Bjó fyrstu skartgripina til í bílskúrnum

Deila

- Auglýsing -

Lovísa Halldórsdóttir Olesen hefur vakið athygli fyrir sérstaka skartgripi.

Lovísa Halldórsdóttir Olesen leitast við að fanga augnablikið, tíðarandann og umbreyta honum í fallega skartgripi.

Íslenskir gullsmiðir eru frjór og skapandi hópur. Margir ferðamenn er hingað koma hafa orð á því hversu fjölbreytta og vandaða skartgripi er að finna í verslunum. Lovísa Halldórsdóttir Olesen er í hópi þessara högu handverksmanna og hefur á undanförnum árum verið að skapa sér vettvang með fínlega og eftirtektarverða skartgripi.

„Frá því að ég man eftir mér hef ég verið að teikna og hanna ýmislegt,“ segir Lovísa. „Ég byrjaði að búa til skartgripi í bílskúrnum hjá pabba úr allskyns efnum á unglingsárum svo að áhuginn hefur lengi verið til staðar. Ég lærði hér heima í Iðnskólanum í Reykjavík, námið er iðnnám og fer einnig mikið fram á verkstæði. Haukur Valdimarsson var meistarinn minn en ég útskrifaðist 2007.“

Í hönnun sinni og smíði leitast Lovísa við að fanga augnablikið, tíðarandann og umbreyta honum í fallega skartgripi. En ertu með verslun eða verkstæði? „Ég er með verkstæði og sel vörurnar mínar í verslunum í Reykjavík og á landsbyggðinni, einnig var ég að opna nýja heimasíðu www.bylovisa.com þar er einnig hægt að kaupa og skoða skartgripina mína.“

Sækir þú innblástur í eitthvað sérstakt? „Innblástur sæki ég víða, þó aðalega úr hversdagslífinu og því sem ég er að gera hverju sinni – ég horfi mikið á form og mynstur,“ segir Lovísa. „Ég fæ allskyns hugmyndir sem ég púsla svo saman.“

Nýlega setti hún á markað nýja vörulínu, hvernig lítur hún út og hver er hugmyndin á bak við hana? „Nýja línan mín heitir Unicorn, always be yourself, unless you can be a unicorn, then always be a unicorn eða Einhyrningur, vertu ávallt þú sjálfur nema þú getir verið einhyrningur þá skaltu alltaf gerast einhyrningur. Í henni eru einhyrningshorn mjög áberandi – þeir sem þekkja mig vel hlógu þegar þeir sáu hvað var í vændum því mér finnst einhyrningar æði. Saga þeirra er svo ævintýralega heillandi og um leið dularfull svo ég ákvað að smíða skartgripalínu tengda því – nýja línan er úr bronsi og oxideruðu silfri.“

Þeir sem hafa áhuga á að vera einhyrningar eða láta reyna á verndarkraft þeirra geta kynnt sér nýju línuna á heimasíðunni og á Facebook.

Texti / Steingerður Steinarsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

- Advertisement -

Athugasemdir