2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Brönsinn, besta máltíðin

  Sambland hádegis- og morgunverðar sem hentar nútímalífsstíl  vel.

  Bröns eða „brunch“ er máltíð sem Íslendingar snæddu ekki fyrr en langt var liðið á tuttugustu öld. Þetta sambland hádegis- og morgunverðar er einkar notalegt og hentar lífsstíl nútímamanna mjög vel.

  En þótt flestum finnist þetta einstaklega nútímalegt og „trendí“ er það samt svo að fólk hefur fengið sér bröns frá aldaöðli. Einkum voru það þeir sem tilheyrðu efri stéttum þjóðfélagsins sem leyfðu sér að lúra fram eftir þegar samkvæmislífið stóð í hvað mestum blóma og settust síðan að brönsinum eftir að hafa sofið út. Á áttunda áratug síðustu aldar komst það hins vegar í tísku að rísa ekki úr rekkju fyrr en í fyrsta lagi ellefu á sunnudagsmorgni og setjast þá að hlöðnu borði kræsinga í stað sunnudagssteikarinnar.

  Egg Benedict
  Egg Benedict eru einn þeirra rétta sem hafa verið óskaplega vinsælir á brönsborðinu en nokkrar útgáfur eru til af þessum rétti.

  4 sneiðar ristað brauð (hefðbundin botn er ensk múffa)
  4 egg
  1 pk. Hollandaise-sósa

  AUGLÝSING


  Egg Benedict eru einn þeirra rétta sem hafa verið óskaplega vinsælir á brönsborðinu en nokkrar útgáfur eru til af þessum rétti.

  Eggin eru brotin ofan í vatn sem er aðeins farið að senda upp loftbólur en ekki bullsjóða og látin liggja í þrjár mínútur. Hollandaise-sósan er hrærð út í potti eftir leiðbeiningum á pakkanum, eitt egg sett á hverja brauðsneið og tvær matskeiðar af sósunni yfir. Þeir sem vilja taka þetta alla leið geta gert sósuna sjálfir og bakað enska múffu.

  Hollandaise-sósa
  2 eggjarauður
  1 tsk. kalt vatn
  1 tsk. sítrónusafi
  200 g brætt smjör
  salt og nýmalaður pipar

  Ensk múffa
  1 bolli mjólk
  2 tsk. sykur
  1 pakki þurrger
  1 bolli volgt vatn
  ¼ bolli brætt smjör
  6 bollar hveiti
  1 tsk. salt

  Mjólkin er hituð þar til loftbólur eru teknar að myndast í henni en er þá tekin af hellunni og sykrinum blandað saman við. Hún er síðan kæld þar til hún er orðin moðvolg. Best að mæla það með því að stinga fingrinum ofan í hana, ef þú brennir þig ekki en finnur þægilegan yl er hún eins og hún á að vera. Leysið gerið upp í volga vatninu og látið það standa þar til það er orðið eins og gráleitur rjómi í útliti. Blandið í mjólkina 3 bollum af hveiti, brædda smjörinu og gerinu í stórri skál. Hnoðið þar til allt loðir vel saman, bætið þá restinni af hveitinu og saltinu saman við og hnoðið saman. Breiðið hreint klæði yfir skálina og leyfið deiginu að lyfta sér í um það bil hálftíma. Berjið þá niður deigið, hnoðið aftur og breiðið út á borði. Hafið deigið um það bil tveggja sentímetra þykkt og skerið út kökur með vatnsglasi eða krukkuloki. Bakið kökurnar á þurri viðloðunarfrírri pönnu við meðalhita þar til þær eru orðnar gullinbrúnar á báðum hliðum. Um það bil tíu mínútur á hvorri hlið.

  ______________________________________________________________

  Fyllt egg eða deviled eggs eins og þetta heitir á ensku.

  Fyllt egg
  Annar eggjaréttur sem hefur notið mikilla vinsælda á brönsborðinu er fyllt egg eða deviled eggs eins og hann heitir á ensku. Þau eru einstaklega falleg og hægt er að fylla þau með ýmsu góðgæti.

  Fyllt egg
  12 harðsoðin egg
  1 lítil dós majónes
  1-2 msk. Dijon-sinnep
  saxaðar kryddjurtir eftir smekk

  Sjóðið eggin, hreinsið skurnina utan af þeim og skerið í tvennt. Takið rauðurnar úr og hrærið þær saman við majónesið í skál. Hrærið sinnepinu saman við og fyllið síðan eggjahvíturnar með blöndunni, annaðhvort með skeið eða úr sprautupoka. Stráið söxuðum kryddjurtum yfir. Algengt er að nota steinselju, kóríander, basil eða aðrar blaðfallegar kryddjurtir. Í raun fer það eftir bragðlaukum hvers og eins. Sumir kjósa fremur að strá t.d. kavíar yfir fyllinguna og það kemur mjög vel út líka. Margir nota einnig rjómaost í stað majónes og hægt er að hræra margt annað en sinnep saman við, t.d. sólþurrkuðum tómötum, ansjósum, gaffalbitum af síld, beikonbitum, chorizo-pylsubitum, reyktum laxi og fleiru. Það er einnig mjög gott að nota gríska jógúrt eða alioli-majónes, þ.e. hvítlauksmajónes.

