2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Byggir upp óbrjótanlegt sjálf

  Nýlega birtust fréttir af því í heimspressunni að í víkingahaugi hafi legið kona með sverðum sínum og vopnum. Þar með var það staðfest að formæður okkar börðust við hlið karla sinna. Kannski kom þetta norrænum konum ekkert sérlega á óvart í það minnsta hafa þær sjaldan hlíft sér. Á þessum arfi byggir Svava Sigbertsdóttir líkamsræktarkerfi sitt, The Viking Method. Hún er einkaþjálfari nokkurra stórstjarna og nýlega kom út bók um prógrammið hennar hjá Penguin.

  The Viking Method er í senn þjálfunar- og lífsstílsprógramm og snýst að sögn Svövu meira um að líða á ákveðinn hátt en að líta vel út. Hún sinnir fjarþjálfun um allan heim í gegnum Netið og meðal viðskiptavina hennar eru Nicole Scherzinger og Amanda Holden. Svava er búsett í London en hvenær flutti hún þangað og hvers vegna?

  „Ég flutti til London haustið 2004 til að fara í nám í leikhúslistum,“ segir hún. „Fjórum árum síðar var ég komin með diploma í þeim fræðum og BA-gráðu í leiklist. Eftir að ég kláraði fann ég að þetta var ekki það sem ég vildi vinna við. Mig langaði að starfa meira með fólki og meira við hreyfingu. Svo ég fór aftur í nám og tók einkaþjálfarann, næringarfræði og fékk jógakennararéttindi.

  Ég hef verið í íþróttum allt mitt líf, alltaf æft, líka þegar ég var í leikhúsalistanáminu þá var dans eitt af aðalfögunum, svo ég var dansandi í um það bil sex tíma á dag. Og í gegnum allt sem ég hef gert, þá hafði ég aldrei fundið eitt prógramm sem gaf mér allt sem ég vildi í sambandi við líkamasþjálfun það er; snerpu, liðleika, kraft, hraða, styrk og ákveðið tónað vöðvaútlit og auk þess sem ég vildi fá andlega vellíðan, sjálfsöryggi og sjálfstraust. Í raun óbrjótanlegt sjálf fullt af þrautseigju og innri ró. Þegar ég hóf svo sjálf að vinna við að þjálfa fólk byrjaði ég að setja saman The Viking Method-prógrammið en markmiðið með því var að skapa alhliða sjálfsrækt sem myndi sameina alla þessa þætti.“

  Byrjar innan frá

  AUGLÝSING


  Að hvaða leyti er þitt prógramm frábrugðið öðrum?

  „Flest líkamsræktarprógrömm miðast eingöngu við líkamann. Allt snýst um æfingar og næringu en mikilvægasta þættinum er alveg sleppt, nefnilega þínu andlega ástandi. Hvernig þú ert í raun, hvernig þú hugsar, hvernig þú sérð sjálfan þig, hvað þér finnst þú geta gert og ekki gert, stjórnar öllu. Flestir vita að mestu leyti hvað þeir eiga að gera til að komast í gott form en koma sér ekki af stað eða byrja en gefast svo fljótt upp. Þetta er fyrst og fremst vegna þess að þá vantar að styrkja sig andlega. Og það er það sem víkingaaðferðin mín gerir.

  The Viking Method er prógramm sem byrjar innan frá, byrjar á að styrkja andlega líðan þína og vinnur svo út frá því. Upphafið er þríþætt; Think Like a Viking, Train Like a Viking og Eat Like a Viking. Að hugsa eins og Víkingur felst í ákveðnum möntrum sem eru hafðar yfir og breyttum hugsunarhætti. Til dæmis er skipt út niðurrifshugsunum um sjálfan sig og þeim breytt í hugsanir sem byggja upp sjálfið. Hætt er að lifa í fortíðinni og draga með sér gamla drauga, fyrri vonbrigði og neikvæða reynslu, það skiptir engu máli hvað þú gerðir og gerðir ekki áður, það eina sem skiptir máli er hvað þú gerir núna. Við aðskiljum líka hver við erum og hvað við gerum, en þá átta menn sig á því að þegar eitthvað er ekki nógu gott, þýðir það ekki að við séum ekki nógu góð. Og vegna þess að slíkur aðskilnaður tekur burt samasemmerki milli sjálfsins og mistaka getum við sagt: „Okei, þetta var ekki nógu gott. Hvað get ég lært af því? Hvað þarf ég að bæta og hvað gera öðruvísi?“ Og svo gerum við það. Það er ekkert væl yfir því að við séum ekki nógu góð. Við erum alltaf nógu góð. Við þurfum eingöngu að breyta hegðun okkar og einfaldlega gerum það,“ segir Svava.

