Fimmtudagur 25. apríl, 2024
9.8 C
Reykjavik

„Bjóst ekki við að móðureðlið væri svona sterkt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

CrossFit-stjarnan Annie Mist Þórisdóttir eignaðist dóttur á dögunum og greindi frá gleðifregnunum á samfélagsmiðlum. Fæðingin sjálf gekk þó ekki áfallalaust fyrir sig. Hún var löng og erfið og Annie missti meira en tvo lítra af blóði. Sjálf segir Annie að fæðingin sé með því erfiðara sem hún hafi upplifað á ævinni og fram undan sé löng endurhæfing. Foreldrahlutverkið sé hins vegar yndislegt. Hana hafi ekki órað fyrir að hún gæti elskað nokkra manneskju jafnmikið og dóttur sína sem hún myndi gera allt fyrir.

Nýbökuð móðir og afrekskona í CrossFit – Annie Mist hefur unnið crossfit-heimsleikana tvisvar sinnum og tvisvar lent í öðru sæti. Nýverið eignaðist hún sitt fyrsta barn og er nú byjuð að æfa fyrir heimsleikana 2021. Mynd / Aðsend

„Þetta var ekki beint fæðingin sem mig hafði dreymt,“ játar Annie fúslega, þegar hún er spurð hvernig líðan hennar sé nú þegar meira en hálfur mánuður er liðinn síðan hún eignaðist dóttur sína. „Hún var mjög erfið, ég missti mikið blóð og það var ótrúlega erfitt að geta ekki séð um dóttur okkar þarna fyrst á eftir. En núna líður mér bara vel og okkur fjölskyldunni. Já, ég hef það bara ágætt,“ segir hún.

„Fólk segir að maður geri sér ekki grein fyrir því hvernig er að eignast barn fyrr en það kemur að því og veistu, það er alveg rétt!“

Dóttir Annie kom í heiminn þann 10. ágúst. Þetta er fyrsta barn Annie og unnusta hennar, Frederiks Aeigidius. Frederik einn af fremstu íþróttamönnum í CrossFit í heiminum og hefur fimm sinnum keppt á heimsleikunum í CrossFit. Þau Annie hafa verið par í 10 ár og tilkynntu í febrúar að þau ættu von á barni í ágúst. Þau hafa stutt dyggilega við bakið á hvort öðru og Frederik staðið fast við hlið konu sinnar. „Hann hefur verið með mér í þessu alla leið,“ lýsir Annie glaðlega, þegar unnustinn berst í tal. „Við erum gott teymi.“

Sársaukafull fæðing

Fæðing Annie var sett 5. ágúst en dóttirin var hins vegar ekkert að flýta sér í heiminn. Þremur dögum eftir settan dag, laugardaginn 8. ágúst, segist Annie hafa vaknað upp við mjög sársaukafulla samrætti snemma um morguninn og að kvöldi sama dags hafi hún ekki þorað annað en að fara á spítalann. Þá var vatnið farið og fylgjast þurfti vel með heilsu barns og móður. Á spítalanum fékk Annie verkjalyf til að geta sofið en vegna hertra reglna í tenglsum við kórónuveiruna mátti Frederik ekki vera hjá henni á fæðingardeildinni til að byrja með. Næsta dag fékk hann leyfi til þess og þá kom í ljós að ekki var allt með felldu. Barnið snéri ekki rétt, þar að segja höfuðið snéri út á hlið en slíkt getur gert það að verkum að leiðin niður fæðingarveginn er ekki jafngreið og börnin geta fests í grindinni. Annie segir þau hafa vonað að barnið snéri sér. Starfsfólkið hafi reynt að snúa því. Án árangurs. Því var ekki annað í stöðunni en að bruna á skurðstofuna.