  ______________________________________________________________

  Smjörhorn
  Croissants eða smjörhorn eru upphaflega franskur réttur. Þau eru einstaklega létt og ótrúlega bragðgóð en samt sérlega seðjandi. Á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar fóru smjörhornin að breiðast út um heiminn. Menn uppgötvuðu um svipað leyti að auðvelt er að frysta þau og grípa upp úr kistunni og baka þegar hentar. Smjörhorn er líka auðvelt að fylla með osti, sveppum, skinku eða öðru áður en þau eru bökuð.

  Croissants eða smjörhorn eru upphaflega franskur réttur. Þau eru einstaklega létt og ótrúlega bragðgóð en samt sérlega seðjandi.

  Smjörhorn

  4 bollar hveiti
  ½ bolli + 2 msk. kalt vatn
  ½ bolli mjólk
  ¼ bolli + 2 msk. sykur
  3 msk. mjúkt smjör
  1 ½ msk. þurrger
  2 ¼ msk. salt

  Ofan á:
  70 g ískalt smjör
  1 egg
  3 msk. mjólk

  Blandið öllum innihaldsefnunum saman í skál og hnoðið þar til deigið er orðið mjúkt og loðir vel saman. Það er alveg óhætt að hnoða þetta í hrærivél en þá aðeins á litlum hraða í þrjár mínútur. Stráið ofurlitlu hveiti yfir disk eða skál og komið deiginu fyrir ofan á því. Stráið hveiti yfir, klæðið með plastfilmu og geymið í ísskáp yfir nótt. Daginn eftir er deigið tekið fram, breitt út og skorið í hringi með stórum disk. Síðan er hringurinn skorinn í fjóra til átta hluta og rúllað upp í horn. Takið síðan fram stykki af ísköldu smjöri. Skerið með ostahníf örþunnar skífur ofan af smjörinu og leggið eina ofan á hvert horn eftir að þau hafa verið búin til. Pískið sundur eggið með mjólkinni og penslið ofan á hornin. Bakað við 180°C þar til hornin eru gullinbrún að ofan.

  ______________________________________________________________

  Súkkulaðitrufflur eru einstaklega fallegar og góðar til að ljúka notalegri samverustund.

  Súkkulaðitrufflur
  Sú venja hefur skapast að bjóða einnig upp á eitthvað sætt með kaffinu eftir að menn hafa gætt sér á brönsréttunum. Súkkulaðitrufflur eru einstaklega fallegar og góðar til að ljúka notalegri samverustund. Árið 1973 hóf Alice Medrich að búa til og selja súkkulaðitrufflur heiman frá sér í Berkeley í Kaliforníu. Hún var einstakur sælkerakokkur og kunni öðrum fremur að fara með súkkulaði. Síðar opnaði hún eigið fyrirtæki og seldi alls konar súkkulaðirétti sem voru lostæti. Trufflurnar eru mjög hentugar því þær má gera mörgum dögum áður og geyma í frysti þar til á að nota þær.

  Trufflur
  300 g dökkt súkkulaði
  300 ml rjómi
  50 g smjör
  líkjör eða annað áfengi (má sleppa)
  kókosmjöl, hnetukurl, kakóduft

  Skerið súkkulaðið í bita og setjið í skál. Hitið rjómann og smjörið í potti þar til smjörið er bráðið og rjóminn kominn að suðumarki. Hellið blöndunni þá yfir súkkulaðið í skálinni og hrærið í þar til þetta er orðið að þykkri blöndu. Margir kjósa að blanda líkjörum eða öðru áfengi saman við og þá er skemmtilegt að skipta upp trufflublöndunni og búa til nokkrar mismunandi útgáfur. Þegar það er búið er deigið tekið með skeið upp og rúllað í litlar kúlur. Þeim er síðan velt upp úr kakói, hnetukurli eða kókosmjöli og settar á smjörpappír. Kælið í ísskáp eða frystið.

  ______________________________________________________________

  Mörgum finnst egg og beikon ómissandi hluti af brönsinum. Það getur hins vegar verið erfitt að halda steiktum eggjum og beikonsneiðum heitum án þess að réttirnir verði ólystugir. Góð leið fram hjá þessu er að gera spænska ommelettu í ofni.

  Spænsk ommeletta
  Mörgum finnst egg og beikon ómissandi hluti af brönsinum. Það getur hins vegar verið erfitt þegar margir koma saman að steikja handa öllum og erfitt að halda steiktum eggjum og beikonsneiðum heitum án þess að réttirnir verði ólystugir. Góð leið fram hjá þessu er að gera spænska ommelettu í ofni með beikonbitum og að auki frábær leið til að nýta afgangskartöflur.

  500 g soðnar kartöflur
  1 gulur laukur
  6-8 sneiðar beikon (mjög gott ef hægt er að fá óskorið beikon og skera í bita)
  3 msk. söxuð steinselja (má sleppa og nota annað krydd)
  6 egg

  Afhýðið kartöflurnar og skerið í þunnar sneiðar og beikonið í ræmur. Saxið laukinn og steikið hann og beikonið á pönnu þar til laukurinn er mjúkur og beikonið gegnumsteikt. Bætið þá kartöflunum við og hitið þær aðeins. Sláið eggin sundur með gaffli í stórri skál, blandið síðan blöndunni af pönnunni saman við. Hellið í eldfast mót (gott að smyrja það aðeins að innan með olíu eða smjöri) og bakið þar til eggin eru gullinbrún að ofan og elduð í gegn. Margir kjósa að bæta rifnum osti út í þennan rétt og nota bragðmikla skinku í stað beikons.

  Höfundur / Steingerður Steinarsdóttir
  Myndir / www.pexels.com

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is