  Engin tæki 

  „Að þjálfa eins og Víkingur felst í sérstökum „functional“-æfingum sem fókusa á að koma líkama þínum í allra besta alhliðaástand sem hann getur verið í,“ heldur hún áfram. „Engin tæki notuð, aðeins handlóð og sippuband. Mikil áhersla er lögð á réttar kviðvöðvaæfingar. Það er vegna þess að kviðvöðvarnir eru tengivöðvar og það á að æfa þá sem slíka. Einnig er lagt upp úr að þjálfa jafnvægi, snerpu og kraft á allan þann hátt sem mögulegt er. Æfingarnar eru settar upp á ákveðinn hátt sem eykur fitubrennslu líkamans og styrkir og tónar vöðvana á sama tíma.

  „Engin tæki notuð, aðeins handlóð og sippuband. Mikil áhersla er lögð á réttar kviðvöðvaæfingar,“ segir Svava.

  Að borða eins og Víkingur felst í góðu, hollu, einföldu matarræði. Uppskriftirnar eru auðveldar að fara eftir. Lífið er alveg nógu flókið til þess að gott sé að vera laus við að þurfa spá í einhverjar flóknar máltíðir. Plöntu- og dýraprótín, góða fitan og hollu kolvetnin notum við, það eina sem við tökum út eru mjólkurafurðir þar sem þær stuðla að beinþynningu, bólgum, hormónaójafnvægi og sjúkdómum eins og krabbameini.

  „Nú og svo snýst stór hluti af prógramminu mínum um að þú sért ábyrgur fyrir eigin lífi og öllu sem gerist, þannig að langi þig í köku færðu þér bara köku, sama hvaða dagur er.“

  Það eru heldur engir svokallaðir nammidagar eða „cheat days“. Mér finnst það fáránlegt hugtak og varpa svo neikvæðni ljósi á þann góða holla mat sem þú ert að borða eða að þú sért að pína þig í gegnum það að borða hollan mat alla vikuna til að fá þín verðlaun á sunnudeginum þegar þú loksins færð að borða það sem þú vilt. Allur matur í The Viking Method er það góður að þú þarft engan „cheat day“. Nú og svo snýst stór hluti af prógramminu mínum um að þú sért ábyrgur fyrir eigin lífi og öllu sem gerist, þannig að langi þig í köku færðu þér bara köku, sama hvaða dagur er. Og þú þarft engan annan til að segja þér að þú megir.“

  Þjálfar fólk um allan heim

  Stór hluti starfs Svövu fer fram í gegnum Netið. Hún er með stóran kúnnahóp víðs vegar um heiminn, meðal annars stór nöfn í skemmtibransanum.

  Hverjir eru kostirnir við fjarþjálfun?

  „Ég er með einkaþjálfun og svo netþjálfun,“ segir hún. „Stórstjörnurnar þjálfa ég í einkaþjálfun til dæmis. Netþjálfunina setti ég upp bæði af því ég vildi að fólk út um allan heim gæti orðið partur af Víkingaklaninu og að þeir sem ekki hafa efni á að fara í ræktina eða fá sér einkaþjálfara líði ekki fyrir það. Mig langaði að bjóða þeim upp á frábært prógramm. Ég elska að þjálfa gegnum Netið. Ég hef kynnst fólki frá svo mörgum mismunandi löndum í gegnum það og þau kynni stækkað mig svo mikið sem manneskju. Besta sem ég veit er að fá skilaboð frá fólki sem segir mér hversu mjög prógrammið mitt hefur breytt lífi þess. Þá ekki bara æfingarnar og mataræðið, margir segja mér að þeir hafi fundið styrk til slíta ofbeldisfullum samböndum, sækja um starfið sem þeir höfðu ekki sjálfstraust til að sækjast eftir áður og svo framvegis. Hjartað nánast springur af gleði við að lesa slíkt.“

  Nú er komin bók frá þér, hvernig er hún uppbyggð og hvers vegna ákvaðst þú að skrifa hana?