Hrædd um líf dóttur sinnar

- Auglýsing -

Fjórir heilbrigðisstarfsmenn héldu Annie á meðan hún rembdist og það tók hana hvorki meira né minna en fimm tilraunir með aðstoð sogklukku til að koma barninu í heiminn. Frederik greindi frá því á samfélagsmiðlum að hann hefði ósjaldan séð Annie sýna styrk, eins og á CrossFit-heimsleikunum þar sem hún hefur náð langt í gegnum tíðina, en hann ætti ekki orð yfir styrkinn Annie sem sýndi þegar hún fæddi barn þeirra. Ekkert toppaði það.

Sjálf segir Annie að fyrstu mínúturnar eftir að dóttirin fæddist hafi barnið ekki gefið frá sér eitt einasta hljóð. Það hafi verið erfiðustu mínútur sem hún hafi upplifað. Svo allt í einu hafi heyrst rosalegur grátur og þá hafi hún varpað öndinni léttar.

Dóttirin var 3.904 grömm þegar hún fæddist og 54 sentímetrar og er alheilbrigð að sögn Annie. „Hún var stór og sterk þegar hún fæddist og komin yfir fæðingarþynd á innan við viku. Þannig að hún dafnar mjög vel og er heilbrigð og fullkomin og bara alveg yndisleg í alla staði.“

- Auglýsing -

Ekki lengur við stjórnvöllinn

Aðspurð viðurkennir Annie að það séu heilmikil viðbrigði að verða foreldri. „Auðvitað breytist allt þegar barn kemur í heiminn. Fólk segir að maður geri sér ekki grein fyrir því hvernig er að eignast barn fyrr en það kemur að því og veistu, það er alveg rétt!

Ég er til dæmis atvinnumanneskja í þróttum þar sem allt gengur út á að stýra sínum degi, sem má svo sem alveg segja að séu ákveðin forréttindi, en nú er ég ekki lengur við stjórnvöllinn því allt í einu er þessi nýja manneskja komin inn í mitt líf og hún stjórnar bara. Það er til dæmis hlutur sem ég sá ekki alveg fyrir þegar við fórum af stað í þessu ferli og ansi stór breyting fyrir manneskju eins og mig sem er vön því að hafa frekar mikla stjórn á aðstæðum,“ segir hún og hlær.

Týndi sjálfri sér á tímabili

Annie segir að foreldrahlutverkinu fylgi líka ýmsar áskoranir. „Í mínu tilfelli er svefninn sú stærsta,“ segir hún og brosir. „Ég hef alltaf þurft átta tíma svefn að lágmarki og alveg getað stýrt honum sjálf. Ef ég missti til dæmis svefn eina nótt þá bætti ég mér það bara upp næstu nótt, það var ekki flóknara.

Það breyttist hins vegar snarlega eftir að dóttir okkar kom í heiminn og sérstaklega fyrst eftir þessa erfiðu fæðingu. Þá var ég sífellt að athuga hvort það væri í lagi með barnið og var orðin algjörlega svefnlaus á tímabili og týndi sjálfri mér svolítið.

Þetta er fyrsta barn Annie og unnusta hennar, Frederiks Aeigidius. Þau hafa stutt dyggilega við bakið á hvort öðru og Frederik staðið fast við hlið konu sinnar. „Hann hefur verið með mér í þessu alla leið,“ lýsir Annie glaðlega. „Við erum gott teymi.“

En nú er ég farin að ná því að sofa í fimm tíma á nóttunni og er í fyrsta sinn farin að skilja fólk sem segir að maður geti komist af með lítinn svefn því ég er komin upp á lagið með að þurfa ekki mikið meira en fimm tíma svefn og þrátt fyrir það er ég bara alveg ágæt.“ Hún hlær.

Skilyrðislaus ást

Spurð hvort eitthvað hafi komið á óvart í þessu öllu er hún ekki lengi að hugsa sig um. „Það sem kemur mér svolítið á óvart er þessi svakalega verndartilfinning sem maður finnur fyrir,“ segir hún. „Allt í einu ber maður ábyrgð á öðrum einstaklingi, þessu yndislega litla barni og maður hreinlega stekkur til ef maður heldur að því sé illt í maganum eða eitthvað annað ami að til að ganga úr skugga um að það sé í lagi með það.

