2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Bitastæðar bækur

  Veturinn er dýrðlegur tími fyrir bókaunnendur.

  Fjölskylduflækjur, gamlir atburðir hjúpaðir þögn og valdatafl í vinkvennahópi kemur við sögu í Morðið í leshringnum.

  Ofurlitlar sprænur byrja að leka í september, aukast og verða að ám í október, fljótum í nóvember og í desember skellur jólabókaflóðið á með fullum þunga. Í ár er óvenjulega margt bitastætt þar að finna.

  Kvennakraftur

  Saga þernunnar eftir Margaret Atwood kom nýverið út í nýrri þýðingu Birgittu Elínar Hassell. Magnea J. Matthíasdóttir þýddi bókina í fyrri útgáfunni og ristýrði þessari. Sagan er mögnuð og heldur lesandanum föstum. Margir njóta þess nú að horfa á sjónvarpsþættina en þótt þeir séu góðir er ekkert sem kemur í staðinn fyrir texta Margaretar Atwood og því eiginlega nauðsynlegt að gera hvort tveggja. Útg. Björt

  AUGLÝSING


  Óvenjulegt sjónarhorn

  Hnotskurn eftir Ian McEwan er athyglisverð saga, ekki hvað síst vegna þess að hún er sögð út frá sjónarhóli barns í móðurkviði. Höfundur sagði frá því í viðtali að hugmyndin hefði kviknað þegar hann sat að spjalli við ófríska tengdadóttur sína og hann fann skýrt fyrir návist ófædda barnsins. Ian er einn besti rithöfundur Breta um þessar mundir og hefur m.a. hlotið Booker-verðlaunin. Allt sem hann sendir frá sér er áhugavert og þessi bók er engin undantekning frá því. Útg. Neon

  Blaðamaður og mannþekkjari

  Í bókinni Sólhvörf grípur óhugnaður um sig eftir að börn taka að hverfa í Reykjavík.

  Morðið í leshringnum er þriðja bók Guðrúnar Guðlaugsdóttur um Ölmu blaðamann. Þetta er sú besta þeirra til þessa og persóna Ölmu verður sífellt skýrari og áhugaverðari. Að þessu sinni tekur hún tilneydd að sér að skrifa ævisögu Kamillu von Adelbert, þekktrar konu í viðskiptalífinu. Hún fær strax slæma tilfinningu gagnvart viðmælanda sínum og fljótlega kemur í ljós að margt býr að baki löngunar þeirrar konu til að segja sögu sína. Fjölskylduflækjur, gamlir atburðir hjúpaðir þögn og valdatafl í vinkvennahópi kemur hér einnig við sögu og úr verður spennandi og eftirtektarverð saga.  Útg. GPA

  Óhugnaður í skammdeginu

  Sólhvörf eftir Emil Hjörvar Petersen er hröð og spennandi saga. Vetur er og íslenska skammdegið ríkjandi og óhugnaður grípur um sig eftir að börn taka að hverfa í Reykjavík. Lögreglan kemst ekkert áfram með rannsókn sína en þegar fjórða barnið hverfur og faðir þess finnst myrtur virðist augljóst að yfirnáttúruleg öfl eiga hlut að máli. Hér duga engin vettlingatök og miðillinn Bergrún Búadóttir er sótt til að hjálpa. Mun hún ráða við verkefnið? Útg. Veröld

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is