2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Breyttar neysluvenjur geta bætt lífsgæðin

  Smávægilegar breytingar á neysluvenjum geta leitt til aukinna lífsgæða.

  Að láta enda ná saman getur reynst mörgum erfitt og ekki er í öllum tilfellum um að ræða fólk sem lægstar hefur tekjurnar. Sumir eru einfaldlega þannig að þeim helst illa á peningum. Með nokkrum léttvægum breytingum á neysluvenjum er hægt að nýta launin betur og njóta meiri lífsgæða.

  Með skipulagi og eftirfylgni má auðveldlega minnka matarsóun.

  Hættu allri sóun
  Matarsóun er mikil í nútímasamfélagi en auðveldlega má minnka hana mikið og jafnvel koma alveg í veg fyrir hana með skipulagi og eftirfylgni. Byrjaðu á að ákveða matseðil fyrir vikuna og gera innkaupalista. Þá er minni hætta á að þú kaupir óþarfa og eitthvað sé keypt og ekki notað.

  Skrifaðu lista
  Gerðu lista yfir þann mat sem þú hendir á einum mánuði. Þegar þú sérð hvað það er sem oftast fer í tunnuna er auðveldara að ná stjórn á sóuninni.

  AUGLÝSING


  Ísskápstiltekt
  Farðu reglulega í gegnum ísskápinn og notaðu það sem er komið nálægt síðasta söludegi. Það er um að gera að nota sköpunargáfuna og stundum verða til nýir uppáhaldsréttir fjölskyldunnar í slíkri tiltekt.

  Nýttu hilluplássið
  Skipuleggðu skápana þína þannig að þú hafir góða yfirsýn yfir hvað er til. Raðaðu nýjum vörum alltaf aftast svo tryggt sé að það elsta sé sýnilegast og aðgengilegast.

  Afgangadagar
  Gott er að hafa afgangadag einu sinni í viku og nota þá allt sem safnast hefur upp. Þetta getur orðið mjög fjölbreytt og skemmtilega samsett máltíð.

  Ekki kaupa of mikið
  Aldrei freistast til að kaupa of mikið þótt hlutirnir séu á tilboði. Það er alltaf dýrara að henda en að kaupa það magn sem mann vantar fullu verði. Matur sem lendir í ruslinu skapar um það bil 19 tonn af mengandi gösum árlega og stækkar gatið í ósonlaginu. Að meðaltali hendir hver manneskja á jörðinni eigin líkamsþyngd af rusli á dag.

  Þeir sem eru sniðugir að sauma geta nýtt efnið til að búa til alveg nýja flík.

  Nýttu
  Allt má nýta. Hvítlaukur geymist ágætlega í olíu, ávexti sem eru að byrja að skemmast má frysta, sulta eða sjóða niður. Soð, súpur og sósur er hægt að frysta og nýta sem uppistöðu í nýjar og kryddjurtir má einnig frysta. Þá er gott að saxa þær niður og frysta í klakaformi með vatni. Þannig er hægt að taka einn klaka og setja út í soð þegar verið að búa til rétti. Gera má brauðmola eða brauðrasp úr afgangsbrauði, rífa niður síðasta bitann af ostinum og hræra niðursneidda ávexti saman við jógúrt eða skyr og frysta. Þá er kominn hollur og góður ís handa krökkunum.

  Endurnýttu
  Hægt er að endurnýta og endurskapa fatnað á margan hátt. Þeir sem eru sniðugir að sauma geta nýtt efnið til að búa til alveg nýja flík. Hinir gætu leitað til saumakvenna sem breyta fatnaði og fengið þær í lið með sér. Stundum er hægt að stytta, taka ermar af, búa til kvartbuxur úr síðbuxum og fleira. Gefa má gömlum húsgögnum og skrautmunum andlitslyftingu með ofurlítilli málningu og velja þeim annað hlutverk á heimilinu. Það má líka koma upp skiptimarkaði í vinkvennahópnum þar sem skipst er á bæði barnafötum og fatnaði fyrir fullorðna. Ef vel tekst til er hægt að útfæra hugmyndina og koma á fót slíkum mörkuðum þar sem boðið er upp á t.d. leikföng, búsáhöld, bækur og húsgögn.

  Texti / Steingerður Steinarsdóttir

  Ekki missa af þessum

  Engar færslur fundust.

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is