„Það sem kemur svolítið á óvart er þessi svakalega verndartilfinning sem maður finnur fyrir.“

Ég viðurkenni að ég bjóst ekki við að móðureðlið væri svona sterkt,“ segir hún hreinskilin. „Að maður gæti elskað aðra manneskju svona ofboðslega mikið og svona skilyrðislaust,“ heldur hún áfram og leggur áherslu á hvert orð. „Ég myndi gera allt fyrir þessa litlu manneskju, ég elska hana svo heitt.“

Ætlaði ekki að bæta á sig verkefnum

Foreldrahlutverkið er þó ekki eina hlutverkið sem Annie er að fóta sig í um þessar mundir því á dögunum var hún valin í fyrsta íþróttamannaráð CrossFit-samtakanna, Athlete Advisory Council. Spurð hvernig tilfinning sé að hafa verið boðið það starf, hvort það sé ekki viss heiður, svarar hún „já og nei“. „Auðvitað er gaman að þeir skyldu hafa samband, en ef ég á að vera hreinskilin þá ætlaði ég mér ekki að taka meira að mér í bili. Ég er nýbúin að eignast barn og það er mikið í gangi hjá mér í CrossiFit-heiminum núna; ég rek mína eigin stöð, CrossFit Reykjavík, er að koma mér aftur í keppnisform og hef staðið fyrir CrossFit-mótum þannig að ég er að sinna svolítið mörgum hlutverkum,“ útskýrir hún.

„En það sem ég er hins vegar ánægð með og í raun ánægðust með er að þeir skuli hafa stofnað þetta ráð með það fyrir augum að bæta aðstæður okkar CrossFit-fólks. Mér finnst það sýna að þeir séu að hlusta á okkur,“ segir Annie, sem hefur einmitt verið óhrædd að gagnrýna samtökin fyrir eitt og annað í gegnum tíðina og benda á hvað betur megi fara.

Tækifæri sem hún gat ekki hafnað

Annie segir að helst hefði hún viljað að í þessu nýja ráði sæti fulltrúi úr sambandinu Professional Fitness Athlete Association, PFAA, sem hún og fleira afreksfólk í CrossFit-heiminum stofnuðu, en markmið þess er að berjast fyrir réttindum CrossFit-fólks og bæta keppnisumhverfið og allt utanumhald, efla lyfjaprófanir, tryggja öryggi keppenda og fleira.

Annie segir að foreldrahlutverkinu fylgi líka ýmsar áskoranir. Hún sé heppin að eiga góða að. Mynd / Aðsend

„Ég geri mér hins vegar grein fyrir að auðvitað er of stuttur tími til að taka öll þessi atriði til skoðunar fyrir heimsleikana, þeir eru jú bara eftir þrjár vikur. En þetta er skref í áttina. Það finnst mér skipta máli. Og að sjálfsögðu sagði ég já þegar þeir buðu mér sæti í ráðinu því þetta sport hefur gríðarlega mikla þýðingu fyrir mig og ég vil leggja mitt af mörkum svo að hlutirnir haldi áfram að þróast í rétta átt. Fyrir utan að það hittist þannig á að ég er ekki að fara að keppa, þar sem ég er nýbúin að eignast barn og get því tekið þetta hlutverk að mér þótt það sé, eins og ég segi, búið að vera svolítið mikið að gera hjá mér að undanförnu.“

Spennt fyrir framhaldinu

En út á hvað gengur hlutverkið nákvæmlega? „Ráðið samanstendur af þremur reyndum íþróttamönnum fyrir utan mig og okkar hlutverk verður að tala máli íþróttafólksins sjálfs og nýta sér okkar reynslubanka. Tilgangur ráðsins er sem sagt að hjálpa til við ákvörðunartöku CrossFit-samtakanna. Þannig að ég verð þarna í ráðgjafarhlutverki, en hef ekkert úrslitavald. Vonandi bara taka þeir sem mest mark á okkur.

