svo þeir eiga ekki alltaf við. Parketlistar eru almennt mjög hlutlausir en breiðir hvítir gólflistar eiga ágætlega við hvíttað parket og það birtir verulega yfir þegar þeir eru notaðir.

  Það er gaman að gera hversdaginn að hátíðisdegi með því að leggja diskamottur á borðið, diskana þar ofan á, þá fallega brotnar servíettur og skreyta allt með blómum, laufum eða skærlitum glösum með kertum í.

  Leggðu fallega á borð Litríkar diskamottur, servíettur og lifandi blóm eiga ekkert síður við á veturna en á sumrin. Margir pakka niður skærlitu glösunum, diskunum og servíettunum með útilegudótinu en það er ástæðulaust. Það er mjög gaman að gera hversdaginn að hátíðisdegi með því að leggja diskamottur á borðið, diskana þar ofan á, þá fallega brotnar servíettur og skreyta allt með blómum, laufum eða skærlitum glösum með kertum í.

  Litríkir púðar og teppi setja mikinn svip á öll rými.

  Teppi, púðar, mottur Litríkir púðar og teppi setja mikinn svip á öll rými. Það er gaman að eiga fleiri en eitt rúmteppi og skipta um eftir því í hvernig skapi menn eru. Fallegir púðar ofan á gefa svo notalega heildarmynd sem gaman er að virða fyrir sér. Litlar mottur á gólfið geta gert sama gagn og lyft annars hlutlausu rými í glaðlegt og fallegt herbergi.

  Skipulag Óreiða dregur orku úr öllum. Þótt margir kjósi að safna upp pappírum, bókum og fleiru allt í kringum sig í vinnu eða á heimilinu og segjast hafa yfirsýn yfir draslið hafa rannsóknir sýnt að svo er alls ekki. Mikill tími fer iðulega í leit hjá þeim óskipulögðu, þeir týna gögnum og eiga erfitt með að koma reiðu á hugsanir sínar innan um dótið. Skammdegið er góður tími til að fara yfir og laga til í skápum, skúffum, kirnum og geymslum. Körfur, bakkar og dallar eru góð leið til að fá yfirsýn yfir hvað er til í eldhússkápunum. Kassar og kistur nýtast vel í geymslum en þá er gott að merkja vel hvað er í þeim. Þarna felast einnig tækifæri til að veita birtu inn á heimilið því öll ílát má fá í björtum litum og nota litina til skipulagningar. Til að mynda velja sterku kryddi stað í rauðri körfu, mildari í grænni og koma þeim sem mest eru notuð fyrir í blárri.

  Skammdegið er góður tími til að koma skipulagi á óreiðuna.

  Höfundur / Steingerður Steinarsdóttir
  Myndir / www.pexels.com

  Lestu meira

  Engar færslur fundust.

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is