  „Já The Viking Method-bókin kom út um heim allan þann 2. maí og ég er gífurlega spennt,“ segir Svava glöð. „Hún er byggð upp í kringum þrjá þætti eins og The Viking Method-prógrammið. Það er kafli um hvernig hægt er að bæta andlega líðan, það er æfingaprógramm og svo hellingur af uppskriftum. Auðvitað eru aðaluppskriftirnar alíslenskur víkingamatur, eins og íslensk kjötsúpa. Ég tala líka um hormóna og hvernig þú getur æft og borðað til að halda þeim í sem bestu jafnvægi, enda vinna þeir þá alltaf með þér en ekki gegn þér. Einnig tala ég um mína sögu og hvernig það að vera Íslendingur hefur hjálpað mér gífurlega í að koma mér áfram, þessi íslenska elja, að geta þolað margt og „þetta reddast“ hugsunarhátturinn. Það er mikil fróðleikur í bókinni en ég vil gefa fólki bæði vitneskju og þau allra bestu tól sem völ er á til að betrumbæta sig og sitt líf á allan hátt.“

  Einstæð móðir í London

  Svava á dóttur, Hrafnhildi Birnu, og þær mæðgur héldu saman út til stórborgarinnar á sínum tíma. Hvernig er að vera einstæð móðir í London og starfa sjálfstætt? „Það getur verið erfitt,“ segir Svava. „Frá því ég setti upp fyrirtækið mitt hef ég ekki gert neitt annað enn að vinna í að byggja það upp og verja öllum frítíma mínum með Hrafnhildi. Ég varð ólétt að henni þegar ég var bara 17 ára svo hún hefur gengið í gegnum margt með mér. Og Hrafnhildur er algjör víkingur, kom hingað og kunni náttúrulega ekki tungumálið og þekkti engan. Fyrir barn er það mjög erfitt að fara frá öllu sem það þekkir, en hún sigraði allt, lét aldrei deigan síga og er núna að læra aerospace engineering í einum af bestu háskólunum í Bretlandi.

  The Viking Method er í senn þjálfunar- og lífsstílsprógramm og snýst að sögn Svövu meira um að líða á ákveðinn hátt en að líta vel út.

  Tíminn meðan ég vann að því að setja saman Víkingaaðferðina var mjög harður. Við áttum litla peninga, ég vann á daginn, kom heim og sá um Hrafnhildi og eftir að hún fór að sofa varði ég öllum kvöldum, stundum langt fram á nótt í að setja upp fyrirtækið. Gerði vefsíðuna sjálf og öll vídeóin og allt sem þurfti að gera. Eftir að það var klárt, tók við gífurlega langur kafli í vinnu við að kynna og gera The Viking Method þekkta lífsstílsaðferð.

  „Ég hef ekkert jafnvægi í lífinu en ég er svo ánægð með það.“

  Stærsti og erfðasti parturinn er ekki að setja fyrirtæki upp. Það er að láta alla vita af fyrirtækinu. Þú ert með frábæra vöru og allt er tilbúið en hvernig læturðu heiminn vita af henni? Það er það erfiðasta og svo gífurlega tímafrekt. Maður sefur ekki út á sunnudegi eða kíkir út á lífið að hitta vinni á föstudegi. Allur tíminn verður að fara í þetta. Og allur minn tími gerði það. Að koma mér inn alls staðar, að fá að þjálfa rétta fólkið, að láta blöð, tímarit og vefsíður fjalla um prógrammið mitt. Og ég vissi að þetta yrði erfitt, ekkert sem skiptir miklu máli kemur til manns auðveldlega, svo ég ákvað í byrjun að sama hvað ég fengi mörg nei þá myndi ég ekki gefast upp. Ég myndi halda áfram þangað til ég færi að fá já. Og ég gerði það. Svo fór boltinn að rúlla en ég þurfti samt að gefa mig alltaf alla í þetta og geri enn.

  Ég hef ekkert jafnvægi í lífinu en ég er svo ánægð með það. Ég er ekki að leita eftir jafnvægi milli leiks og starfs. Að við þurfum að hafa jafnvægi í því er svo ofmetið. Maður á að gera það sem veitir manni gleði, lífshamingju, sem lætur mann vaxa sem manneskju, sem leyfir manni að hjálpa öðru fólki, sem fyllir mann ástríðu og friði. Mín ráð eru: Gerðu mikið af því og lítið af öðru. Finndu ójafnvægi á allra besta hátt, alltaf.“

  Það leynir sér ekki að þessi kona starfar af ástríðu og áhuga en hverjir eru framtíðardraumar hennar?

  „Framtíðarplönin eru að halda áfram að byggja upp Víkingaklanið um allan heim. Gefa út fleiri bækur, ferðast og halda Víkingahelgarnámskeið, setja upp fatalínu og svo framvegis. Tími til kominn að við sterku íslensku víkingarnir sýnum fólki hvernig á að gera þetta,“ segir Svava að lokum hlæjandi.

  Myndir / Aðsendar

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is