Við erum þegar búin að funda nokkrum sinnum þar sem við höfum farið yfir ákveðna hluti og hvort við séum sátt við þá. Þeir fundir hafa bara gengið nokkuð vel og útlit fyrir að þeir hjá samtökunum ætli að hlusta á okkur. Ef það verður raunin og þetta er sú leið sem þeir ætla að fara þá er ég mjög spennt fyrir framhaldinu,“ segir Annie en tekur þó skýrt fram að þetta sé ekki hlutverk sem hún ætli sér að gegna til lengri tíma.

„Nei, ég hugsa að ég verði ekki lengur en út desember. Það er ólíklegt að ég verði áfram eftir það því ég ætla mér að keppa aftur 2021 og má þá ekki sitja í ráðinu það ár, en hver veit hvað gerist eftir það.“

Byrjuð að æfa

Annie æfði alla níu mánuði meðgöngunnar. Aðlagaði æfingarnar aðstæðum og tók sér svo hlé eftir fæðingu. Nú er hún byrjuð að „æfa“ á nýjan leik og segist vera að vinna í því að koma sér aftur í form fyrir heimsmeistarakeppnina árið 2021.

„Já, ég er farin að taka smáæfingar til að koma líkamanum aftur í gang en það er mjög takmarkað sem ég get gert eins og er. Ég lít á þetta sem meiðsli og þarf að passa mig á því að jafna mig almennilega. Gefa mér tíma í það. Ég er nefnilega ekki alveg búin að jafna mig eftir fæðinguna,“ viðurkennir hún, „og ég veit að hluti ástæðunnar er blóðmissirinn og allt álagið á líkamann.

„Ég er nefnilega ekki alveg búin að jafna mig eftir fæðinguna og ég veit að hluti ástæðunnar er blóðmissirinn og allt álagið á líkamann.“

En, ég finn mun á hverjum degi,“ segir hún brött. „Þetta er allt að koma, smátt og smátt. Ég veit bara að tekur mig tíma að ná mér aftur á strik og geta lyft almennilega. Ég veit að ég verð aftur eins og ég á að mér að vera. Ég þarf bara að vera svolítið þolinmóð, sem er ekki alveg mín sterka hlið.“ Hún hlær.

Óendanlega þakklát fyrir allt

En hvernig heldur hún að það gangi að sinna þessu öllu, stöðinni, ferlinum, nýja ráðgjafarstarfinu og auðvitað móðurhlutverkinu – er hún ekkert hrædd um að færast of mikið í fang?

„Nei, mér finnst gott að hafa mikið að gera, ég hef gaman af því. Ég hef alltaf verið mjög skipulögð. Skipulegg daginn vel og hef góða rútínu. Nú snýst lífið um þá litlu, sem er stórkostlegt. Maðurinn minn er með mér í þessu og við hjálpumst að. Þannig að nei, ég hef ekki miklar áhyggjur af því að færast of mikið í fang, alls ekki.

Fyrir utan það erum við svo lánsöm að vera með ofboðslega gott fólk í kringum okkur, fjölskyldu og vini sem hafa hjálpað til og létt undir með okkur. Sérstaklega fyrst eftir fæðinguna þegar ég hafði ekki fullan kraft til að sinna sjálfri mér og hugsa um dóttur okkar en þá kom mamma og aðstoðaði mig andlega og líkamlega á hverjum einasta degi.

Ég er því rosalega þakklát og bara þakklát fyrir allt saman. Þessa yndislegu dóttur sem ég elska meira en allt og fólkið mitt. Það er ekki hægt að biðja um meira.“

„Ég viðurkenni að ég bjóst ekki við að móðureðlið væri svona sterkt,“ segir Annie hreinskilin. Mynd / Aðsend

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -